• Heimsoknavinir-mynd

Snúum bökum saman og vinnum gegn einmanaleika

11. september 2018

Einmanaleika þekkjum við flest öll á eigin skinni eða eigum eftir að upplifa einhvern tímann á lífsleiðinni. Segja mætti að umræðan um einmanaleika fái ekki nægilegan hljómgrunn hér á landi því líkt og annars staðar þá er einsemd víða að finna. Á þessu ári var til að mynda ráðherra gegn félagslegri einangrun ráðinn í Bretlandi. Félagsleg einangrun er mun algengari en fólk gerir sér grein fyrir en um er að ræða samfélagsmein sem mikilvægt er að gera viðeigandi ráðstafanir fyrir.

Einmanaleiki á meðal aldraðra er þekkt fyrirbrigði enda fylgja því oft miklar breytingar að eldast. Þrátt fyrir að einmanaleiki á meðal aldraðra sé fólki kunnugt þá benda nýlegar kannanir hérlendis á að einmanaleiki sé meiri á meðal yngra fólks en eldra, þar voru sérstaklega ungir karlmenn í áhættuhóp. Annar hópur sem vert er að nefna eru innflytjendur enda fylgja því miklar breytingar að koma sér fyrir í nýju landi, tungumálaþáttur er algeng hindrun fólks við að tengjast félagslegum böndum. Það er því mikilvægt úrræðin séu fjölbreytt og mæti þeim hópum þar sem þörfin er brýnust.

Einsemd getur auðveldlega leitt til félagslegrar einangrunar sem orsakast af margvíslegum þáttum. Þetta getur verið flókinn vítahringur sem erfitt er að koma sér út úr og því er mikilvægt að opna umræðu um einmanaleika og svo hægt sé að koma til móts við þá sem búa við slíkar aðstæður. Góð og náin félagsleg tengsl auka lífsgæði fólks, um er að ræða gæði umfram magn það er að segja það skiptir ekki máli hversu marga vini viðkomandi hefur heldur skiptir nándin höfuðmáli. Nýlegar rannsóknir hafa til að mynda sýnt fram á að góð félagsleg tengsl leiða af sér lengri og heilbrigðari lífsævi.

Það er mikilvægt að úrræði séu aðgengileg fyrir fólk sem glímir við félagslega einangrun. Heimsóknavinir Rauða krossins er eitt slíkt en verkefnið miðar fyrst og fremst að því að létta fólki lífið og rjúfa félagslega einangrun. Heimsóknavinir heimsækja fólk á einkaheimilum, stofnunum, sambýlum, dvalar- og hjúkrunarheimilum og dagheimilum. Um er að ræða klukkustunda samvera og spjall sem fer fram annað hvort innan eða utan dyra. Þetta er samkomulagsatriði á milli gestgjafa og heimsóknavina. Hlutverk heimsóknavina er fyrst og fremst að veita nærveru, hlýju og félagsskap. Því viljum við, kæri lesandi að við snúum bökum saman og vinnum gegn einmanaleika.

Ef þú vilt fá heimsóknavin þá er hægt að sækja um hér og ef þú vilt gerast heimsóknavinur þá fer skráning fram hér . Frekari upplýsingar er hægt að finna undir vinaverkefni eða hafa samband í síma 570 4000.