Ungmennastarf

Rauði krossinn í Reykjavík rekur ungmennahóp sem opinn er þátttöku ungu fólki á aldrinum 13-30 ára. Starfið er breytilegt, en markmið hópsins er að stuðla að framgangi hugsjóna og verkefna Rauða krossins með fræðslu, málefnastarfi, opinberum viðburðum og fjáröflun. Starfið býður upp á tækifæri fyrir öfluga sjálfboðaliða til að hafa áhrif.  

Fundir eru allajafna hálfsmánaðarlega, og hist er í húsnæði Rauða krossins, Efstaleyti 9. Um þessar mundir er helsta verkefni ungmennahópsins að koma í gang leiknum "Á flótta", hlutverkaleik með það markmið að bjóða ungu fólki nasaþef af veruleika þeirra sem þurfa að yfirgefa heimili sín og halda út í óvissuna. 16 ára aldurstakmark er í það verkefni.

Verkefnastjóri er Þorsteinn Valdimarsson, við hvetjum áhugasama til að hafa samband í netfangið thorsteinn@redcross.is

Ung og öflug

Við bjóðum ungmennum 13-16 ára að kynnast starfi og gildum Rauða krossins á mánudögum kl. 15:30 í Efstaleiti 9. 

Starfið er liður í að byggja upp nýja kynslóð sjálfboðaliða og gefa ungu fólki tækifæri til að láta rödd sína heyrast innan félagsins og finna leið til að leggja sitt af mörkum. Á dagskrá verða kynningar á verkefnum hreyfingarinnar erlendis sem innanlands, ásamt fræðslu í gegn um leiki og önnur skapandi verkefni. 

Allir áhugasamir geta mætt beint á staðinn eða haft samband við verkefnisstjóra á netfangið thorsteinn@redcross.is

Studd í spuna

Roleplay hópar Rauða krossins

Viltu spila spunaspil en ert ekki með hóp? Studd í spuna er verkefni þar sem markmiðið er að hittast, hafa gaman og að spila spunaspil (roleplay) á borð við Dungeons & Dragons.

Verkefnið er ætlað ungu fólki á aldrinum 18-30 ára, ekki þarf að skrá sig, það eru allir velkomnir og enga reynslu þarf til að taka þátt. Verkefnið fer fram öll miðvikudagskvöld kl. 19.00 í Rauða krossinum (Efstaleiti 9).

Hægt er aðfylgjast með verkefninu á Discord.

Fyrirspurnum má beina til Þorsteins, thorsteinn@redcross.is

Sjáumst!