• IMG_1500
  • IMG_1491

Stórskemmtilegur aðalfundur Kópavogsdeildar

16. mars 2018

Aðalfundur Rauða krossins í Kópavogi var haldinn í gær, 15. mars, og var vel mætt á fundinn. Fjölbreyttur hópur sjálfboðaliða tók þátt í umræðum og gleðinni sem ríkti að vanda. Fyrir venjuleg aðalfundarstörf hélt Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi frá Hjálparstarfi kirkjunnar erindi um fátækt og félagslega einangrun sem vakti fundargesti til umhugsunar. Vilborg lagði áherslu á að leitað sé eftir áliti þeirra sem búa við fátækt eða hafa búið við fátækt í stað þess að sérfræðingar á skrifstofum ákveði hvað þau þurfa. Þetta, segir Vilborg, sé lykilatriði í að bæta kjör fólks til lengri tíma. 

David Lynch formaður deildarinnar flutti skýrslu stjórnar um síðastliðið ár og var það líflegt og áhugavert að vanda. David setti upp myndasýningu þar sem fundargestir fengu að spreyta sig á gestaþrautinni "Hvaða verkefni er þetta?" Myndir af brosandi sjálfboðaliðum og þátttakendum í verkefnum deildarinnar prýddu sýningu Davids sem og ársskýrslu deildarinnar fyrir árið 2017. 
Ársreikningur deildarinnar 2017 var afgreiddur á fundinum og þykir ljóst að Kópavogsdeild er til fyrirmyndar í að nýta fjármagn vel til verkefna í samfélaginu. 

Kjör stjórnarfólks gengu vel og var það Hildur Tryggvadóttir Flóvenz sem kynnti framboð til stjórnar. Í framboði voru: David Lynch í embætti formanns til 2 ára, Anna Þ. Bachmann og Gaukur Steinn Guðmundsson sem aðalmenn til tveggja ára, Matthías Matthíasson sem aðalmaður til eins árs, Helga Bára Bragadóttir og Baldur Steinn Helgason sem varamenn til eins árs og Garðar Guðjónsson sem skoðunarmaður til eins árs. Öll voru kjörin með lófaklappi og boðin velkomin til starfa.Fráfarandi stjórnarfólk, þau Helga Jörgensen og Birgir Magnússon voru kvödd með þökkum fyrir sitt góða og mikla framlag undanfarin ár og það er vonandi að þau haldi áfram að starfa fyrir hreyfinguna næstu árin.
Eftir ljómandi gott kaffihlé kynnti David áætlun þessa árs og sýndi fundargestum hvernig fjárhagsáætlunin endurspeglar stefnu deildarinnar í verkefnavali. Þar er mest áhersla lögð á verkefni til að draga úr og koma í veg fyrir félagslega einangrun. 

Ársskýrslu Rauða krossins má nálgast útprentaða á skrifstofu deildarinnar í Hamraborg 11 eða á rafrænu formi hér

IMG_1464

IMG_1491

IMG_1493

IMG_1483

IMG_1488