Ársskýrsla 2012

31.12.2012

Árskýrsla Rauða krossins á Akureyri  fyrir árið 2012.

 

Óvissa, það er það orð sem lýsir árinu 2012 hjá Rauða krossinum á Íslandi hvað best. Minnkandi kassatekjur, samdráttur og niðurskurður hafa valdið því að ótrúlegur tími hefur farið í fundarhöld um skipulagsbreytingar af ýmsu tagi og sitt sýnist hverjum. Á fyrri hluta ársins var samráðshópur um skipulagsbreytingar settur á og voru framkvæmdarstjóri og formaður í þessum hópi og voru ófáar ferðir farnar suður vegna funda hópsins.

Við hér hjá Rauða krossinum á Akureyri höfum aftur á móti haldið okkar starfsemi óbreyttri að mestu leyti árið 2012. Að sjálfsögðu hafði þessi óvissa þau áhrif á okkur að við gátum ekki tekið stórar ákvarðanir vegna hugsanlegra skipulagsbreytinga innan Rauða krossins. Þegar líða tók á árið gerðist það svo að við tókum skrefið í átt til framfara og styrkingar okkar hér á Akureyri með því að fjárfesta í viðbótar húsnæði sem  gerir það að verkum að möguleikar okkar til aukinnar starfsemi og tekjuaukningar verða mun betri. Núna eru spennandi tímar framundan við að koma þessu nýja húsnæði okkar í það form sem við teljum hentugast og verða nóg verkefni fyrir sjálfboðaliða okkar á næstunni.

Eins og áður hefur komið fram hefur verið mikið fundað um skipulagsbreytingar, lagabreytingar og niðurskurð. Haldnir voru tveir aðalfundir, þ.e. aðalfundur og framhaldsaðalfundur þar sem verið var að breyta lögum RKÍ og fleira. Til að mynda breyttist nafn félagsins úr Rauða kross Íslands í Rauða krossinn á Íslandi og nöfn deildanna í kjölfarið og heitum við núna Rauði krossinn á Akureyri í stað Akureyrardeildar Rauða krossins. Þau lög sem aðallega breyttust voru tengd tekjuskiptingu félagsins og eins var verið að aðlaga lögin að kröfu Alþjóða Rauða krossins.

Tveir formannafundir voru haldnir á árinu, annar í Reykjavík og hinn á Akranesi, og snérust þeir eingöngu um skipulagsbreytingar  og hugmyndir tengdar þeim. Þetta eru hugmyndir sem virkilega hafa tekið á því ekki eru menn á eitt sáttir um hvernig framtíðarskipulag félagsins á að vera. Ekki er komin nein niðurstaða en alveg ljóst að eitthvað þarf að breytast til að hagræða. Ein af þeim hugmyndum er að sameina deildir og er það einmitt einn af dagskrárliðum á aðalfundi 2013 að kanna hug félagsmanna til að sameina deildir hér í nágrenni við okkur.

Auk þessara stóru funda voru fjölmargir fundir haldnir í tengslum við verkefni okkar og stjórnun deildarinnar. 9 stjórnarfundir voru haldnir á síðasta ári auk aðalfundar deildarinnar sem var 13. mars. Af öðrum fundum má nefna fundi vegna Lautarinnar, Fjölsmiðunnar, Almannaheillanefndar, Neyðarvarna, samráðshóps um sálrænan stuðning, heimsóknarvini o.fl. Flesta fundi sótti Hafsteinn fyrir okkar hönd en í sérverkefnum hafa hópstjórar verkefnanna setið marga fundi.

Starfsemi hér í húsi var blómleg sem aldrei fyrr. Fatasöfnunarverkefnið, fatasalan og Föt sem framlag eru okkar langstærstu verkefni sem verið er að vinna hér á hverjum degi. Um 20 konur koma hér reglulega og vinna í þessum verkefnum og setja met á hverju ári. Árið 2012 var pakkað í rúmleg 2.300 pakka af ungbarna- og barnafatnaði sem fóru bæði til Malaví og Hvíta-Rússlands. Þarna var um rúmlega 300 pakka aukningu frá fyrra ári sem er bara frábært og ljóst að þessi flotti hópur, sem sér um að flokka barnafatnaðinn, sníða efni og sauma úr þeim teppi og annað sem nýtist í pakkana og síðan að pakka þessu í pakkana sjálfa, slær ekki slöku við.

Fatasöfnun og flokkunin er mjög stórt verkefni sem virðist vera stöðugt að stækka að umfangi. Áætla má að um 120 tonn af fatnaði og efnum hafi komið hér í gegn á árinu 2012. Það sem verður um þessi föt skiptist niður í þrennt. Um fjögur tonn fara í fyrrnefnda fatapakka. Þrjátíu og fimm tonn voru seld eða úthlutað hér í gegnum búðina okkar og afgangurinn, rúmlega áttatíu tonn, fóru í sjö gáma sem seldir voru úr landi. Eins og framantaldar tölur bera með sér er mikið rennirí á fatnaði hér í gegn og er þetta orðin okkar stærsta tekjulind. Salan í búðinni var um 13.4 milljónir og var það um þremur milljónum meira en árið þar áður. Það verður svo spennandi að sjá hvort ný og breytt aðstaða auki söluna enn meira. Það á eftir að koma í ljós.

Lautarverkefnið okkar var óbreytt á síðasta ári, þ.e. sjálfboðaliðar okkar hafa opið á laugardögum en virka daga sér starfsfólk Lautarinnar um þjónustu við gesti. Árið sem nú er gengið í garð verður okkar síðasta ár þar sem við komum beint að rekstri Lautarinnar. Eftir það er óvissa um reksturinn en vonandi tekur Akureyrarbær við okkar hlut þannig að Laut leggst ekki niður. Vonandi verður aðkoma sjálfboðaliða okkar óbreytt.

Fjölsmiðjan gegur vel og hafa verið þreifingar hjá þeim að komast í stærra húsnæði. Það hefur gengið brösuglega þar sem fjármagn liggur ekki á lausu til þess. Viðræður voru við eiganda núverandi húsnæðis um að fá stærra pláss til leigu og verður það að öllum líkindum niðurstaðan. Aðkoma okkar að Fjölsmiðjunni er eingöngu að eiga mann í stjórninni.

Virkið, sem var tímabundið verkefni okkar í samvinnu við Vinnumálastofnun, hætti um mitt síðasta ár. Virkið var verkefni með ungum atvinnuleitendum og er enn í gangi hjá Vinnumálastofnun en núna með aðkomu Akureyrarbæjar.

Heimsóknarvinaverkefnið gengur mjög vel og eru núna um 30 virkir sjálfboðaliðar sem fara í heimsóknir til skjólstæðinga sem búa margir hverjir við félagslega einangrun. Þetta verkefni hefur tekist alveg afskaplega vel og utan um þennan hóp halda þau Erla Hólmsteinsdóttir og Hörður Ólafsson. Hópurinn hittist hér á fundum ca. einu sinni í mánuði til skrafs og ráðagerða og oft eru einhver fræðsluerindi fyrir hópinn  líka.

Hjálparsíminn 1717 er verkefni sem búið er að vera hér í tvö ár og hefur komið ágætlega út. Um 18 manns er nú í þessu verkefni en sá  hópur mætti klárlega vera stærri því ekki hefur verið hægt að manna allar þær vaktir sem við fáum úthlutað hingað norður.  Þar sem verkefnið er sérstakt og krefjandi höfum við ekki auglýst eftir fólki heldur valið frekar maður á mann og einnig erum við í samvinnu við sálfræðideild Háskólanns á Akureyri um að sálfræðinemar taki vaktir hér hjá okkur.

Neyðarvarnirnar eru alltaf í endurskoðun hjá okkur og var farið í allar fjöldahjálparstöðvar okkar og þær teknar út. Þessar fjöldahjálparstöðvar eru fjórir skólar hér í bæ, þ.e. Lundarskóli, Oddeyrarskóli, Síðuskóli og Glerárskóli. Þess má geta að samkvæmt nýjum reglum þarf að lágmarki 4 fjöldahjálparstjóra í hverja fjöldahjálparstöð og eru því uppi hugmyndir að taka Íþróttahöllina sem fjöldahjálparstöð og fækka skólunum. Einnig er fyrirhugað að setja upp fjöldahjálparstöð á Grenivík. Í tengslum við þessar úttektir var farið yfir útkallslista og þeir lagaðir til. Einnig var farið yfir lista sem innihalda nöfn þeirra sem hafa áhuga á að starfa með viðbragðsteymi í sálrænum stuðningi og sá hópur síðan kallaður á fund.

Svæðasamstarf hefur minnkað mikið og er nær eingöngu bundið við skyndihjálparhópinn. Vegna samdráttar hefur verið hætt við verkefni sem voru á svæðisvísu eins og samstarf við Rauða krossdeildina í Maputo í Mosambik og sumarbúðirnar á Löngumýri. Skyndihjálparhópurinn stækkaði á árinu 2012 og bættust 7 nýir í hópinn frá þremur deildum. Þær deildir eru Dalvíkurdeild, Ólafsfjarðardeild og Skagafjarðardeild. Deildir þær sem eiga fulltrúa í hópnum hafa gert með sér samstarfssamning um rekstur hópsins. Hópurinn fór á tvær almannavarnaræfingar og á sína árlegu æfingahelgi á Narfastaði.

Skyndihjálparhópurinn var að hluta til kallaður út til að vera með sálrænan stuðning á Ólafsfirði eftir hörmulegt banaslys um borð í togara frá Ólafsfirði og einnig vorum við beðin um aðstoð með sálrænan stuðning við bændafólk vegna skyndilegs óveðurs í haust þar sem fjöldi fjár grófst í fönn og drapst. Aðstoðarbeiðnin var síðan afturkölluð. Sett var upp viðbragðsstaða s.l. sumar vegna hvalaskoðunarbáts sem strandaði skammt norðan við Húsavík en ekki reyndist þörf á aðstoð. Þá var sett upp viðbúnaðarstig vegna jarðskjálftahrinu sem varð í lok september. Hrinan átti upptök sín  úti fyrir Eyjafirði og voru skjálftar allt að 4 á Richter. Við þessa hrinu var farið í fundaherferð á svæðinu og minnt á viðbrögð við jarðskjálftum. Almannavarnir fóru í skólana á svæðinu og kenndu börnunum rétt viðbrögð. Samráðshópur um sálrænan stuðning á vegum Almannavarna hefur fundað reglulega og eru Guðný Bergvinsdóttir og Álfheiður Svana Kristjánsdóttir fulltrúar okkar í þessum hópi.

Gengið var til góðs í október. Söfnunin gekk ágætlega hér hjá okkur en klárlega vantaði nokkra sjálfboðaliða til viðbótar þannig að hægt væri að ganga í öll hús í bænum. Söfnunarupphæðin sem sjálfboðaliðar okkar söfnuðu var um 1,5 milljónir og var það svipað og síðast þegar gengið var til góðs.

Neyðaraðstoð innanlands var  með minnsta móti sl. ár. Þar réð mestu að farið var í samstarf með Mæðrastyrksnefnd, Hjáparstarfi kirkjunnar og Hjálpræðishernum í kringum jólaaðstoðina. Þetta samstarf er eitthvað sem búið er að tala um í nokkur ár en varð að veruleika núna. Stuttur fyrirvari var á undirbúningi og var safnað fyrir úthlutun og gekk sú söfnun ágætlega. Sú nýbreytni var viðhöfð að nú fengu allir kort með inneign en ekki neinar matargjafir. Þurfti fólk að koma með pappíra með sér til að sýna fram á þörfina. Flestallir tóku vel í þessa nýbreytni og held ég að þetta samstarf sé komið til að vera. Þessir aðilar ætla að funda nokkrum sinnum á árinu og gera með sér skriflegan samning um samvinnuna fyrir næstu jól. Okkar hlutverk í þessari samvinnu var fjölbreytt. Við vorum með sjálfboðaliða í viðtölum við umsækendur, í fatasöfnum og síðan í úhlutuninni líka. Húsnæðið okkar var notað mikið við þetta tækifæri. Sú upphæð sem við lögðum í neyðaraðstoð innanlands á síðasta ári var 255.000.

Ekkert fór frá okkur í neyðaraðstoð erlendis á árinu 2012. Fyrir þá sem ekki þekkja til á því sviði þá koma neyðarbeiðnir frá Alþjóða Rauða krossinum til Rauða krossins á Íslandi sem síðan sendir beiðnir til deilda. Engar slíkar beiðnir komu til okkar.

22 apríl héldum við minningarathöfn í Kjarnaskógi um Jón Karlsson sendifulltrúa Rauða krossins. Jón var myrtur við störf sín í Kabúl fyrir 20 árum. Deildin gaf fallegan bekk úr íslensku lerki til minningar um Jón og er hann staðsettur við aðalgöngustíginn í Kjarnaskógi. Formaður Rauða krossins á Íslandi og varaformaður Alþjóðaráðs Rauða kross félaga ásamt sjálfboðaliðum okkar voru viðstödd athöfnina ásamt fjölskyldu Jóns.

Námskeiðshald var með blómlegasta móti hjá deildinni.  46 námskeið voru haldin í almennri skyndihjálp, 10 námskeið  fyrir starfsfólk sundstaða, 3 námskeið í Börnum og umhverfi, 10 námskeið fyrir sjúkraflutningaskólann og eitt First responder námskeið auk námskeiða í sálrænni hjálp og varðandi slys á börnum. Þessi námskeið voru að miklu leyti kennd hér í húsi en eins var töluvert um að kennarar færu á vinnustaði og stofnanir með námskeiðin. Eins og þessar tölur bera með sér er ljóst að mjög margir sækja námskeið hér hjá okkur.

Það er ekki bara að fólk mæti hingað á ýmiskonar námskeið heldur eru haldnar hér kynningar á Rauða krossinum fyrir skóla og hópa sem langar til að fræðast um starfsemi okkar. Mest er um að leikskólarnir komi hingað og fái fræðslu en einnig önnur skólastig. Um þessa fræðslu hefur Hafsteinn séð. Það er því nokkuð ljóst að verkefni Hafsteins eru mikil og fjölbreytt

Eins og áður hefur komið fram gerðist það í nóvember að við gerðum tilboð í húsnæði það sem liggur hér suður úr húsnæði okkar. Tilboði því var tekið og var skrifað undir nú í byrjun ársins. Sjúkraíbúðin okkar, sem verið hefur á söluskrá í þrjú ár, var tekin upp í kaupverðið og borguðum við 23 milljónir á milli. Langþráður draumur er orðin að veruleika. Þessa dagana er verið að teikna upp breytingarnar og að því loknu er hægt að fara að vinna á fullu. Búðin okkar verður færð þangað yfir og stór kennslu- og veislusalur verður þar einnig. Syðsta hlutanum er óráðstafað og verður hann geymdur í bili. Mikill einhugur var í stjórn deildarinnar um þessi kaup og fyrir það vil ég þakka.

Starfsmenn deildarinnar hafa ekki slegið slöku við frekar en á undanförnum árum. Álagið á þá er mikið og starfsaðstaðan frekar slæm. En það hefur samt ekki komið í veg fyrir góð og vel unnin störf. En nú eru blikur á lofti. Nú hefur Rauði krossinn á Íslandi sagt upp samningi við okkur um færslu á bókhaldi sjúkrabíla á Norður- og Austurlandi. Þessu fylgdi staða sú sem Stefán Jakobsson hefur sinnt. Okkur er því nauðugur sá kostur að segja Stefáni upp störfum hér hjá okkur. Við þökkum Stefáni vel unnin störf sl. 10 ár og óskum honum alls góðs í framtíðinni. Hafsteini og Láru þakka ég gott samstarf á árinu. Eljusemi og jákvæðni hafa gert það að verkum að hér er gott að koma hvort sem er fyrir sjálfboðaliða að vinna eða aðra gesti sem heimsækja okkur.

Kæru Rauða kross félagar. Það liggur fyrir að einhverjar breytingar verða gerðar á starfsemi Rauða krossins á Íslandi. Hverjar þær verða vitum við ekki. Sumar hafa þegar orðið og aðrar eru að ganga í gegn þessa dagana. Guðný Björnsdóttir, verkefnisstjóri á Norðurlandi, hefur verið ráðin sviðsstjóri félagssviðs Rauða krossins. Þetta gerir það að verkum að hún sést hér minna og verður aðallega í Reykjavík. Það er sárt að sjá á eftir Guðnýju suður yfir heiðar en treystum því að hún komi til okkar þegar hún er á ferðinni hér á Norðurlandi. Ein af þeim hugmyndum, sem mikið hafa verið ræddar, er fækkun deilda, þ.e. að sameina deildir og ná þannig fram hagræðingu. Nokkrar hugmyndir hafa komið upp, t.d. að leggja niður allar deildir og vera með miðstýringu frá Reykjavík. Fækkun deilda úr 50 í sex eða níu deildir er líka hugmynd. Það er í ljósi þessara hugmynda sem komið hefur til tals að sameina deildir hér við Eyjafjörð. Fyrir liggur á þessum fundi að ræða það hvort fara eigi í viðræður við Dalvík, Ólafsfjörð og Siglufjörð um sameiningu. Sú sameining, ef af verður, verður gerð á forsendum þessara deilda en ekki einhver fyrirskipun að sunnan.

Jón Knutsen