• 20160910_111414

Skyndihjálparkynning á foreldrasýningu

12. september 2016

Margt var um manninn í Hörpu um helgina en þar fór fram foreldrasýningin My baby. Á staðnum voru fyrirtæki og fleiri aðilar að kynna sína vöru og þjónustu sem öll var ætluð foreldrum og verðandi foreldrum. Rauði krossinn mætti að sjálfsögðu á svæðið og var með kynningu á skyndihjálp. Lögð var sérstök áhersla á að kynna námskeiðið Slys og veikindi barna sem er sérhæft námskeið ætlað foreldrum eða öðrum sem annast börn dags daglega. Einnig var námskeiðið Börn og umhverfi kynnt, sérstaklega fyrir eldri systkinum, þar sem námskeiðið er ætlað 12 ára og eldri.

Fólkið sýndi Rauða krossinum mikinn áhuga og voru allir sammála um mikilvægi skyndihjálparkunnáttu og mátti heyra margar reynslusögur foreldra þar sem réttu handtökin björguðu börnunum. Fólki stóð til boða að prófa að hnoða og blása í dúkkur og þótti mörgum mjög áhugavert að fylgjast með starfsfólki og sjálfboðaliðum Rauða krossins sýna réttu handtökin. Oft safnaðist saman góður hópur þegar verið var að sýna hvernig átti að hnoða ungabarn eða ná aðskotahlut úr öndunarvegi þess.

Inni á skyndihjalp.is má nálgast allar nánari upplýsingar um skyndihjálp en þar er einnig hægt að lesa betur um námskeiðin okkar og skrá sig á öll námskeið. Hvetjum við alla til að kynna sér skyndihjálpina, nauðsynlegt er að rifja hana upp á tveggja ára fresti. Það er því um að gera að skrá sig á námskeið sem fyrst. Einnig bendum við öllum á að fá sér appið í símann, það kostar ekki neitt, er mjög auðvelt í notkun og getur bjargað manni þegar maður gleymir hvað skal gera þegar á reynir.