• 31960372_10216730705845106_8531523234342895616_n-

Fögnum íslensku sem öðru tungumáli

14. maí 2018

Síðastliðinn mánudag, þann 7. maí fór fram málþing Ísbrúar félags kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál í Safnaðarheimili Háteigskirkju. Málþingið bar yfirskriftina Fögnum íslensku sem öðru tungumáli og Rauði krossinn í Kópavogi tók þátt í þinginu með því að kynna verkefnið Æfingin skapar meistarann sem er íslenskuþjálfun fyrir lengra komna. Í verkefninu kemur fólk saman alla laugardaga í húsnæði Mímis-símenntunar og æfir sig í að tala saman á íslensku. Lagt er áherslu á að byggja upp orðaforða sem nýtist í daglegu lífi.

Sjálfboðaliðinn, Helga Bára Bragadóttir og þátttakendurnir, Gary Hung og Lina Hallberg kynntu verkefnið með glæsibrag og slógu hreinlega í gegn. Verkefnið vakti athygli áhorfenda og framsögn þeirra fór skemmtilega fram þar sem tekin voru fyrir raunveruleg dæmi úr þjálfuninni enda mikið líf og fjör á samverum.

Þátttakendur drógu saman þætti sem að einkenna verkefnið og gerir starfið einstakt:  

- Samtöl í litlum hópum

- Íslendingar með í talæfingum

- Kafað djúpt í efnið

- Hægt að spyrja spurninga

- Praktísk þjálfun

- Þjálfun fer fram út frá tungumálastigi

- Góð tímasetning, tíðni og þátttaka ókeypis

- Einlægur áhugi

 Góður andi ríkir á samverum og gott samstarf innan verkefnisins. Á kynningunni endaði þátttakandi á að segja að verkefnið væri það besta sem hann hafði nokkurn tímann verið hluti af en þar hafi hann myndað einstök vináttutengsl.

Æfingin skapar meistarann fer nú í sumarfrí en heldur göngu sína áfram í haust í samstarfi við Mími- símenntun. Samverur hefjast þann 8. september og þá þýðir ekkert annað enn að halda áfram að æfa sig því að „Æfingin skapar meistarann!“. 

32077995_10216730702005010_6894764399597191168_n-