• _SOS7379-Edit

Árni Gunnarsson nýr formaður Rauða krossins í Reykjavík

16. mars 2016

10357129_765552746908959_5945301615785902169_nÁrni Gunnarsson var kjörinn formaður Rauða krossins í Reykjavík á fjölmennum aðalfundi deildarinnar í gærkvöldi. Árni hefur verið gjaldkeri stjórnar síðasta árið og áður sinnt fjölbreyttri stjórnarsetu fyrir Rauða krossinn.

Á fundinum kom fram að veruleg umskipti hafa verið í deildinni, sem í vetur samþykkti skýra stefnu um hjálparstarf í höfuðborginni.

Á árinu 2015 fjölgaði verulega konum sem leita í Konukot, athvarf Rauða krossins í Reykjavík fyrir heimilislausar konur. Þær voru 91 á árinu, miðað við 59 konur árið 2014, og gistu í samtals 2.384 nætur.

Nýjungar í starfseminni er veruleg efling á efnislegri aðstoð við berskjaldað fólk. Nú er hægt að sækja um að fá fatakort, sem eru ávísun á fatnað í verslunum Rauða krossins, og aðstoð úr Áfallasjóði Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu. 

Rauði krossinn í Reykjavík heldur úti athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, heilbrigðis- og nálaskiptiaðstoð á götum höfuðborgarsvæðisins, aðstoð við flóttafólk og innflytjendur, heimsóknarvinum og fjölskylduráðgjöf fyrir barnafjölskyldur í vanda.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Reykjavík voru 750 og félagar um 8.000. Yfir 20 starfsmenn vinna hjá deildinni.

Í stjórn deildarinnar eftir aðalfundinn í gærkvöldi eru, auk Árna Gunnarssonar formanns, Ragnar Þorvarðarson varaformaður sem sinnt hefur embætti formanns frá síðustu áramótum, Huld Ingimarsdóttir gjaldkeri, Oddrún Kristjánsdóttir, Sóley Ómarsdóttir, Hermann Guðmundsson og Pétur Þorsteinsson. Helga Bára Bragadóttir og Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir eru í varastjórn.