Ársskýrsla 2008

31.12.2008

AKUREYRARDEILD RKÍ

ÁRSSKÝRSLA 2008

Starfsemi deildarinnar var með blómlegasta móti á nýliðnu ári. Aukning varð á starfsemi og verkefnum deildarinnar og fleiri virkir félagar bættust í hópinn.

 

Samkvæmt félagaskrá eru 707 skráðir félagar hér á okkar svæði, þar af eru um 112 sjálfboðaliðar með skráðan sjálfboðaliðasamning. Mjög margir af þessum sjálfboðaliðum eru virkir í starfi í einhverjum af okkar fjölmörgu verkefnum. Hjá deildinni eru 7 manns á launaskrá á tveimur stöðum. Ekki er um full stöðugildi að ræða í öllum tilfellum.

 

Á árinu voru haldnir 9 formlegir stjórnarfundir og auk þess nokkrir formlegir og óformlegir framkvæmdaráðsfundir. Einnig sátu fulltrúar deildarinnar fundi í nefndum sem við eigum fulltrúa í, þ.e. í stjórn Lautar, Fjölsmiðjunnar, Svæðisráði, Almannaheillanefnd og Almannavarnarnefnd.

 

Á árinu bættist við nýtt verkefni hjá okkur.       Akureyrardeildin er farin að  færa allt bókhald fyrir deildir á Norðurlandi og á Vestfjörðum. Þetta er töluvert verk sem unnið er í skorpum og krafðist þess að fjölga þurfti á skrifstofunni. Var Lára Elingssen ráðin í  þetta starf sem er 30%.

 

Heimsóknir til deildarinnar eru alltaf jafn vinsælar og er svo komið að nemendur af öllum skólastigum úr flestum leikskólum og skólum bæjarins koma hingað í heimsókn í fræðslu og kynningar. Einnig hefur framkvæmdastjóri farið í skólana með fræðslu um Rauða krossinn.

 

Fatamóttaka og flokkun er unnin alla daga vikunnar af sjálfboðaliðum. Ekki er á neinn hallað þó að nefnt sé eitt nafn í þessu sambandi. Það er hún Aðalheiður Vagnsdóttir, Heiða, eins og hún er oftast kölluð. Hún mætir hér alla daga vikunnar. Heiða sér einnig um sölu á fatnaði úr  búðinni okkar og á þeim fatamörkuðum sem við höfum haldið. Þessi sala er að festa sig í sessi og á örugglega eftir að skila okkur tekjum. Fatamarkaðirnir voru 5 á síðasta ári og afgangsföt voru sett í 4 gáma eða ca. 50 tonn af fötum. Gámarnir voru síðan sendir suður í fatasöfnunina þar.

 

Deildin var í samstarfi við nokkra aðila varðandi fatasöfnum og fatagjafir á árinu. Efnt var til jólafatasöfnunar í samvinnu við Norðausturdeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Safnað var jólafötum á börn frá 0 til 18 ára og voru Mæðrastyrksnefnd afhent fötin til fólks án endurgjalds. Söfnunin gekk vel og til að mynda gaf fataverslunin Joe´s um 20 jakkaföt á unglinga.

 

Einstaklingur, sem var við friðargæslu í Líberíu, óskaði eftir því við deildina að fá föt með sér til að útdeila þar. Hann hafði verið í stuttu fríi hér heima og fannst tilvalið að fara með föt með sér til baka aftur. Pakkað var stuttbuxum, bolum, pilsum og kjólum, ca. 50 kg og var samið við Icelandair um að rukka ekki fyrir yfirvigt á þessum farangri og var það auðsótt mál.

 

Einnig var samvinnuverkefnið, Malaví SPORT, með hjúkrunarfræðingum hér á svæðinu að safna íþróttaskóm, íþróttafötum, íþróttabúningum o.fl. Þessi söfnun var gerð að ósk þriggja hjúkrunarfræðinga sem voru við vinnu í bænum Madisi í Malaví. Þær höfðu stofnað íþróttafélag í tengslum við munaðarleysingaskóla. Íþróttafélagið heitir The Miracles. Búinn var til knattspyrnuvöllur og blakvöllur og vantaði þá allt sem við á fyrir starfsemi sem þessa. Söfnunin gekk vel og voru sendir héðan nokkrir tugir af fótbolta- og íþróttaskóm, boltum og loftpumpum sem og liðsbúningar fyrir heilt lið. Einstaklingur í Reykjavík safnaði einnig búningum frá Íþróttafélaginu Val og sendi með. Söfnunin hefur mælst sérstaklega vel fyrir hjá verðandi afreksfólki í Malaví. Íslandspóstur sá til þess að enginn kostnaður var við þessa sendingu alla leið til Malaví.

 

Verkefnið Föt sem framlag gekk einnig geysilega vel og voru útbúnir 1300 pakkar af fötum sem eru ætlaðir ungabörnum. Fatnaðurinn sem fer í pakkana er mestmegnis föt, bleyjur og teppi sem saumuð eru úr efnum sem okkur berast. Einnig eru föt sem koma úr fataflokkun notuð í pakkana. Þessir pakkar hafa allir farið til Malaví ásamt pökkum sem koma frá öðrum deildum. Væntanlega verður einnig farið að senda ungbarnapakka til Gambíu á þessu ári. Tveir einstaklingar frá gambíska Rauða krossinum voru hér í heimsókn fyrir viku. Þeir kynntu sér verkefni deildarinnar og tóku þátt í að útbúa ungbarnapakka með sjálfboðaliðunum okkar. Um 10 sjálfboðaliðar sinna þessum verkefnum hér í húsinu en einnig vinna sjálfboðaliðar heima við við saumaskap, hekl og prjón.  

 

Verkefni í Laut var með svipuðu sniði og áður. Þar vinna 4 starfsmenn í þremur stöðugildum og síðan eru 14 sjálfboðaliðar sem skipta á milli sín vinnu á laugardögum og sjá um að hafa opið. Samningur um Lautarverkefnið rennur út um næstu áramót og stefnir deildin að því að ná fram breytingum á þeim samningi.

 

Fjölsmiðjan hefur fest sig í sessi og gengur reksturinn þar mjög vel. Þvottur á bílum, sala á notuðum húsgögnum og húsbúnaði og mötuneyti eru helstu verkefnin. En einnig hefur Fjölsmiðjan tekið að sér smærri verkefni fyrir ýmsa aðila. Þar vinna 4 starfsmenn. Nemar Fjölsmiðjunnar eru nú um 15 talsins.

 

25 sjálfboðaliðar hafa unnið að heimsóknarvinaverkefninu okkar undanfarin misseri. Reyndar eru þeir ekki allir með gestgjafa núna en það á örugglega eftir að breytast fljótlega því þetta verkefni hefur mælst vel fyrir.

 

Á árinu var hafinn undirbúningur að verkefni sem kallast félagsvinir. Í því verkefni er ætlunin að koma saman einstaklingum sem þekkja vel til landsins og öðrum sem nýkomnir eru hingað til lands. Aðallega eru þetta konur að aðstoða aðrar konur að koma sér inn í íslenskt samfélag.

 

Sjúkraíbúðin í Þingvallastræti var töluvert í notkun á árinu eða um 170 gistinætur. Undanfarið hefur verið rætt um að skipta um íbúð þar sem þessi er ekki með gott aðgengi fyrir veikt fólk og fatlaða. Þetta verður skoðað og jafnvel athugað hvort deildir á svæðinu  væru fáanlegar til að taka þátt í þessu verkefni.

 

Námskeiðshald á vegum deildarinnar var með ágætum á árinu. Haldin voru um 40 skyndihjálparnámskeið, bæði stutt og löng. Þrír kennarar kenna aðallega á þessum námskeiðum. Einnig hélt deildin nokkur námskeið í sálrænni skyndihjálp. Á árinu bættust við tveir nýir leiðbeinendur í sálrænni skyndihjálp. Eftir efnahagshrunið bauð deildin upp á 5 námskeið í sálrænni hjálp. Námskeiðin voru ætluð Rauðakrossfólki og starfsfólki Akureyrarbæjar, þ.e. skóla, leikskóla, heilsugæslu og félagsþjónustu. Starfsfólk stéttarfélaganna fékk námskeið svo og starfsfólk bankanna. Þessi námskeið voru vel sótt og tók vel á þriðja hundruð manns þátt í þeim.

 

Endurmenntunarnámskeið fyrir fjöldahjálparstjóra sem og námskeið fyrir nýja fjöldahjálparstjóra var haldið á vegum svæðisráðsins. Núna eru um 30 fjöldahjálparstjórar með réttindi á svæðinu okkar.

 

Fjáraflanir og styrkir voru með hefðbundnu sniði. Gengið var til góðs á árinu og var svipaður fjöldi sjálfboðaliða sem tók þátt í því verkefni og fyrir tveimur árum. Mæðrastyrksnefnd var færður styrkur upp á tvær milljónir króna. Ein milljón kom frá neyðarsjóði RKÍ og hin frá deildinni. Styrkurinn skiptist þannig að fyrir 500 þús. voru keypt staðgreiðslukort hjá Bónus, gjafakort á Glerártorg fyrir 100 þús. og síðan fóru 1.400 þús. inn á reikninga til matarkaupa. Samstarf við Mæðrastyrksnefnd hefur stöðugt verið að aukast og fyrir síðustu jól aðstoðuðu sjálfboðaliðar Rauða krossins við pökkun og afhendingu matarpakka. Þetta samstarf á örugglega eftir að aukast og festa sig betur í sessi.

 

Deildinni hlotnaðist höfðingleg gjöf á árinu en það var arfur eftir hjón hér í bæ. Þeim fjármunum er óráðstafað og er til umræðu að stofna minningarsjóð um hjón þessi. Hægt verður síðan að sækja styrki úr sjóðnum til valinna verkefna. Ekki er enn búið að ákveða þetta og eru því tillögur vel þegnar.

 

Verkefni okkar á svæðisvísu eru nokkur. Sumarbúðaverkefni að Löngumýri í Skagafirði og í Sykkishólmi eru alltaf jafn vinsæl. Þrjú tímabil eru á hverju sumri og eru 13 pláss á hverju tímabili. Vinadeildasamstarf við Rauðakrossinn í Maputo í Mosambik er aðallega fólgið í rekstri á barnaheimilinu Boa Esperansa auk menntunarverkefnis fyrir ungmenni. Þessi verkefni eru meðal annars fjármögnuð með sölu á batikmyndum sem við fáum frá Mósambik.

 

Skyndihjálparhópurinn er samstarf deilda á svæðinu og hefur verið í stöðugri þjálfun í þrjú ár. Í júni á síðasta ári fór hluti hópsins út til Liverpool í keppni í skyndihjálp. Ótímabær ísbjarnardráp og yfrvofandi hrun Icesave reikninga voru ekki hópnum til framdráttar í þessari keppni en engu að síður stóðu þátttakendur sig með stakri prýði. Þessi keppni var bæði skemmtileg og fræðandi fyrir hópinn og verður örugglega farið aftur í keppni þessa þegar hún verður haldin í vinveittara landi en Englandi.

 

Stór hluti hópsins fór á námskeið sem kallast Vettvangsstjóranámskeið eða First responder og var haldið að Narfastöðum í Reykjadal. 8 einstaklingar frá okkar deild tóku þátt í því ásamt 4 frá öðrum deildum á svæðinu. Námskeiðið var haldið á vegum Sjúkraflutningaskólans og stóð yfir í tvær helgar. Almenn ánægja var með þetta námskeið og stóð hópurinn sig frábærlega vel. Aðstaðan að Narfastöðum er virkilega góð og er staðarhaldarinn einn úr hópnum. Guðný Björnsdóttir, svæðisfulltrúi, sá um að námskeiðið færi vel fram og lék einnig miserfiða sjúklinga í verklegum æfingum. Guðný tryggði einnig að fólk fengi vel að borða og á hún skildar bestu þakkir fyrir.

 

Við efnahagshrunið og þá erfiðleika, sem þjóðfélagið er í, var stofnuð í október nefnd ýmissa félaga og stofnana á Akureyri. Nefndinni var ætlað að fylgjast með ýmsum þáttum í bæjarfélaginu og koma með tillögur til að bæta ástand það sem fólk hefur orðið fyrir í áföllum sem dunið hafa yfir þjóðina. Akureyrdeildin á fulltrúa í þesssari nefnd sem kallast Almannaheillanefnd. Í fyrstu var fundað á hverjum föstudegi en nú er fundað annan hvern föstudag um breytingar á stöðu mála.

 

Að öllum þessum verkefnum, sem talin hafa verið upp, standa sjálfboðaliðar Rauða krossins, fólk sem leggur tíma sinn og vinnu til aðstoðar þeim sem minna mega sín jafnt hérlendis sem erlendis.

 

Jón Knutsen