• IMG_1163

Heimsóknahundurinn Samson heiðraður sem Þjónustuhundur ársins 2017

27. nóvember 2017

Árlega heiðrar Hundaræktarfélag Íslands afreks- og þjónustuhund ársins. Í gær var heimsóknahundurinn Samson heiðraður sem Þjónustuhundur ársins 2017. Til að geta hlotið tilnefningu sem þjónustuhundur hjá Hundaræktarfélaginu þarf hundurinn að vinna allan ársins hring að þjónustu í samfélaginu, líkt og t.d. lögreglu-, fíkniefna-, toll-, björgunar- og að sjálfsögðu heimsóknahundar Rauða krossins gera.

Samson hefur, ásamt eiganda sínum Helgu, heimsótt hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ vikulega í mörg ár. Samson sinnir glaður sínu starfi, elskar að labba um á meðal heimilisfólks og fá klapp og knús. Um leið og hann setur upp Rauða kross klútinn veit hann hvert hann er að fara og getur ekki beðið eftir að komast út. Einstakt geðslag hans og frábær eigandi eru orðin ómissandi hluti af staðnum. Þegar Helga hefur ekki komist spyrja margir hvort Samson geti ekki bara komið, sem segir okkur hvað nærvera hundsins skiptir heimilisfólkið miklu máli og hvað það nýtur þess að umgangast hann.

Fyrir utan vikulegar heimsóknir sínar sinna Helga og Samson fleiri verkefnum. Helga er hópstjóri hundavina hjá Rauða krossinum og sér um að skipuleggja viðburði sem hundavinirnir taka þátt í, s.s. kynningarbás verkefnisins á hundadögum í Garðheimum. Allt þetta gera þau tvö í sjálfboðaliðavinnu.

Samson á því titilinn svo sannarlega skilið og óskum við honum og Helgu innilega til hamingju með viðurkenninguna. Á sama tíma vill Rauði krossinn þakka þeim fyrir ómetanleg og óeigingjörn störf.