Félagsvinir eftir afplánun

23. ágúst 2018

Rauði krossinn í Kópavogi er að fara af stað með nýtt félagsvinaverkefni fyrir einstaklinga sem eru að ljúka afplánun refsivistar í fangelsi. Verkefnið er sett upp þannig að einn sjálfboðaliði sinnir einum þátttakenda í allt að 12 mánuði eftir að afplánun lýkur og aðstoðar hann við ýmsa þætti sem snúa að daglegu lífi, svo sem að sækja um vinnu, finna húsnæði, skipuleggja fjármál eða að fara í viðtöl til félagsráðgjafa. Markmiðið er að efla þátttakendur og aðstoða þá við að koma sér upp félagslegu neti óháð afbrotum.

Rauði krossinn hefur það að leiðarljósi að veita aðstoð til að gera fólk hæfara til að takast á við erfiðleika, taka þátt í samfélaginu og vinna gegn fordómum. Rauði krossinn skoðaði hvaða úrræði væru í boði fyrir fólk eftir afplánun á Íslandi og verulegur skortur er á stuðningi þegar snúið er til baka í samfélagið og margir eiga erfitt uppdráttar.  Þar af leiðandi er mikil hætta á að fólk einangrist félagslega og snúi aftur til baka í fyrra líf.

Að auki ætlar Rauði krossinn í Kópavogi að bjóða upp á opið hús einu sinni í viku þar sem hægt er að hitta annað fólk sem er með sömu reynslu að baki og getur fengið fræðslu og stuðning. Í opnu húsi verður boðið upp á stutt fræðsluerindi og praktíska aðstoð til dæmis við gerð ferilskrár, atvinnuleit, áhugasviðskönnun og fleira sem nýtist við daglegt líf.

Rauði krossinn leitar nú að sjálfboðaliðum fyrir verkefnið.

 Nánari upplýsingar má finna hér  eða í síma 570-4000