• Garpurogmargret

60 ára farsælt mannúðarstarf

Rauði krossinn í Kópavogi fagnar afmæli sínu

12. maí 2018

Í dag, 12. maí, á Kópavogsdeild Rauða krossins sextugsafmæli og mun fagna því veglega þann 2. júní þegar Kópavogsbúum, sjálfboðaliðum deildarinnar fyrr og nú verður boðið til hátíðar við menningarhúsin í Kópavogi.

En hvað gerir Kópavogsdeildin í dag og hvað hefur hún gert síðustu áratugina? Á fimmtugsafmælinu gaf deildin út veglega bók um sögu starfsins og nú hafa 10 ár af lifandi starfi í þágu mannúðar bæst við. Í dag er deildin í fararbroddi á landsvísu í starfi í þágu þeirra sem eru félagslega einangraðir. Kópavogsdeild hefur yfirumsjón með starfi hundavina á landsvísu sem og símavina, en einnig er starf heimsóknavina öflugt. Innflytjendur taka virkan þátt í starfinu og eiga sinn þátt í að brjóta einangrun annara sem og sína eigin. Í hverri viku hittast 20-30 manns ásamt sjálfboðaliðum og æfa sig að tala íslensku, en tungumálið er talið lykilatriði í virkri þátttöku í félagslífi og samfélagi. Alla daga eru sjálfboðaliðar að prjóna fyrir þá sem minna mega sín í Hvíta Rússlandi og hittast í góðum félagsskap síðasta miðvikudag í hverjum mánuði.

Rauði krossinn í Kópavogi hefur frá endurreisn deildarinnar 1977 verið frumkvöðull í starfi í þágu berskjaldaðra á Íslandi og mikið starf verið unnið í þágu nærsamfélagsins. Eitt stærsta átak á Íslandi í þágu mannúðar og þeirra sem á þurfa að halda var unnið undir stjórn Rauða krossins í Kópavogi, en það var sameiginleg söfnun 9 félaga og klúbba fyrir sérhæfðu hjúkrunarheimili. Sunnuhlíð var fyrsta sérhannaða hjúkrunarheimili landsins og opnaði í maí 1982 eftir 3 ára þrotlausa sjálfboðavinnu og eljusemi fólks í Kópavogsdeild ásamt fjöldanum af fólki í samfélaginu. Rauði krossinn í Kópavogi lagði í tvo áratugi ómælda vinnu sjálfboðaliða og líklega um 200 milljónir króna að núvirði í stofnun og rekstur Sunnuhlíðar. Deildin er því tengd hjúkrunarheimilinu sterkum böndum sem enn í dag eru mjög sterk þar sem sjálfboðaliðar deildarinnar gefa tíma sinn til að efla félagsstarf, heimsækja þá sem eru einir og gleðja heimilisfólk með hundunum sínum og söng.


Stór frumkvöðlaverkefni deildarinnar takmarkast ekki við Sunnuhlíð, en deildin átti stóran þátt í stofnun Rauðakrosshússins í Tjarnargötu, Fjölsmiðjunnar í Kópavogi ásamt deildum á svæðinu og Rauða krossinum á Íslandi, og ekki má gleyma Dvöl í Kópavogi sem um þessar mundir fagnar 20 ára farsælu starfi með fólki með geðraskanir.

Það eru þó ekki hvað síst verkefni deildarinnar sem eru ekki með eigið húsnæði og ber oft minna á sem eru uppistaðan í starfi Rauða krossins í Kópavogi. Það eru sjálfboðaliðar deildarinnar sem síðustu 60 árin hafa lagt sig fram um að bæta samfélagið og reyna að draga úr þjáningu fólks sem af margvíslegum ástæðum þurfa aðstoð.

Rauði krossinn í Kópavogi þakkar öllum sjálfboðaliðum síðustu 60 ára ómetanlegt mannúðarstarf og öðrum velviljann og aðstoðina hvar sem hennar er þörf.