• _SOS7335

Samið um rekstur Lækjar

3. febrúar 2016

 Rauði krossinn í Hafnarfirði og Garðabæ og Hafnarfjarðarbær gerðu á dögunum með sér samning um rekstur Lækjar – athvarfs fyrir fólk með geðraskanir, á árinu 2016. Rauði krossinn og Hafnarfjarðarbær hafa frá árinu 2003 staðið að rekstri athvarfsins sem stendur við Lækinn í Hafnarfirði.

 Markmið Lækjar er að draga úr félagslegri einangrun og þannig bæta líkamlega og andlega heilsu. Unnið er eftir hugmyndafræði valdeflingar þar sem áhersla er lögð á að hafa skoðanir, taka ákvarðanir og velja sér lífsstíl sjálfur. Dagskrá athvarfsins er unnin í samvinnu við gesti þess.

 Tæplega 70 manns sækja athvarfið yfir árið og hefur aðsókn aukist á síðustu árum. Að meðaltali eru komur um 3500 á ári eða 14 manns daglega. Í athvarfinu starfa þrír starfsmenn auk þess sem sjálfboðaliðar sjá um ýmsa starfsemi.