• 17778796_10212774077971882_1163401563_o

Æfingin skapar meistarann fær góðar viðtökur

3. apríl 2017

Æfingin skapar meistarann er samstarfsverkefni Rauða krossins í Kópavogi og Mímis-Símenntunar. Allir sem vilja þjálfa sig í íslensku eru velkomnir en nauðsynlegt er að hafa einhverja kunnáttu í málinu. Í hverjum tíma er tekið fyrir ákveðið umræðuefni sem talið er nytsamlegt í daglegu lífi. Fyrsta samverustundin fór fram síðastliðinn laugardag. Sjálfboðaliðar mættu til leiks af fullum krafti og 17 mjög áhugasamir þátttakendur sem vildu þjálfa sig í íslensku. Í fyrsta hluta samverunnar eru tveir og tveir saman sem kynna sig í léttu spjalli á íslensku. Notast er við algenga frasa sem gagnast í almennum samskiptum. Sjálfboðaliðar og þátttakendur meta svo út frá því hvort viðkomandi sé í byrjendahópi eða í hópi fyrir lengra komna. Í næsta hluta tekur þá við umræðuefni dagsins þar sem samræður, æfingar og leikir eiga sér stað í litlum hópum. Stemningin var ótrúlega góð og óhætt að segja að samveran hafi heppnast vel og fengið góðar viðtökur. Bæði sjálfboðaliðar og þátttakendur sýndu mikinn áhuga og skemmtu sér vel. Rík áhersla er lögð á gagnkvæmni þar sem sjálfboðaliðar vinna í samvinnu við þátttakendur í að skapa uppbyggjandi þjálfun í íslensku.

Samverustundir eiga sér stað alla laugardaga kl 10-12 í Mími, Höfðabakka 9 í Reykjavík. Þátttaka í þessu verkefni er ókeypis og ekki er þörf á skráningu.

Ennþá vantar fleiri sjálfboðaliða í þetta skemmtilega og eflandi verkefni! Ef þú hefur áhuga hafðu þá samband við Rauða krossinn í Kópavogi í síma 570 4060 eða sendu okkur póst á kopavogur@redcross.is 

17776613_10212774074131786_1231321418_o

17778759_10212774074451794_900650399_o17793208_10212774085732076_1557999851_n--1-