Ársskýrsla 2007

31.12.2007

AKUREYRARDEILD RKÍ

ÁRSSKÝRSLA 2007

Lögð fram á aðalfundi 13. mars 2008

 

 

Þó svo  að verkefni Akureyrardeildar  á árinu 2007 hafi verið með svipuðum hætti og undanfarin ár er óhætt að segja að  árið hafi samt verið frábrugðið að ýmsu leyti. Fyrir það fyrsta var aðalfundur landsfélagsins haldinn hér á Akureyri í maí og kom deildin eðlilega nokkuð að undirbúningi hans. Kynningarvika Rauða krossins var síðan haldin  á haustdögum en hún skilaði auknum fjölda sjálfboðaliða inn í starf deidarinnar. Síðan hefur á árinu verið unnið að því að koma á stofn Fjölsmiðju á Akureyri en hún tók til starfa á haustdögum.  Námskeiðahald, fatasöfnun, og aðkoma að ýmsum verkefnum voru þó sem fyrr aðalviðfangsefni deildarinnar auk þess sem á skrifstofu deildarinnar er haldið utan um rekstur og innheimtu fyrir Sjúkrabílasjóð RKÍ á Norður- og Austurlandi. Voru þessi verkefni í daglegri umsjón Hafsteins Jakobssonar framkvæmdastjóra deildarinnar. Deildin rekur einnig athvarf fyrir geðfatlaða í samstarfi við Akureyrarbæ og Geðverndarfélag Akureyrar og er það verkefni í daglegri umsjón Jónínu Hjaltadóttur forstöðukonu í Laut. Skráðir félagar í Akureyrardeildinni 31. desember 2007 voru 701 er það fjölgun frá fyrra ári, þá  hafa skil á félagsgjöldum einnig batnað (395). Sjálfboðaliðasamningum hefur einnig fjölgað og voru þeir í lok árs 111.

 

Aðalfundur deildarinnar var haldinn 13. mars 2007 og voru þá kjörin í stjórn Sigurður Ólafsson, formaður, og meðstjórnendur þau Páll Sverrisson, Sigrún Birna Sigtryggsdóttir, Auður Ásbjörnsdóttir, Dusanka Kotaras, Ester Brune, Jón Knutsen, Guðný Bergvinsdóttir,  Þorsteinn E. Arnórsson og Þórdís B. Valdimarsdóttir. Til vara voru kjörin Gunnar Frímannsson, Elsa Benediktsdóttir og Jón G. Knutsen. Skoðunarmaður var kjörin Guðlaug Kristinsdóttir. Stjórnin skipti með sér verkum þar sem Sigrún Birna Sigtryggsdóttir var kjörin varaformaður, Þórdís Brynjólfsdóttir ritari og Páll Sverrisson gjaldkeri. Að venju sá endurskoðunarskrifstofan Deloitte & Touche um endurskoðun ársreikninga deildarinnar.

 

Haldnir voru 10 formlegir fundir í stjórn og framkvæmdaráði á árinu auk þess sem stjórn eða fulltrúar stjórnar funduðu með ýmsum hópum vegna mismunandi verkefna.

 

Aðalfundur RKÍ var haldinn 19. maí. Hann var að þessu sinni haldinn á Akureyri og þótti takast vel. 

 

Deildin tók virkan þátt í svæðastarfi deilda á Norðurlandi en formaður deildarinnar er einnig formaður svæðisráðs. Aðalfundur svæðisins var  haldinn á Húsavík 29. september síðastliðinn. Fundinn sóttu nokkrir fulltrúar frá  deildinni.

 

Formannafundur deilda RKÍ var haldinn í Reykjavík 31. mars. Fundinn sóttu formaður og varaformaður deildarinnar ásamt framkvæmdastjóra.  

 

Námskeiðahald var með svipuðum hætti og verið hefur. Mest var um skyndihjálparnámskeið fyrir ýmis fyrirtæki og hópa en auk þess námskeið fyrir almenning og sjálfboðaliða deildarinnar. Námskeiðið Börn og umhverfi var á sínum stað og ýmiskonar fræðsla fyrir sjálfboðaliða deildarinnar.

 

Rekstur sjúkraíbúðar að Þingvallastræti 20 á Akureyri hefur gengið í samræmi við væntingar en gistidagar ársins voru 177 sem er nokkur fækkun frá fyrra ári. Þá heldur deildin áfram að lána sjúkrarúm sem verið hafa í eigu deildarinnar lengi. Frekar hefur þó hægst á útlánunum miðað við það sem áður var.

 

Neyðarvarnaráætlun deildarinnar var að venju yfirfarin en ljóst er að langt er um liðið síðan stór hluti fjöldahjálparstjóra sat viðeigandi námskeið og úr því þarf að bæta við fyrsta tækifæri. Þó má geta þess að deildin á eina sex fulltrúa í skyndihjálparhópi sem komið var á laggirnar á svæðinu og hefur verið í reglulegri þjálfun. Hann mun væntanlega nýtast mjög vel þegar kemur að neyðarvörnum.

 

Starfsemi Lautar, athvarfs fyrir geðfatlaða, flutti á árinu í nýtt húsnæði við Brekkugötu 24 og á árinu var einnig skrifað undir nýjan samning um reksturinn. Nýr samningur gerir m.a. ráð fyrir að bætt verði við hálfu stöðugildi, úr 2,5 í 3 stöður.  Sjálfboðaliðum deildarinnar, sem starfa í Laut, hefur fjölgað á árinu en þeir eru nú um 17 talsins. 

 

Nokkuð er um að óskað sé eftir fræðslu um Rauða krossinn eða einstök verkefni hans. Er þar fyrst og fremst um að ræða skóla og leikskóla sem ýmist koma í heimsókn eða fá heimsókn frá deildinni.  

 

Móttaka á fatnaði gekk vel á liðnu ári en deildinni berast árlega um 50 tonn af fatnaði og skóm. Sjálfboðaliðar hafa sinnt því að flokka fatnaðinn og undirbúa markaði sem haldnir hafa verið u.þ.b 3ja hvern mánuð.  Aðstaða í fataflokkun hefur smám saman verið að batna og eru fötin nú   orðin nokkuð aðgengileg árið um kring.

 

Blásið var nýju lífi í verkefnið Föt sem framlag og er ágætur hópur sem sinnir því verkefni fyrir deildina bæði úti í bæ og í húsnæði deildarinnar.

 

Sjálfboðaliðum  í heimsóknarvinaverkefni hefur fjölgað jafnt og þétt síðan verkefnið hófst. Í augnablikinu er 21 sjálfboðaliði að sinna heimsóknum en hópurinn telur um 30 manns þannig að nokkrir eru að bíða eftir því að komast af stað.

 

Í tengslum við kynningarvikuna og leikinn Á flótta, sem fór fram í Skagafirði á árinu, hefur myndast áhugasamur hópur ungmenna sem hefur verið að hittast reglulega og unnið að undirbúningi ýmissa verkefna.  Vonandi er þar kominn grunnur að framtíðar ungmennastarfi innan deildarinnar.

 

Þegar litið er yfir árið 2007 þá hefur það verið mjög gott hvað varðar sjálfboðið starf. Verkefnum sem kalla á virka þátttöku hefur fjölgað og þau verkefni, sem fyrir voru, hafa fest sig í sessi. Greinilegt er að kynning og sýnileiki skilar sér í fleiri sjálfboðaliðum og virkir sjálfboðaliðar skila síðan bestu kynningunni fyrir þau verk sem þeir sinna fyrir félagið í heild.

Með þeim góðu sjálfboðaliðum  sem starfa með deildinni  hlýtur  árið í ár að lofa góðu.

 

Ýmislegt fleira úr starfi deildarinnar mætti nefna s.s. svæðasamstarf með sumarbúðir, vinadeildasamstarf og gerð könnunar á stöðu innflytjenda. Einnig má nefna góða samvinnu við Mæðrastyrksnefnd við einstaklingsaðstoð og samstarf við Menntaskólann í framlagi nemenda til samfélagsins og fleira og fleira.