• FF-Gbr-jan-2018_1521194216968

Spornum við félagslegri einangrun

16. mars 2018

Í fréttum Stöðvar 2 þann 15. mars kom fram að sífellt fleira ungt fólk upplifir einmanaleika og óhamingju. Mannfólkið er í eðli sínu félagsverur og flestir hafa ríka þörf fyrir að vera í samskiptum og félagsskap annarra. Margt getur þó orðið til þess að fólk missir samband við aðra og einangrast og erfitt getur reynst að rjúfa þann vítahring.

Í Bretlandi var fyrir stuttu ráðinn ráðherra gegn einmanaleika. Þetta er stórt skref og viðurkenning á að einmanaleiki og félagsleg einangrun er raunverulega til staðar í samfélaginu, en stór hluti Breta segist vera eða hafa verið einmana. Óhætt er að segja að einmanaleiki sé ekki sér breskt fyrirbæri. Rauði krossinn á Íslandi gerir reglulega rannsókn á því hvar þrengir að í samfélaginu og raunin er sú að á Íslandi búa margir við félagslega einangrun. Það er enginn sem velur það hlutskipti en ýmislegt getur orðið þess valdandi að fólk dregur sig í hlé og á í sífellt minni samskiptum við annað fólk. Dæmi um hugsanlegar ástæður eru veikindi, makamissir, atvinnuleysi, starfslok og fátækt.

Rauði krossinn vinnur gegn félagslegri einangrun og stendur fyrir ýmsum verkefnum sem geta hjálpað fólki úr vítahring einsemdar. Má þar nefna heimsóknavinaverkefnið þar sem heimsóknavinir og gestgjafar hittast einu sinni í viku í um klukkustund í senn t.d. til að spjalla, fara í gönguferð, á kaffihús eða ökuferð svo eitthvað sé nefnt.

Fleiri félagsleg verkefni hjá Rauða krossinum eru t.d. föt sem framlag þar sem sjálfboðaliðar hittast vikulega og prjóna, hekla og sauma og útbúa fatapoka fyrir fátæk börn í Hvíta-Rússlandi. Í verkefninu karlar í skúrum gefst karlmönnum tækifæri til þess að hittast og fá sér kaffisopa í opnum og vinalegum félagsskap og vinna að verkefnum á sínum eigin hraða og Tækifæri er verkefni fyrir ungt fólk til valdeflingar.

Vilt þú fá heimsókn eða taka þátt í öðrum verkefnum hjá Rauða krossinum?
Hafðu samband og kynntu þér málið.