Ársskýrsla 2001

31.12.2001

AKUREYRARDEILD RKÍ

ÁRSSKÝRSLA 2001

Lögð fram á aðalfundi 15. maí  2002

 

 

Meginverkefni Akureyrardeildar RKÍ voru á árinu 2001 með svipuðum hætti og verið hafa undanfarin ár. Sjúkraflutningar, fatasöfnun, fjárstuðningur, útlán sjúkrarúma og námskeiðahald voru helstu reglulegu verkefnin í daglegri umsjón Hafsteins Jakobssonar starfsmanns deildarinnar. Skráðir félagar 31. desember 2001 voru  602

 

Aðalfundur deildarinnar var haldinn 16. maí 2001 og voru þá kjörin í stjórn Sigurður Ólafsson, formaður, og meðstjórnendur þau Sigríður M. Jóhannsdóttir, Jón Knutsen, Lára Ellingsen, Guðný Bergvinsdóttir, Valdís Gunnlaugsdóttir, Gísli Kr. Lórenzson, Gunnar Frímannsson og Guðfinna Hallgrímsdóttir. Til vara voru kjörin Jón Kr. Sólnes, María Pétursdóttir og Úlfar Hauksson. Endurskoðendur voru kjörnir þau Ragnar Jónsson, löggiltur endurskoðandi, og Kristín Sigfúsdóttir. Stjórnin skipti með sér verkum þar sem Valdís Gunnlaugsdóttir var kjörinn varaformaður, Gísli Kr. Lórenzson ritari og Jón Knutsen gjaldkeri.

 

Haldnir voru 9 formlegir fundir í stjórn og framkvæmdaráði á árinu auk þess sem stjórn eða fulltrúar stjórnar funduðu með ýmsum hópum  vegna mismunandi verkefna, m.a. átti deildin fulltrúa í nefndum á vegum RKÍ.

 

Aðalfundur RKÍ var haldinn  í Hafnarfirði 25. og 26. maí 2001. Fundinn sóttu 5 stjórnarmenn og framkvæmdastjóri deildarinnar.

 

Deildin átti ekki fulltrúa í svæðisráði en starfsmaður deildarinnar og fulltrúar úr stjórn sóttu nokkra fundi að ósk svæðisráðs auk þess sem nokkrir fundir voru haldnir í húsnæði deildarinnar. Svæðisfundur  deilda á Norðurlandi var haldinn á Húsavík 13. október 2001.

 

Formannafundur deilda RKÍ var haldinn í Reykjavík 31. mars.  Fundinn sótti formaður  deildarinnar ásamt starfsmanni.  

 

Sjúkrabílar deildarinnar fóru 1.167 ferðir á árinu 2001. Ferðir utanbæjar voru 133, þar af 82 út fyrir svæði deildarinnar. Af þessum 1.266 sjúkraútköllum voru 276 bráðatilfelli, 10 sinnum var björgunarbíll (klippubíll) kallaður út, þar af var hann notaður 8 sinnum eftir umferðarslys, mest utanbæjar. Á árinu fóru sjúkraflutningsmenn í 166 sjúkraflug og af þeim voru 8 erlendis.

 

Námskeiðahald var með svipuðum hætti á árinu og undanfarin ár. Haldin voru námskeið í skyndihjálp, námskeið fyrir barnfóstrur og námskeið í sálrænni skyndihjálp. Skyndihjálparhelgi, sem virðist vera að skipa sér fastan sess, var haldin í húsnæði deildarinnar. Deildin kom auk þess að mörgum námskeiðum með útvegun leiðbeinenda, kennslubúnaðar og aðstöðu.

 

Sjúkrarúm deildarinnar voru meira og minna í útláni síðasta ár. Rúmin eru nú í umsjá deildarinnar fyrir utan eitt sem er umsjá Heimahlynningar.

 

Neyðarvarnaskipulag deildarinnar var yfirfarið að venju auk þess sem haldið var áfram að mennta flokkstjóra.

 

Laut, athvarf fyrir geðfatlaða, hefur nú starfað í rúmt ár og þó ekki sé hægt að meta verkefnið fyllilega á svo stuttum tíma virðist aðsóknin jafnvel vera meiri en menn þorðu að vona.

 

Á árinu var þónokkuð um að hópar kæmu í heimsókn til deildarinnar en einnig fóru fulltrúar frá deildinni í kynninsferð RKÍ til Genfar.

 

Fatasöfnum er sem fyrr snar þáttur í starfi deildarinnar. Tekið er á móti fatnaði árið um kring í húsnæði deildarinnar auk þess sem hægt er að losa föt í gám sem er við húsnæði deildarinnar. Send voru hátt í 30 tonn til Hollands en  einnig voru send föt til Namibíu og efni og dót til hannyrða til Lesótó.

 

Deildin styrkti sem fyrr heilsugæsu í Lesótó en eins og kunnugt er er þetta sameginlegt verkefni deilda á Norðurlandi. Vænta má þess að þessu verkefni fari nú að ljúka og nýtt taki við.

 

Sem fyrr styrkti deildin fjölmörg verkefni á starfsárinu. Erlendis voru þau í El Salvador, Indlandi, Síberíu, Kasakstan og Tadzjikistan en innanlands var m.a. unnið með Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstarfi kirkjunnar en fengu ýmis félagasamtök smærri styrki. Þá styrkti deildin sumarbúðir að Löngumýri ásamt öðrum deildum á Norðurlandi.

 

Rekstur sjúkraíbúðar að Þingvallastræti 20 á Akureyri hefur gengið í samræmi við væntingar. Deildin hefur ekki haft neinn kostnað af þessum reksti en  kominn er tími til að mála innandyra. Gistidagar ársins voru 227 sem verður að teljast viðunandi nýting.

 

Formaður færði starfsfólki deildarinnar, samstarfsfólki í stjórninni, sjálfboðaliðum og öðrum þeim, sem stutt hafa starfsemina, bestu þakkir fyrir störf þeirra á síðasta ári. Sérstaklega þakkaði hann Hafsteini Jakobssyni framkvæmdastjóra en það hefur oft reynt verulega á þolinmæði hans gagnvart formanni. Formaður lét í ljós óskir um að það ár sem nú er að líða eigi eftir að skila okkur eitt skref fram á veginn og vænti góðs samstarfs við stjórn og starfsmenn deildarinnar hér eftir sem hingað til.