• Averkar-a-hofdi

Slástu í hópinn og lærðu skyndihjálp!

21. nóvember 2017

Það hefur margsannað sig að skyndihjálpin bjargar mannslífum og við vitum aldrei hvenær við þurfum á þessari mikilvægu þekkingu að halda. Í skyndihjálp lærirðu ótal margt sem snýr að því að hlúa fólki sem verður fyrir slysi eða bráðum veikindum. Þar má læra allt frá því að þekkja einkenni heilablóðfalls eða stöðva blóðnasir yfir í það að beita endurlífgun á einstakling í hjartastoppi. Slys og veikindi gerast allt í kringum okkur og geta fyrstu viðbrögð viðstaddra skipt sköpum fyrir þann sem slasast/veikist. 

Rauði krossinn í Kópavogi býður reglulega upp á fjölbreytt námskeið í skyndihjálp, bæði fyrir börn og fullorðna. Á árinu 2017 hafa nú þegar 463 einstaklingar lært skyndihjálp af einhverjum toga hjá deildinni og enn eru tvö námskeið á dagskrá fyrir jólin. Það er því ekki seinna vænna en að skrá sig og slást í þennan stóra hóp sem vill vera tilbúinn þegar á reynir.
Námskeiðin sem Rauði krossinn býður reglulega upp á eru 4 klst. skyndihjálparnámskeið, Slys og veikindi barna sem og Börn og umhverfi. Einnig hefur deildin t.d. sett upp námskeið eftir þörfum fyrir Kópavogsbæ. 

Á 4 klst. skyndihjálparnámskeiði er farið í grunnatriði skyndihjálpar og sálræns stuðnings og er markmiðið að fólk öðlist lágmarksfærni í að veita slösuðum eða veikum aðstoð í bráðatilfellum. Það hentar því vel öllum sem vilja læra grunntökin eða rifja upp það helsta. Skráðu þig á næsta námskeið, 28. nóvember, hér!

Á námskeiðinu Slys og veikindi barna er einnig farið í grunnatriði skyndihjálpar en þar er einbílnt á slys og veikindi sem ung börn verða frekar fyrir. Námskeiðið hentar því vel foreldrum, dagmæðrum, starfsfólki leikskóla og öðrum sem umgangast mikið ung börn. Skráðu þig á næsta námskeið, 30. nóvember, hér! 

Börn og umhverfi er ætlað börnum 12 ára og eldri. Á því námskeiði er markmiðið að þátttakendur læri að umgangast börn á ýmsum aldri, þekki helstu slysavarnir og gildi þeirra og geti brugðist við algengum áverkum og veikindum barna. Það hentar því vel eldri systkinum eða frændsystkinum. Þessi námskeið eru haldin á hverju vori og verða næstu námskeið í mars-júní 2018.

Lestu meira um skyndihjálp, sjáðu hvaða fleiri námskeið Rauði krossinn býður upp á og skráðu þig inni á skyndihjalp.is.