Ársskýrsla 2013

31.12.2013

Skýrsla stjórnar  Rauða krossins við Eyjafjörð  fyrir árið 2013.                            

Lögð fram á aðalfundi á Siglufirði 13. mars 2014.

 

 Ágætu félagar og gestir.

Velkomin á þennan fyrsta aðalfund nýrrar deildar Rauða Krossins við Eyjafjörð. 

 

Segja má að starfið á síðastliðnu ári hafi einkennst af breytingum og framkvæmdum því auk hefðbundins starfs deildarinnar fór töluverður tími í að ljúka þeirri vinnu sem við hófum með sameiningu deilda við Eyjafjörð þannig að öllum  formlegheitum  gagnvart hinu opinbera væri formlega lokið.  Þessu er að mestu lokið, aðeins er eftir að þinglýsa eignum Siglufjarðardeildar og Dalvíkurdeildar yfir á nýju deildina en það er í ferli.  Annað sem þurfti að gera var að fara yfir starfið í gömlu deildunum og samræma það eins og hægt var. Í því skyni fórum við Hafsteinn og Helga í fundarferð í vor og funduðum með stjórnarmönnum á gömlu deildarsvæðunum ásamt ýmsum öðrum sem verið höfðu virkir í þeim deildum. Voru þetta góðir og gagnlegir fundir.  Síðan var farið aftur nú í vetur í samskonar fundaherferð og þá var Guðný Björnsdóttir frá Landsskrifstofu einnig með í för. Fórum við þá aftur yfir það sem við höfðum rætt í vor og lögðum línurnar fram til vors.  Á stofnfundi Eyjafjarðardeildarinnar þann 22. maí 2013 voru eftirtaldir aðilar kjörnir í stjórn: Auður Eggertsdóttir, Dusanka Kotaras, Elsa María Guðmundsdóttir, Eva Björg Guðmundsdóttir, Helga Ingibjörg Jóhannsdóttir, Helga Stefánsdóttir, Hörður Ólafsson, Kristín María H. Karlsdóttir og Sigurður Ólafsson sem var kjörinn formaður. Varamenn voru kosnir Hafdís Helgadóttir, Guðmundur Skarphéðinsson, Þorsteinn E. Arnórsson og Þorgils Guðnason. Skoðunarmaður var kosin Kristrún Linda Björnsdóttir.

Stjórn skipti með sér verkum sem hér segir: Helga Ingibjörg Jóhannsdóttir er varaformaður, Kristín María H. Karlsdóttir ritari og Eva Björg Guðmundsdóttir gjaldkeri.

Starfsmenn deildarinnar eru 4.  Hafsteinn Jakobsson er framkvæmdastjóri í fullu starfi, Lára Ellingsen sér um bókhald í hlutastarfi. Stefán Jakobsson starfar fram á mitt ár í hlutastarfi og Fannar Hafsteinsson sér svo um ræstingar í Viðjulundinum. Auk þess starfa 3 í Laut í 3 stöðugildum. Nú í lok janúar skrifaði deildin ásamt Geðverndarfélaginu og Akureyrarbæ undir nýjan samning um rekstur Lautarinnar til 1. september þar sem Akureyrarbær ber alla fjárhagslega ábyrgð á rekstrinum. Stefnt er síðan að því að framlengja þennan samning til áramóta ef fjármagn fæst til verkefnisins. Auk þess starfar fjöldi sjálfboðaliða daglega við fataflokkun á starfssvæði deildarinnar.

 

Alls voru haldnir 35 stjórnarfundir hjá deildum og sameinaðri deild á svæðinu. Formenn sóttu formannafund á Akranesi og nýr formaður Eyjafjarðardeildarinnar ásamt varaformanni sótti  formannafund í Reykjavík í haust.  Aðrir fundir: Hafsteinn og Jón Knudsen í forföllum  hans sóttu fundi stjórnar Fjölsmiðjunnar á Akureyri. Sigurður Ólafsson sótti verkefnastjórnarfundi í Laut.  Starfandi er  samráðsnefnd um áfallahjálp og í hennu eru fulltrúar frá öllun svæðum deildarinnar.  Sigurður Ólafsson átti síðan sæti í vinnuhóp RKÍ um endurskoðun á skiptingu kassatekna. Verkefni sem deildin hefur unnið að á síðasta ári eru þessi: Fataflokkun en tekið er á móti fötum á öllu deildarsvæðinu og þeim ýmist pakkað í gám og send suður eða þau eru flokkuð og hluti þeirra er seldur á fatamarkaði í Viðjulundinum og öðru pakkað til ýmissa verkefna. Verkefnið Föt sem framlag hefur verið í gangi bæði á Akureyri og Ólafsfirði. Heimsóknavinir hafa verið að störfum á árinu bæði á Akureyri og Siglufirði.  Hörður  Ólafsson og Erla Hólmsteinsdóttir hafa stýrt verkefninu á Akureyri og þær Mundína Bjarnadóttir og Margrét hér á Siglufirði.  Hjálparsíminn 1717 hefur verið verkefni á Akureyri að undanförnu og svara nemar frá Háskólanum í hann í sjálfboðavinnu. Skyndihjálparhópurinn hefur verið virkur á árinu og eru nú um 12 einstaklingar í hópnum af öllu Norðurlandi. Einnig voru haldin námskeið í skyndihjálp á deildarsvæðinu bæði fyrir hópa og fyrirtæki.  Námskeið í sálrænni skyndihjálp fyrir fyrirtæki og hópa.   Námskeiðið Börn og umhverfi var haldið á Akureyri og Siglufirði. Samtals eru þátttakendur í þessum námskeiðun hátt í 1000 einstaklingar. Skyndihjálpar- og viðbragðshópur er starfandi á deildarsvæðinu og eru félagar frá Akureyri, Dalvík og Ólafsfirði í honum. Fleiri námskeið voru haldin og má þar nefna námskeið fyrir sjálfboðaliða Hjálparsímans 1717, sjálfboðaliða í áfallateyminu og síðan var haldið námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra og fjöldahjálparliða á Akureyri fyrir allt svæðið auk námskeiðs fyrir fjöldahjálparliða á Grenivík.     

 

Samstarf við kirkjuna, Hjálpræðisherinn og Mæðrastyrksnefnd  um jólaaðstoð tókst með ágætum og er mál manna að vel hafi tekist til með þetta samstarf, jafnframt sem mönnum finnst þörfin fyrir slíka aðstoð hafa aukist.  Það er von mín að þetta samstarf  haldi áfram.

 

Neyðarvarnaáætlanir voru yfirfarnar á deildarsvæðinu í haust og eru þær í stöðugri endurskoðun allt árið eftir því sem ástæða er til. Nú hefur deildin á að skipa 41 fjöldahjálparstjóra eða - liða. Sex fjöldahjálpastöðvar eru skipulagðar á svæðinu og er unnið að skipulagningu þeirrar sjöundu á Grenivík.  Deildin tók þátt í flugslysaæfingu sem haldin var á Akureyrarflugvelli 2. maí síðastliðinn og kom sú æfing sér vel þegar til alvörunnar kom í hörmulegu flugslysi sem varð við Hlíðarfjallsveg í byrjun ágúst en þar reyndi mjög á okkar þátt í neyðarvörnunum.

 

Verklegar framkvæmdir hafa staðið yfir í húsakynnum okkar á Akureyri frá því í vor en deildin keypti viðbótarhúsnæði í Viðjulundinum snemma á þessu ári. Framkvæmdum er ekki lokið en þó hefur náðst sá mikli áfangi að við erum búin að opna nýja og glæsilega verslun með notuð föt í hluta þess húsnæðis sem var keypt. Er það ekki síst þeim sjálfboðaliðum, sem unnið hafa yfir þúsund vinnustundir við þessa framkvæmd, að þakka að þessi áfangi er kominn í höfn, auk þess sem við höfðum góða verktaka með okkur við þessa framkvæmd.  Hafa viðtökur við versluninni verið gríðarlega góðar hjá þeim sem komið hafa í hana  og skoðað vöruúrvalið þar auk þess sem öll aðstaða til fataflokkunar hefur stórbatnað við það að verslunin er ekki lengur innan um þá aðstöðu sem notuð er til að flokka fatnaðinn sem berst. Á síðasta ári sendum við frá okkur um 95 tonn af fatnaði í 9 gámum. 12 sjálfboðaliðar, sem flestir eru nýir, sjá um afgreiðslu í versluninni sem er opin frá 13 til 17 virka daga.

Að lokum vil ég þakka öllum sjálfboðaliðum sem lagt hafa okkur lið á síðasta ári, gleymum því ekki að Rauði krossinn er fyrst og fremst sjálfboðaliðahreyfing og þá hugsjón ber okkur að hafa í hjörtum okkar og verja.

Að lokum vil ég þakka starfsfólki deildarinnar fyrir þeirra vinnu á árinu, einnig vil ég þakka Guðnýju Björnsdóttur fyrir hennar aðstoð og Hermanni Ottósyni fyrir góða kynningu á árinu.

 

Sigurður Ólafsson formaður