• Forsida-vertunaes_tilb-3

Hefur þú dulda fordóma?

21. mars 2016

 

Vikan 14.-21. mars er Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti en 21. mars er einnig Alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti.  Af því tilefni er vert að opna umræðuna um fordóma á Íslandi og þá sérstaklega kynþáttafordóma. Eru kynþáttafordómar við líði hérlendis og hvernig komum við í veg fyrir þá?

 

Oll-eins-myndÞað má heyra margar mismunandi raddir innan samfélagsins. Margir vilja bjóða nýtt fólk af erlendum uppruna velkomið til landsins á meðan að aðrir óttast það sem fjölmenning gæti haft í för með sér. Margir telja sig ekki fordómafulla en átta sig ekki á þeim duldu fordómum sem búa innra með þeim. Það má reglulega heyra fólk segja „Ég er ekki með fordóma en...“, einnig erum við Íslendingar alltof gjörn á að svissa yfir í enskuna um leið og við spjöllum við einstakling sem er með annan hörundslit. Hvað eru þetta annað en fordómar? Þrátt fyrir að vilja vel eigum við það til að særa fólk óviljand.

 

Það er mikilvægt að opna augun fyrir nýjum og breyttum tímum og fagna því sem fjölbreytileikinn hefur í för með sér. Við þurfum að líta í eigin barm og gæta þess að huga að náunganum. Við þurfum einnig að átta okkur á því hversu fjölmenningarlegu lífi við lifum nú þegar og gera okkur grein fyrir því að við getum ekki hreinlega valið sumt sem er af erlendum uppruna og hafnað öðru. Hvaðan er maturinn sem þú leggur á borðið heima hjá þér? Hvaðan eru fötin sem þú gengur í?

 

Við búum öll saman í einum heimi, öll komum við af sama uppruna og hvernig sem við lítum út erum við öll manneskjur. Það er því gríðarlega mikilvægt að við alhæfum ekki um fólk út frá útliti, trúarbrögðum eða uppruna. Við þurfum að kynnast hvert öðru og sjá hvað ólíkir einstaklingar hafa að bjóða. Við sem Íslendingar viljum ekki láta alhæfa um okkur, gætum þess að gera það ekki um aðra. Opnum hjörtu okkar og huga og þá fyrst getum við séð að við erum öll eins inn við beinið.