Ársskýrsla 2009

31.12.2009

AKUREYRARDEILD RKÍ

ÁRSSKÝRSLA 2009

Lögð fram á aðalfundi 11. mars 2010

Starfsárið 2009 var með venjubundnu sniði hjá Akureyrardeildinni. Þó hefur starfsemin greinilega fundið fyrir ástandinu í þjóðfélaginu. Fleiri sækja til deildarinnar eftir hjálp og fatasalan hefur aukist til muna. Unnið hefur verið eftir framkvæmdaáætlun sem hefur að mestu gengið eftir. Hér á eftir verður gerð grein  fyrir helstu verkefnum ársins 2009.  

Dagleg störf starfsfólks, þeirra Hafsteins, Láru, Stefáns og sjálfboðaliða, hafa verið með mesta móti undanfarið ár. Hingað koma sjálfboðaliðar á hverjum degi til að sinna verkefnum í anda Rauða krossins. Starfsfólkið hefur nægum verkefnum að sinna. Það er af sem áður var þegar framkvæmdastjórinn sat einn við skrifborðið heilu dagana án þess að nokkur kæmi í heimsókn. Nú er svo komið að Hafsteinn kemst varla að skrifborðinu sínu fyrir starfsmönnum sem eru önnum kafnir við að færa bókhald deilda af Norður- og Vesturlandi og sinna bókhaldi sjúkrabíla af Norður- og Austurlandi. Verkefni Hafsteins eru engu að síður næg. Hér hefur komið mikill fjöldi af fólki til að kynna sér starfsemi deildarinnar og Rauða krossins almennt. Ber þar mest á skólafólki af öllum skólastigum. Leikskólakennarar koma með börnin og fá kynningu á því hvernig Rauði krossinn varð til og  þegar leikskólabörnin eru hér þá er Hjálpfús ekki langt undan og gefur góð ráð. Einnig hafa grunnskóla- og framhaldskólanemar komið á kynningu og einnig fengið fræðslu í skyndihjálp. Framhaldsskólanemar hafa einnig komið hingað í verkefni í saumaskap og fataflokkun. Eru þetta verkefni sem tengd eru kennslu í lífsleikni. Grunnskólanemar úr öllum skólum, sem völdu sér fatahönnun og saum í vali, tóku þátt í verkefninu „Föt sem framlag“.      

Í sumar kom hópur frá sumarbúðunum að Löngumýri í heimsókn. Farið var með hópinn inn í Kjarnaskóg í góðu veðri og slegið upp heljarinnar pizzuveislu. Gaman var að sjá hvað allir voru glaðir og ánægðir með móttöku okkar og við að sama skapi ánægð yfir vel heppnaðri heimsókn vina okkar úr Skagafirði.

Deildin kom að stórri alþjóðlegri æfingu sem var fólgin í flutningi slasaðra úr landi. Stór þota kom hingað frá Svíþjóð með lækna og hjúkrunarfólk. Markmiðið með æfingunni var að flytja slasaða úr landi til Svíþjóðar. „Sjúklingarnir“ voru sænskir og komu með vélinni. Þeir fóru upp á FSA í förðun en á meðan komu hingað um 60 manns, læknar og hjúkrunafræðingar, í morgunmat. Fjölbreytt hlaðborð var í boði með öllum hugsanlegu krásum sem prýða morgunverðarhlaðborð. Það var aðeins eitt sem gleymdist og það var hið þjóðlega íslenska smjör sem varð eftir inni í ískáp. Það kom ekki að sök og voru Svíarnir mettir og ánægðir þegar þeir fóru og byrjuðu æfinguna. Þeir sjálfboðaliðar sem komu að þessu verkefni fengu síðan að fara og fylgjast með og skoða sjúkravélina sem var búin öllum helstu tækjum og búnaði til að annast gjörgæslusjúklinga og minna slasaða.

Sjálfboðaliðar koma hér á hverjum degi í fataflokkun og saumaverkefnið „Föt sem framlag“. Þegar fjölmennast er eru hér 10 til 12 konur að sinna sníðavinnu, saumaskap og pökkun á ungbarnapökkum, flokkun fata og að sinna verslunarstörfum í verslun okkar á neðri hæðinni. Þess má geta að á síðasta ári var pakkað í 1.164 ungbarnapakka sem sendir voru til Malaví og Hvíta Rússlands.  Fatasalan hefur farið stigvaxandi og má sjálfsagt leita skýringa í „kreppuástandinu“ í þjóðfélaginu. Fólk kemur og kaupir hjá okkur ódýr og góð föt. Og þeir sem minnst hafa fjárráð borga einungis með þakklætisbrosi þegar fólkið gengur út með poka, fullan af góðum fötum á sjálft sig og börnin sín. Fyrir jólin var farið í að safna sparifötum og sá Mæðrastyrksnefnd um að úthluta þeim endurgjaldslaust. 5 markaðshelgar voru haldnar og alltaf margt fólk sem kemur og gerir góð kaup. Landsátak í fatasöfnun skilaði sér í auknu framboði á fötum til okkar.       

Önnur verkefni sem deildin hefur sinnt undanfarið ár er meðal annars þátttaka í almannaheillanefnd. Þar eru haldnir fundir reglulega um málefni íbúa Akureyrar og nágrennis sem snerta atvinnu og andlegt ástand fólks eftir að kreppan skall á. Deildin á fulltrúa í stjórn Fjölsmiðjunnar en Fjölsmiðjuverkefnið er löngu búið að sanna sig og greinilegt að full þörf er á þeirri þjónustu sem er í boði þar fyrir ungt fólk sem hefur ekki fótað sig í skóla eða á hinum almenna vinnumarkaði. Öll pláss eru þar fullnýtt.

Heimsóknarvinaverkefnið er í fullum gangi og núna síðustu misseri hefur verið unnið að því að auka við starfsemina. Um 25 til 30 sjálfboðaliðar eru skráðir sem heimsóknarvinir. Um 20 þeirra eru með gestgjafa og vinna í gangi að koma hinum í sambönd. Spennandi nýjung er að verða til í sambandi við þessar heimsóknir. Hundavinir kallast sú nýjung. Í því felst að heimsóknarvinur fer með hund með sér til gestgjafa. Þetta hefur mælst vel fyrir þar sem þetta hefur verið reynt og er búið að þjálfa 3 hunda upp í þessar heimsóknir hér á okkar svæði. Þetta er áhugavert verkefni sem vonandi mælist vel fyrir.

Verkefni með Mæðrastyrksnefnd var unnið fyrir jólin eins og undanfarin ár. Í því felst að hjálpa til við pökkun og úthlutun á matargjöfum fyrir jólin. Aldrei hafa fleiri sótt um aðstoð frá Mæðrastyrksnefnd en fyrir síðustu jól. Rúmlega 400 pökkum var úthlutað til fjölskyldna og einstaklinga á Akureyri og nærsveitum. Deildin lagði til rúmlega 3 milljónir króna í þetta verkefni. Keypt voru gjafabréf og hluti framlagsins fór til beinna matarkaupa. Þess má geta að peningar komu frá Rauða krossi Íslands í þetta verkefni og úr Legatssjóði Jóns Sigurðssonar.

Sjúkraíbúðin okkar í Þingvallastræti er enn eitt verkefnið okkar. Sá rekstur er eins og undanfarin ár á hendi FSA. Búið er að ræða það nokkuð lengi að skipta þurfi um íbúð þar sem núverandi íbúð er ekki alveg nógu hentug. Slæmt aðgengi fyrir fatlaða og sjúkraflutninga er að íbúðinni sem er í kjallara hússins og kvartað hefur verið undan kulda í henni. Tekin hefur verið sú ákvörðun að setja íbúðina á söluskrá og farið er að huga að nýrri eign. Horft er til þess að jafnvel sé hægt að skipta stórri íbúð í tvær minni einingar. Reynt verður að fá íbúð sem næst FSA.

Ekki gengu öll verkefni upp sem farið var af stað með. Lagt var í töluverða vinnu í verkefnið Mentor/Mentís. Meðal annars var þýddur og gefinn út bæklingur á erlendum tungumálum. Verkefnið snýst um að íslensk kona taki að sér konu af erlendu bergi og kynni fyrir henni land og þjóðhætti sem og réttindi og skyldur sem fólk af erlendu bergi þarf að þekkja við komuna til landsins. Skemmst er frá því að segja að lítill sem enginn áhugi var hjá þeim erlendu konum, sem eru á okkar svæði, á að fá slíka þjónustu. Esther, Dusanka og Þorsteinn fóru víða til að kynna þetta verkefni en það dugði ekki til. Verkefnið var því sjálfkrafa sett til hliðar í bili en athugað verður hvort þörfin eykst síðar.     

Vinadeildarsamstarf og svæðissamstarf var með sama sniði og undanfarin ár. Mosambikverkefnið heldur áfram. En þar er stutt við barnaheimilið Boa Esperansa og við Rauða krossdeildina í Mapútó.

Sumarbúðirnar að Löngumýri í Skagafirði eru geysilega vinsælar og komast færri að en vilja. Greinilegt er að þar er verkefni sem við verðum að hlúa að og tryggja að verði áfram til.

Skyndihjálparhópurinn er í góðu formi og mætir nokkuð reglulega á æfingar og í endurmenntun. Hluti af hópnum tók á síðasta ári námskeið í vettvangshjálp ( first responder) sem er eiginlega smækkuð útgáfa af sjúkraflutninganámskeiði. Hlutverk vettvangsliðanna verður með tímanum liður í heilbrigðisþjónustu til stuðnings sjúkraflutningum, sér í lagi í dreifðari byggðum landsins. Hópurinn safnaði peningum til kaupa á fatnaði sem nota á í útköllum og æfingum. Meiri og fjölbreyttari búnað þarf hópurinn að eignast en það kemur með tímanum. Hópurinn hefur notið velvilja á Slökkvistöðinni þar sem haldnar eru æfingar og æft með búnað liðsins. Einnig býðst félögum hópsins að vera með á vöktum á sjúkrabílunum. Nú vantar aðeins verkefni fyrir hópinn.

Lautin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, er eitt af okkar stóru verkefnum. Samningar við samstarfsaðila um Lautina hafa verið lausir um nokkurt skeið. Er það stefna okkar að draga úr fjárhagslegri aðkomu okkar smátt og smátt og láta reksturinn í hendur opinberra aðila, þ.e. Akureyrarbæjar. Það hefur reynst erfitt og er því okkar aðkoma að Lautinni óbreytt. 4 starfsmenn starfa við Lautina í þremur stöðugildum. Sjálfboðaliðar RKÍ sjá síðan um að halda opnu á laugardögum. 11 sjálfboðaliðar skipta á milli sín laugardagsopnuninni.     

Námskeiðshald er stór partur af okkar starfsemi. Nokkrar tegundir af námskeiðum voru haldnar hér á síðasta ári. Má þar nefna skyndihjálparnámskeið, námskeið í sálrænni hjálp, námskeið um börn og umhverfi og síðan í samvinnu við aðrar deildir voru haldin neyðarvarnanámskeið. Nýjasta námskeiðið sem haldið var hér fyrir nokkrum dögum var hundanámskeið en eins og áður hefur komið fram þá er meiningin að taka hunda með í heimsóknarþjónustu okkar. Námskeið sem haldin hafa verið á vegum deildarinnar eru rúmlega 50 talsins og lætur nærri að um 1000 manns hafi komið á þessi námskeið sem í boði voru.      

Fundir og ferðalög eru partur af störfum stjórnarfólks. Á árinu voru haldnir 6 stjórnarfundir auk nokkurra óformlegra funda. Formannafundur var haldinn í Reykjavík í janúar sem Hafsteinn og Guðný Bergvinsdóttir sóttu. Aðalfundur Akureyrardeildar var haldinn 12. mars. Var stjórn deildarinnar endurkosin með einni breytingu. Auður Ásbjörnsdóttir flutti til Reykjavíkur og Jónas Mellado kom inn í hennar stað. Þess má einnig geta að Esther Brune hætti í stjórn sl. sumar þar sem hún flutti úr bænum. Auði og Esther eru þökkuð vel unnin störf í þágu deildarinnar.

Í stjórn sátu á síðasta ári Jón Knutsen, formaður, og meðstjórnendur þau Dusanka Kotaras, Elsa Benediktsdóttir, Guðný Bergvinsdóttir, Hörður Ólafsson, Jónas Mellado, Páll Sverrisson, Þorsteinn E. Arnórsson og Þórdís B. Valdemarsdóttir. Í varastjórn voru Esther Brune, Gunnar Frímannsson og Sigrún Birna Sigtryggsdóttir. Skoðunarmaður reikninga var kjörin Guðlaug Kristinsdóttir.

Stjórnin skipti með sér verkum þar sem Guðný Bergvinsdóttir var kjörinn varaformaður, Þórdís B. Valdemarsdóttir ritari og Páll Sverrisson gjaldkeri.  Endurskoðunarskrifstofan Deloitte & Touche sá um endurskoðun ársreikninga deildarinnar.

Aðalfundur RKÍ var haldinn í Vík 16. maí. Svæðisfulltrúinn okkar, Guðný Björnsdóttir, tók upp á þeirri nýbreytni að fá rútu til að flytja hópinn til Víkur. Var smalað saman fulltrúum héðan af svæðinu og síðan var fólk hirt upp í á leiðinni, hvar sem til þess náðist. Var Guðný sjálfkjörin fararstjóri og Gunnar Frímannsson leiðsögumaður. En þar sem farastjórinn sat nær hljóðnemanum fer litlum sögum af leiðsögn Gunnars á suðurleiðinni.  Rútan var í stærra lagi og höfðu menn það á orði að þeir sem sátu aftast  komu alltaf of seint á alla viðburði þar sem afturendinn var svo lengi á leiðinni. Fundurinn gekk vel í alla staði. Tveir fulltrúar Akureyrdeildar, þau Sigurður Ólafsson og Aðalheiður Vagnsdóttir, hlutu viðurkenningu fyrir vel unnin störf í þágu Rauða krossins. Um kvöldið var boðið til kvöldverðar og dansleiks. Þess ber að geta að um Evróvisjonkvöld var að ræða og var feykilega góð stemning. Að sjálfsögðu unnu Norðmenn og var langmesta fjörið á borði Akureyrardeildar. Heimferðin var ekki síðri. Þá komst leiðsögumaðurinn loksins að og gat hann frætt okkur hin um staðarheiti og ábúendur á stærstu jörðunum sem ekið var fram hjá. Reyndar var ótrúlegt hversu mörg fjöll hétu Búrfell á leiðinni. Mikið var ort á leiðinni og verður það næsta fjáröflun á svæðisvísu að gefa út ljóðabók.  

Svæðisráðsfundur var haldinn á Hvammstanga 26. september. Hafsteinn, Páll og Jón fóru á fundinn auk þess sem Gunnar Frímannsson kom sem fulltrúi stjórnar landsfélagsins. Á fundinum var ákveðið að fjölga stjórnarmönnum úr þremur í fimm.

Kynningarvika RKÍ var haldin 12. til 17. október.  Þema þeirrar viku var skyndihjálp og söfnun nýrra félaga, svokölluðum liðsauka. Hugmyndin með liðsaukanum var sú að þeir sem skráðu sig væru félagsmenn í RKÍ en ekki endilega virkir félagar fyrr en kallað væri eftir aðstoð þeirra. 18 manns skráðu sig sem liðsauka á okkar svæði. Alla daga kynningarvikunnar voru viðburðir í húsnæði deildarinnar. Opið hús var á daginn og á kvöldin voru fræðslufyrirlestrar um skyndihjálp, endurlífgun, sálrænan stuðning og aðkomu að slysum. Aðaldagurinn var síðan laugardagurinn 17. október. Þá settum við upp fjöldahjálparstöð á Glerártorgi og var fólki boðið að skrá sig inn í stöðina og þáði veitingar fyrir. Sýnikennsla var í endurlífgun og aðkomu að ýmiskonar slysum. Tókst þessi vika með ágætum.

Svínaflensan setti mark sitt á starfið að svolitlu leyti. Töluverður viðbúnaður var á landinu öllu og farið var yfir vinnureglur varðandi hlutverk Rauða krossins ef til farsóttar kemur.  Guðný Bergvinsdóttir og Álfheiður Svana Kristjánsdóttir voru settar í samráðshóp sem koma átti saman ef til neyðarástands kæmi. Ekki kom til þess að hópurinn yrði kallaður saman, allavega ekki enn sem komið er.  Deildin fékk úthlutað 10 flensusprautum og voru þeir sprautaðir sem eru munstraðir í framvarðarsveit ef til neyðarástands kæmi.

Neyðarvarnaráætlun var yfirfarin samkvæmt venju en engar æfingar haldnar. Í kjallara deildarinnar var búnaði til neyðarvarna betur komið fyrir og hann gerður aðgengilegri. Búnaður þessi er t.d. dýnur, teppi, sængur, koddar og fatnaður. Svæðisfulltrúinn okkar, Guðný Björnsdóttir, átti stóran þátt í þessari betrumbót. Gerður var samningur við slökkvilið og lögreglu varðandi viðbragðshóp okkar. Samningur sá gerir ráð fyrir því að kalla megi viðbragðshópinn út til aðstoðar ef um einhvers konar vá er að ræða, t.d. eldsvoða í fjölbýlishúsum eða stærri slys eins og umferðarslys og eiturefnaslys.         

Þrjár nýjar talstöðvar voru keyptar á árinu. Þetta eru handstöðvar í svokölluðu Tetra kerfi, mjög langdrægar og er hægt að eiga samskipi við talstöðvar út um allt land. Í þessum talstöðvum eru rásir sem tengjast almannavörnum og Neyðarlínu og á auðveldan hátt getur Neyðarlínan tengt saman talhópa þegar og ef til hópslysa kemur. Lögregla, slökkvilið, björgunasveitir og sjúkrahús eru komin með þetta kerfi.

Akureyrdeild RKÍ svaraði kalli um neyðaraðstoð erlendis frá á síðasta ári. Í janúar barst beiðni vegna Palestínu. Þar hafði ríkt stríðsástand um nokkurt skeið. Eftir linnulausar árásir Ísraela voru borgir og bæir rústir einar og mikil neyð á svæðinu. Ákveðið var að setja 300 þúsund krónur í þessa neyðarbeiðni.

Í október kom síðan neyðarbeiðni vegna mikilla náttúruhamfara sem dunið höfðu yfir á Kyrrahafssvæðinu. Flóð, hvirfilvindar, jarðskjálftar og flóðbylgjur í kjölfar jarðskjálfta urðu á þessu svæði með stuttu millibili. Mikil eyðilegging og manntjón varð á mörgum stöðum og mikil þörf á aðstoð. Ákveðið var að setja 200 þúsund krónur í hjálparbeiðni þessa.

Samkvæmt fjárhags- og framkvæmdaáætlun fyrir árið 2009 var gert ráð fyrir 500 þús. krónum í hjálparbeiðnir erlendis og fór sú upphæð í þessi tvö verkefni. Þess má geta að það sem af er þessu ári er búið að setja 300 þús. í aðstoð til handa Haítibúum eftir jarðskjálftana miklu sem urðu þar 12. janúar sl. Nokkur framlög til styrktar Haíti frá einstaklingum og hópum hafa einnig borist deildinni. Vert er að minnast á söfnun leikskólabarna á leikskólanum Álfaborg á Svalbarðseyri. Þau teiknuðu og lituði myndir auk alskonar skúlptúra sem þau síðan seldu. Með þessu móti tókst þeim að safna rúmlega 112 þúsund krónum. Okkur var afhent upphæð þessi og rennur hún öll í aðstoð til Haítí. Frábært framtak það.

Fjáraflanir deildarinnar voru með hefðbundnu sniði eins og undanfarin ár. Tekjur af spilakössum, fatasölu, salarleigu og námskeiðshald voru stærstu tekjuliðirnir. Einnig er eitthvað um að einstaklingar styrki okkur og ekki má gleyma innkomu frá börnum sem halda tómbólur til styrktar Rauða krossinum. Um áramótin 2008 og 2009 barst okkur arfur úr dánarbúi Einhildar Sveinsdóttur að upphæð rúmlega 7 milljónir króna. Ekki hefur verið hreyft við þessum peningum enn. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um hvernig verja eigi þessum fjármunum en ekkert er ákveðið enn.

Svokallaður Legatssjóður styrkti deildina með umtalsverðri upphæð og fór hluti af þeim styrk í jólaúthlutun um síðastliðin jól. Frekari upplýsingar varðandi fjáraflanir og styrki koma fram í reikningum félagsins.

Að öllu framansögðu er greinilegt að nóg er um að vera hjá Akureyrdeild RKÍ. Það sem helst er ábótavant hjá okkur er húsnæðið. Það er orðið of lítið miðað við umfang verkefna. Fataflokkunin og búðin er fyrir löngu búin að fylla út í það rými sem til umráða er á neðri hæðinni. Skrifstofurýmið er engan veginn nógu stórt fyrir starfsfólk okkar og kennslusalurinn í það minnsta. Oft þurfa sjálfboðaliðar frá að hverfa þegar kennsla er í salnum. Þá er ekki hægt að sauma eða pakka því ekkert annað rými er til. Það er því ljóst að við verðum að fara horfa til annars og stærra húsnæðis eða það sem kannski væri æskilegast: að horfa til stækkunar á þessu húsnæði ef hægt væri.

Jón Knutsen formaður