• IMG_0175

Rauðakrossbúðin í Mjóddinni sett í nýjan búning

11. október 2016

Síðastliðinn laugardag var Rauðakrossbúðinni í Mjóddinni lokað tímabundið á meðan unnið er að breytingum í búðinni. Verslunin hefur verið opin síðan í nóvember 2009 og var kominn tími á yfirhalningu. Búðin er ein af fimm verslunum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu en unnið er að því að setja allar búðirnar í nýjan búning.

IMG_0170

Breytingar fóru vel af stað um helgina og voru margir sem lögðu hönd á plóg, bæði iðnaðarmenn og sjálfboðaliðar. Þarna var saman kominn stór og fjölbreyttur hópur sjálfboðaliða. Þaulvanar búðakonur, ungir grunn- og framhaldsskólanemar sem og aðrir sjálfboðaliðar Rauða krossins höfðu gaman að því að pakka og rífa niður það gamla til að gera rými fyrir nýrri og flottari búð.

IMG_0185

Eins og sjá má á myndunum er þetta hörkuvinna og mikið sem þarf að gera áður en búðin opnar á ný. Rauði krossinn kann því vel að meta allt það framlag sem sjálfboðaliðar eru tilbúnir til að leggja af hendi. Það er gaman að segja frá því að bara núna síðastliðna helgi unnu sjálfboðaliðar 130 klst. og þar af unnu krakkar úr 10. bekk í Kársnesskóla 73 klst. Þetta er ómetanlegt framlag og alltaf jafn frábært að sjá hvað fólki finnst gaman að gefa tíma sinn og vinnu og mætir á staðinn með bros á vör.

IMG_0189

Takk fyrir ykkar vinnu kæru sjálfboðaliðar. Enn er nóg eftir og þiggjum við þá aðstoð sem býðst. Við látum ykkur síðan vita um leið og búðin opnar á ný!