• Aesm-14.-april-7

Æfingin skapar meistarann fyrir alla sem vilja þjálfa sig í íslensku

6. september 2018

Rauði krossinn í Kópavogi í samstarfi við Mími-símenntun fer aftur af stað með verkefnið Æfingin skapar meistarann sem er fyrir alla sem vilja þjálfa sig í íslensku og kynnast fólki í leiðinni. Verkefnið hóf göngu sína vorið 2017 og hefur vakið mikla lukku. Í hverjum tíma er ákveðið umfjöllunarefni tekið fyrir sem hægt er að nýta sér út í samfélaginu, til dæmis: samgöngur, verslun, húsnæðismál, áhugamál, matur o.fl. Þátttakendum er skipt í smærri hópa eftir kunnáttustigi í íslensku og þar með fær hver og einn að njóta sín og þjálfa sig á sínum hraða.  Sjálfboðaliðar og innflytjendur hittast alla laugardaga frá og með 8. september í húsnæði Mímis, Höfðabakka 9 í Reykjavík.

Reglulega er hefðbundið form brotið upp og spilað, föndrað, hlustað á tónlist, horft á íslenskar kvikmyndir, farið á kaffihús, borðað saman og fleira skemmtilegt sem eykur þekkingu á tungumáli og samfélagi. Listasafn Íslands mun til að mynda taka þátt í starfinu í haust. Við munum taka fyrir efni úr sýningu safnsins sem þátttakendur hafa áhuga á að fræðast um sem tengist sögu og menningu Íslands. Í framhaldinu fá þátttakendur leiðsögn um safnið og geta spurt spurninga og rætt saman nánar um efnið.

Æfingin skapar meistarann er fyrst og fremst félagslegt verkefni og góður vettvangur fyrir fólk að æfa sig í íslensku og auka orðforða sinni. Allir eru velkomnir en taka skal fram að nauðsynlegt er að hafa einhvern grunn í tungumálinu. Þátttaka er ókeypis og það eina sem þarf að gera er að mæta! 

Vertu með á Facebook -> Æfingin skapar meistarann/Practice makes perfect.

Ef það eru einhverjar spurningar þá er hægt að senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is eða hafa samband í síma 570-4060.

Við hlökkum til að vera með ykkur í haust!