• Urraedi

Félagsvinir eftir afplánun

Opið hús

25. september 2018

Síðastliðinn miðvikudag var Rauði krossinn í Kópavogi með opið hús fyrir einstaklinga sem hafa lokið afplánun en það er hluti af nýju verkefni Rauða krossins í Kópavogi sem heitir Félagsvinir eftir afplánun. Opið hús er einu sinni í viku, alla miðvikudaga frá klukkan 19:00 til 21:00 þar sem hægt er að fá upplýsingar og stuðning og jafnvel hitta annað fólk sem hefur sömu reynslu að baki. Þar verður einnig boðið upp á stutt fræðsluerindi og ýmis konar aðstoð svo sem við gerð ferilskrár, atvinnuleit, áhugasviðskönnun og fleira sem nýtist við daglegt líf. 

Þar að auki er hægt að sækja um einstaklingsstuðning í formi félagsvins en það er sjálfboðaliði sem styður þátttakanda við ýmislegt er snýr að daglegu lífi og þær áskoranir sem taka við þegar afplánun lýkur, sem dæmi getur félgasvinur farið með þátttakenda í viðtöl til félagsráðgjafa, náms- og atvinnuráðgjafa eða á aðrar stofnanir. Einnig aðstoðar félagsvinurinn við að kynna nýtt félagsnet hvort sem það er í gegn um íþróttir eða aðrar tómstundir, allt eftir óskum þátttakanda.

Hægt er að fá frekari upplýsingar um opið hús, sækja um félagsvin eða gerast sjálfboðaliði í verkefninu með því að hafa samband við Rauða krossinn í Kópavogi s. 570-4000 eða á kopavogur@redcross.is. Frekari upplýsingar um verkefnið er inn á https://www.raudikrossinn.is/felagsvinir