• 640a9440

Vel heppnuð afmælishátíð

60 ára afmælishátíð Rauða krossins í Kópavogi

7. júní 2018

Kópavogsbúar og fleiri velunnarar Rauða krossins í Kópavogi fögnuðu 60 ára afmæli deildarinnar á túninu við Menningarhúsin þann 2. júní. 

Sjálfboðaliðar og starfsfólk deildarinnar settu upp tjald og fatamarkað og buðu gesti velkomna. Fleiri hundruð nýbakaðar vöfflur með rjóma og súkkulaðikaka runnu ljúflega ofan í gesti sem skemmtu sér vel við John Tomasson, töframann og fallega tóna Söngvina. Þrátt fyrir að ekki væri beinlínis hlýtt úti þessa fyrstu helgi júnímánaðar fengu öll börn sem vildu bæði fallega andlitsmálningu og skemmtilega blöðru frá listamönnum sem létu kuldann ekki á sig fá.  

Ronja ræningjadóttir heilsaði upp á krakkana og Þjóðlagasveitin Þula lék einstaklega fallega þjóðlagatónlist og fengu gesti til að syngja með. Fólk á öllum aldri fékk að knúsa og klappa heimsóknahundum sem voru á vappi og fjölmargir spreyttu sig á endurlífgun á þar til gerðum skyndihjálpardúkkum.

Konurnar í Föt sem framlag ásamt fleiri sjálfboðaliðum höfðu heklað glæsileg veggteppi sem voru til sýnis í kringum Menningarhúsin, þar á meðal á strætóskýli.

Rauði krossinn í Kópavogi vill þakka öllum gestum hátíðarinnar fyrir að koma og sérstaklega þeim sjálfboðaliðum sem aðstoðuðu við hátíðina og þeim listamönnum sem komu fram.


640a9504640a9532640a9437640a9501640a9448