• IMG_0547

10. bekkingar í Kársnesskóla fá viðurkenningu frá Rauða krossinum

26. janúar 2017

Í morgun veitti Rauði krossinn í Kópavogi nemendum í 10. bekk í Kársnesskóla sem tóku þátt í valgreinni Skyndihjálp og hjálparstarf viðurkenningu og þakkir fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

Valgreinin Skyndihjálp og hjálparstarf er nýtt samstarfsverkefni Kársnesskóla og Rauða krossins í Kópavogi sem hófst síðastliðið haust. 31 nemandi í 10. bekk valdi þessa grein en í henni fólst að taka 4 klst. skyndihjálparnámskeið, kynnast starfi Rauða krossins og taka þátt í sjálfboðastarfi hjá deildinni. Nemendur völdu fjölbreytt verkefni, allt frá því að heimsækja aldraða, aðstoða við breytingar fatabúða í að halda fjáröflun á eigin fótum. Sama hvert litið var, það sem einkenndi þennan hóp nemenda var dugnaður, jákvæðni og áhugi. Margir unnu meira en ætlast var til af þeim og gerðu það með bros á vör. Það var því ekki að ástæðulausu að Rauði krossinn í Kópavogi taldi þennan hóp eiga skilið að fá viðurkenningu fyrir sín störf, enda hefur hópurinn sett einstaklega gott fordæmi fyrir aðra unglinga.

8 af nemendunum ákváðu að vinna sjálfboðið starf með því að halda fjáröflun. Þeir héldu styrktarbingó í sal skólans og sáu um skipulagningu, undirbúning og framkvæmd sjálfir. Fjáröflunin heppnaðist einstaklega vel og söfnuðust 96.000 krónur. Nemendurnir ákváðu sjálfir hvert þessi peningur færi og völdu verkefnið Útmeð'a, sem er samstarfsverkefni Rauða krossins og Geðhjálpar. Ástæða þess að þetta verkefni varð fyrir valinu var sú að nokkrir í hópnum þekktu til einstaklinga sem höfðu skaðað sjálfan sig og vildu því styrkja verkefni sem gæti hjálpað unglingum sem þeir þekktu til.

Að lokum viljum við þakka þessum flottu krökkum enn og aftur fyrir góð störf og fyrir að vera einstaklega góð fyrirmynd. Rauði krossinn hlakkar til að fá fleiri ungmenni til liðs við sig.

Karsnesskoli