• IMG_0207

Fatapökkun í Kópavogi

13. október 2016

Í gær var fatapökkun hjá verkefninu Föt sem framlag í Kópavogi. Nokkrir dugnaðarforkar úr verkefninu mættu á staðinn en einnig fengum við aðstoð frá meðlimum Lionsklúbbsins Engey. Sjálfboðaliðar verkefnisins hafa prjónað og saumað barnaföt síðustu mánuðina og því mikið búið að safnast upp. Að vana slógu þær öll sín fyrri met og pökkuðu 347 ungbarnapökkum ásamt tveimur stórum pokum af fatnaði fyrir eldri börn.

Verkefnið Föt sem framlag er starfandi um allt land í 24 deildum. Öllum pökkum er safnað saman í gám og síðan eru þeir sendir til Hvíta Rússlands þar sem Rauði krossin þar í landi tekur við þeim og kemur þeim í réttar hendur. Í Hvíta Rússlandi er mikil fátækt, vetrarkuldinn er gríðarlegur og þar má finna margar stórar barnafjölskyldur. Íslenska ullin kemur sér því vel þar í landi. 

Guðný Nielsen, starfsmaður á hjálpar- og mannúðarsviði, fór nýlega í heimsókn til Hvíta Rússlands til að sjá hvort afrakstur íslensku sjálfboðaliðanna væri ekki að skila sér. Hér má sjá stutt og skemmtilegt myndband þar sem Guðný heimsækir fjölskyldu sem fékk fatapakka frá Íslandi.