• 20180610_153733

Vingjarnleg og lærdómsrík heimsókn frá norska Rauða krossinum

Heimsóknavinur með hund

14. júní 2018

Heimsóknavinir með hunda er vinsælt verkefni hjá Rauða krossinum og hefur eftirspurn aukist ár frá ári. Einnig er samfélagið í heild sinni orðið opnara fyrir gæludýrum á almenningssvæðum. Í takt við þær breytingar  hefur eftirspurn og aðsókn aukist í verkefnið.

Ákveðið var í samráði við sjálfboðaliða að breyta fyrirkomulagi verkefnisins að norskri fyrirmynd til að bæta gæði og öryggi allra aðila.

Leiðbeinendur frá norska Rauða krossinum komu hingað til landsins helgarnar 26.-27. maí og 9.-10. júní til að þjálfa sjálfboðaliða í að verða heimsóknavinir með hunda. Námskeiðið var heldur betur lærdómsríkt og ekki síður skemmtilegt. Á námskeiðinu voru bæði nýir og reyndir sjálfboðaliðar sem tóku þátt. Mikilvægt er að sjálfboðaliðar taki virkan þátt og geti í framtíðinni aðstoðað við að leiðbeina á námskeiðinu líkt og gert er hjá norska Rauða krossinum. Þar að auki var hundaþjálfari og atferlisfræðingur viðstaddur sem kemur til með að þróa starfið með okkur í haust.

Til þess að taka þátt í verkefninu þá þurfa allir að fara í viðtal og svo í gegnum grunnhundamat þar sem reyndir sjálfboðaliðar meta bæði eigendur og hundana þar sem þeir eru metnir sem ein heild. Hér má finna nánari upplýsingar um færniviðmið. Þegar eigandi og hundur hafa fengið grænt ljós geta þeir skráð sig á hundavinanámskeið. Þrátt fyrir að hundurinn spili aðalhlutverkið í verkefninu þá er einnig nauðsynlegt að sjálfboðaliðar ljúki við heimsóknavinanámskeið þar sem þeir fá innsýn í hlutverk heimsóknavina og læra meðal annars virka hlustun.

Framvegis verður hundanámskeiðið tvær helgar með a.m.k. tveggja vikna millibili sem eigendur og dýrin sækja saman. Áætlað er að hundanámskeiðið fari fram einu sinni á önn og er mikilvægt að klára bæði námskeiðin áður en starfið hefst.

 Markmið námskeiðsins er eftirfarandi:

·         Skilja hlutverk eiganda og hunda sem heimsóknavinir

·         Öðlast grunnþekkingu um hunda

·         Góður skilningur á markhópnum

·         Að öðlast getu til þess að vera heimsóknavinur með hund og heimsækja gestgjafa með öruggum,                      góðum og virðingarfullum hætti

·         Læra grunn- og sérhæfðar verklegar æfingar sem nýtast í starfi

 Undirbúningur fyrir þetta verkefni er umfangsmikið og þess vegna þurfa sjálfboðaliðar að vera tilbúnir að skuldbinda sig a.m.k. eitt ár. Hundarnir þurfa að vera orðnir tveggja ára og mega helst ekki vera eldri en tíu ára til þess að taka þátt.

 Nú fer af stað undirbúningur við að aðlaga námskeiðið að íslenskum heimsóknavinum og erum við byrjuð að taka á móti umsóknum fyrir næsta hundanámskeið.

 Rauði krossinn í Kópavogi hefur umsjón yfir verkefninu á landsvísu og taka skal fram að deildin er lokuð í júlí.

Ef þú telur að þetta henti þér og hundinum þínum þá máttu endilega hafa samband í síma 570-4063 eða senda póst á kristina.erna@redcross.is.

20180527_15065820180526_143935-0-20180609_134551

20180609_131129

Hundanamskeid-6