Aðalfundur Kópavogsdeildar 2020

Aðalfundur Rauða krossins í Kópavogi var haldinn fimmtudagskvöldið 12. mars. Ágætlega var mætt á fundinn enda yfirleitt góð skemmtun.

DSC01043

David Lynch fór yfir árið 2019 á sinn einstaka máta og kynnti sömuleiðis áætlun 2020 hjá deildinni. Við látum formála Davids úr ársskýrlsunni okkar duga hér og hvetjum alla til að skoða myndirnar í skýrslunni og telja brosin. Þau eru besta vitnið um skemmtilegt starf sem bætir samfélagið okkar.

Dýrmæt auðlind

Áhersla ársins 2019 var á að styrkja verkefnin sem fyrir voru í deildinni, gömul og gróin sem og ný og vaxandi. Unnið var að efla innviði hvers verkefnis, auka þátttöku og sjálfboðaliðavæðingu þeirra með teymum, bættum ferlum og verklagi.

Við trúum því að verkefnin okkar bæti samfélagið, en samtímis eflir það sjálfboðaliðana sem manneskjur þegar þau takast á við áskoranir, læra nýja hluti og axla ábyrgð. Það er augljóst þegar sjálfboðaliðar koma saman og veita jafningjum sínum viðurkenningar fyrir framúrskarandi starf. Ánægja okkar allra felst í að sjá fólk vaxa og dafna í slíkum félagsskap.

Ársskýrsla 2019 beinir sviðsljósinu á okkar dýrmætustu auðlind, sjálfboðaliðana, sýnir fjölbreytni þeirra, persónulegan ávinning hvers og eins og samfélagsins í heild. Við viljum sýna hversu gott það er að vera meðal þeirra sem tilheyra stærstu mannúðarhreyfingu heims. Að vera hluti af alheimshreyfingu sem vinnur að betri heimi er nú mikilvægara en nokkru sinni áður. Að lokum vil ég fyrir hönd Rauða krossins í Kópavogi þakka öllum sjálfboðaliðum fyrir óeigingjarnt starf í gegnum árin og alla gleðilegu stundirnar sem árskýrsla þessi sýnir svo vel með brosmildu fólki á góðri stund.

Nýr formaður var kjörinn á fundinum, en það er Helga Þórólfsdóttir. Helga hefur mikla reynslu af Rauða krossinum, bæði innanlands sem utan. Hún er nú sáttamiðlari og stjórnendaráðgjafi og er góð viðbót við Kópavogsdeild.

Fundurinn kaus einnig nýtt stjórnarfólk, en það voru Hörður Bragason og Jón Grétar Guðmundsson sem eru nýjir aðalmenn til tveggja ára og Björn Ólafur Hallgrímsson og Gaukur Steinn Guðmundsson sem eru varamenn næsta árið. Garðar Guðjónsson verður áfram félagslegur skoðunarmaður til eins árs.

Kópavogsdeild þakkar fráfarandi stjórnarfólki, David Lynch formanni til 6 ára og Önnu Bachmann gjaldkera til 2 ára kærlega fyrir ötult starf fyrir Rauða krossinn.

Hér má nálgast ársskýrsluna á rafrænu formi RKI_KOP_Arsskyrsla_2019


DSC01035DSC01031