• IMG_0735--2-
  • IMG_0792--2-

Árangri fagnað á aðalfundi í Kópavogi

20. mars 2017

Síðastliðinn miðvikudag var aðalfundur Rauða krossins í Kópavogi haldinn. Formaður deildarinnar David D. Lynch opnaði fundinn með því að bjóða viðstadda velkomna. En eins og kunnugt er þá býr David yfir þeim einstaka hæfileika við að gera aðalfundi að skemmtifundum!  Reynsluboltarnir Kristján Sturluson var fundarstjóri og Sandra Grétarsdóttir var fundarritari. Á fundinum var farið yfir verkefni síðastliðins árs sem að hefur heldur betur verið viðburðar- og árangursríkt. Fjölmörg verkefni fóru af stað á árinu og eru verkefni gegn félagslegri einangrun efst á baugi. Ásamt því hafa miklar breytingar og stækkanir orðið á fataverslunum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu. Starf með ungu fólki hefur einnig farið vaxandi og hefur gert starfið litríkara fyrir vikið. Formaður og gjaldkeri fóru einnig gaumgæfulega yfir ársreikninga og fjárhagsáætlun deildarinnar af mikilli snilld!

Sérstakur gestur fundarins var að þessu sinni Dögg Hilmarsdóttir félagsfræðingur sem starfar hjá Fangelsismálastofnun ríkisins. Í fyrirlestrinum fjallaði hún um afplánun utan fangelsa og endurkomu út í samfélagið. Fyrirlesturinn var svo sannarlega upplýsandi og opnaði augun fólks fyrir mikilvægu málefni sem þarft er að sinna í okkar samfélagi.

Á aðalfundinum var að vana kosnir nýir stjórnarmenn og  Unnur Tryggvadóttir Flóvenz úr kjörnefnd kynnti frambjóðendur með glæsibrag. Í aðalstjórn voru kosin Birgir G. Magnússon, Margrét Halldórsdóttir til tveggja ára og Gaukur Steinn Guðmundsson til eins árs, þau voru öll sjálfskjörin. Í varastjórn voru Matthías Matthíasson og Anna Kristjana Hjaltested sjálfskjörin til eins árs. Garðar Guðjónsson var endurkjörinn félagslegur skoðunarmaður til eins árs.

Rauði krossinn í Kópavogi þakkar Ívari Kristinssyni og Ingibjörgu Bjartmarz sérstaklega fyrir góð störf í þágu deildarinnar á síðastliðnum árum og óskar þeim góðs gengis í nýjum verkefnum.

Ársskýrslu 2016 má nálgast hér.

Bjart er yfir Rauða kross Kópavogsdeildar og stefnt er á að halda í sama kraftinn með jákvæðni að leiðarljósi á nýju starfsári. 

IMG_0730--2-IMG_0701--2-IMG_0792--2-IMG_0797--2-IMG_0802--2-