• IMG_0726_600

Met slegið í fatapökkun í Kópavogi

30. október 2015

Síðastliðinn miðvikudag pökkuðu sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag öllum barnafötunum sem þeir hafa verið að sauma og prjóna síðastliðna mánuði. Sjálfboðaliðarnir hafa náð að safna ótrúlegum fjölda af barnafötum á síðastliðnum mánuðum og slóu nýtt met þegar þeir náðu að pakka 354 ungbarnapökkum sem og fylla 4 stóra kassa af lopapeysum og húfum fyrir eldri börn. Það var blandaður hópur sjálfboðaliða sem tók þátt í pökkununni í þetta skiptið. Það vildi svo skemmtilega til að 4 ungar stúlkur voru staddar í húsinu. Þær voru ekki lengi að koma sér í verkefni og aðstoðuðu konurnar sem voru á staðnum við að útbúa kassana. Það var alveg sérstaklega gaman að sjá hversu vel þessar ólíku kynslóðir unnu saman og kassarnir voru fljótir að fyllast af fötum!
 

Allir pakkarnir verða síðan sendir út til Hvíta Rússlands þar sem Rauði krossinn þar í landi sér um að úthluta þeim. Í Hvíta Rússlandi er mikil fátækt og á veturna verður gríðarlega kalt. Fatapakkarnir frá Íslandi koma því til góðra nota þar úti. Í hverjum fatapakka eru tvær peysur/treyjur, teppi, húfa, tvö sokkapör, tvær samfellur, tvö handklæði og buxur. Það má því sjá hversu mikla vinnu þessir ótrúlegu sjálfboðaliðar leggja í þetta metnaðarfulla verkefni. 

Rauði krossinn í Kópavogi vill senda sjálfboðaliðunum í Föt sem framlag sérstakar þakkir fyrir mjög svo vel unnin störf. Takk kærlega allir sem tóku þátt í pökkununni, sjáumst hress í næsta prjónakaffi!

IMG_0720_600IMG_0724_600IMG_0725_600