Ársskýrsla 2014

31.12.2014

Skýrsla stjórnar  Rauða krossins við Eyjafjörð  fyrir árið 2014.                           

Lögð fram á aðalfundi á Akureyri 10. mars 2015.

 

Starf  Eyjafjarðardeildar Rauða Krossins hefur verið að mestu með nokkuð hefbundnu sniði síðastliðið ár. 

 

Um síðustu áramót voru skráðir félagar í Eyjafjarðardeild  1141.  180 félagar eru með  sjálfboðaliðasamning en 589 sjálfboðaliðar og aðrir tóku þátt í félagsstarfinu með ýmsu móti á síðasta ári.

 

Aðalfundur Eyjafjarðardeildarinnar var haldinn á Siglufirði þann 13. mars 2014.  Á fundinn mættu 27 félagar. Á aðalfundi voru eftirtaldir kjörnir í stjórn deildarinnar: Til 2ja ára:  Hörður Ólafsson, Akureyri, Kristín María H Karlsdóttir, Siglufirði, Aðalheiður Sigurjónsdóttir, Ólafsfirði, Hafdís Helgadóttir, Grenivík, og til 1 árs Þorgils Guðnason, Dalvík.  Varamenn til 1 árs: Dúsanka Kotaras, Akureyri, Harpa Hlín Jónsdóttir, Ólafsfirði, Stefán Arnaldsson, Akureyri, og Steinar Svavarsson, Siglufirði. Fyrir sátu í stjórn Sigurður Ólafsson, formaður, Akureyri, Helga Ingibjörg Jóhannsdóttir, Akureyri, Eva Björg Guðmundsdóttir, Dalvík,  Elsa María Guðmundsdóttir, Akureyri, og Helga Stefánsdóttir, Ólafsfirði, sem óskaði eftir að fá að víkja úr stjórn.  Skoðunarmaður var kjörin Kristrún Linda Björnsdóttir.

Á fyrsta stjórnarfundi sem haldinn var strax eftir að aðalfundi lauk skipti stjórn með sér verkum. Sigurður er formaður, Helga Ingibjörg varaformaður, Eva gjaldkeri og Kristín María  ritari. Stjórn hélt 7 fundi á árinu. Formaður og varaformaður sóttu formannafund í Reykjavík 1. nóvember 2014.

 

Aðalfundur RKÍ var haldinn 8. maí 2014 í Reykjavík. 6 fulltrúar sóttu fundinn ásamt deildarstjóra.  Deildin átti einnig fulltrúa í nefndum á vegum RKÍ.  Úlfar Hauksson var formaður kjörnefndar fyrir aðalfund 2014, Gunnar Frímannsson á sæti í laganefnd RKÍ og formaður átti sæti í tekjuskiptingarnefnd RKÍ. Að auki er Álfheiður Svana Kristjánsdóttir í Samráðshópi um áfallahjálp á vegum landlæknisembættisins.

 

Helstu verkefni deildarinnar á síðasta ári voru sem hér segir.

 

Félagsstarfið

Starfsfólk og sjálfboðaliðar deildarinnar, sem að jafnaði starfa hér í húsinu, önnuðust móttöku ýmissa hópa s.s. skóla- og leikskólabarna.  Slíkar heimsóknir eru okkur alltaf fagnaðarefni og kærkomnar,  var þetta ár enginn undantekning á því.  Auk þess sinnti starfsfólk daglegum rekstri deildarinnar og erindum gesta sem leituðu til deildarinnar með ýmis mál. Hjá deildinni störfuðu á síðasta ári 5 einstaklingar, 2 á skrifstofu í 1,3 stöðugildum og 3 í Laut í 3 stöðugildum.  Nú eru starfsmenn 6 í 1,8 stöðugildum á skrifstofu og 2,6 stöðugildum í Laut.

 

 

 

 

 

Starf með innflytjendum (8 sjálfboðaliðar)

er nýtt verkefni undir stjórn Harðar Ólafssonar og í samstarfi við Lundaskóla. Markmið verkefnisins er að auka málfærni og málskilning barna innflytjenda. Sjálfboðaliðar hitta skjólstæðinga sína í Lundarskóla einu sinni til tvisvar í viku 30 mínútur í senn.

 

Námskeiðahald.

Fjölmörg námskeið voru haldin á vegum deildarinnar nú í ár eins og endranær. 4 námskeið voru haldin fyrir sjálfboðaliða deildarinnar.

Auk þess héldu kennarar deildarinnar fjölmörg námskeið á félagssvæðinu og utan þess fyrir fyrirtæki, stofnanir og aðra hópa sem óskuðu eftir því. 

 

Fatasöfnun (5 sjálfboðaliðar)  Fataflokkun(15 sjálfboðaliðar)

Deildin safnaði fatnaði á öllu deildarsvæðinu í ár eins og áður og safnaðist gríðarlegt magn af fatnaði. Deildin sendi frá sér 10  40 feta gáma héðan frá Akureyri en allur fatnaður sem safnaðist í Fjallabyggð fór beint suður. Í versluninni var seldur fatnaður fyrir 16.481.404 kr., af því skiluðust til Hjálparsjóðs rúmar 5 milljónir auk fatnaðar sem safnaðist í Fjallabyggð og má ætla að heildarframlag deildarinnar til Hjálparsjóðs sé um 11 miljónir á árinu.

 

Föt sem framlag. (21 sjálfboðaliðar)

Fötum er pakkað flesta mánudaga í minni salnum í Viðjulundi. Í ár fóru 87 ungbarnapakkar til Malaví og 1.123 ungbarnapakkar til Hvíta-Rússlands auk 963 barnapakka handa 2-12 ára börnum sem fóru einnig til Hvíta-Rússlands eða samtals 2.173 pakkar.

 

Neyðarvarnir (24 sjálfboðaliðar)

Undir merkinu Eldað fyrir Ísland opnuðum við 5 fjöldahjálparstöðvar á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri og Grenivík. Mikil ánægja var meðal þeirra sem unnu að verkefninu og var talið að vel hefði tekist til. Samtals komu á fjórða hundrað manns inn á þesssar stöðvar þennan dag.

Æfing var með stjórnendum í neyðarvörnum á Narfastöðum í nóvember en þar tóku fjórir fjöldahjálparstjórar frá deildinni þátt.

Deildin aðstoðaði við opnun fjöldahjálparstöðvar í Mývatnssveit vegna eldgoss í norðanverðum Vatnajökli. Deildin hefur nú á að skipa 20 fjöldahjálparstjórum og fjöldahjálparliðum.

Neyðarvarnaskipulag deildarinnar er í stöðugri endurskoðun og er þetta ár engin undantekning á því en um 24.305 einstaklingar búa á deildarsvæðinu sem neyðarvarnaskipulag okkar nær yfir.

Deildin á nú 8 Tetrastöðvar sem eru staðsettar á starfsstöðum deildarinnar.

Skyndihjálparhópur (8 sjálfboðaliðar) svæðisins hélt sínar æfingar og einnig viðbragðshópur vegna stærri hamfara eða slysa (29 sjálfboðaliðar).

Eins og á síðasta ári tók deildin þátt í samstarfi annarra hjálparsamtaka á svæðinu varðandi jólaaðstoðina og nutu um 350 einstaklingar eða fjölskyldur þeirrar aðstoðar hennar. Eru það kirkjan, Hjálpræðisherinn, Mæðrastyrksnefnd og Rauði krossinn sem standa saman að þessu verkefni. 12 sjálfboðaliðar frá deildinni komu að þessu verkefni í ár.

 

112 Dagurinn

Félagar okkar á Ólafsfirði tóku þátt í 112 deginum og buðu gestum upp á vöfflukaffi um leið og blóðþrýstingur var mældur.

 

Hjálparsíminn (16 sjálfboðaliðar)

Svarað hefur verið í Hjálparsímann 1717 hjá deildinni og hefur það verkefni verið í samstarfi við Reykjavíkurdeild. Eru það nemendur frá Háskólanum á Akureyri sem svara í símann í sjálfboðavinnu.

 

Heimsóknavinir (42 sjálfboðaliðar)

Heimsóknarvinir eru starfandi bæði á Akureyri undir stjórn Harðar Ólafssonar og Erlu Hólmsteinsdóttur og á Siglufirði undir sjórn Mundínu Bjarnadóttur og Guðrúnar Pálsdóttur.  Hittast hóparnir reglulega hver í sínu byggðarlagi einu sinni í mánuði.  Samtals var farið í 3058 heimsóknir á síðasta ári.

 

Prjónahópur Ólafsfirði (8-12 sjálfboðaliðar)

Prjónahópurinn hittist einu sinni í viku og vinnur að verkefnum sínum í húsnæði sem deildin leigir þar. Ósk hefur komið frá þeim um að það verði skoðað hvort það sé hægt að færa starfsemina í hentugra húsnæði en þetta húsnæði er frekar þröngt fyrir starfsemina.

 

Göngum til góðs

Gengið var til góðs á öllu deildarsvæðinu nú eins og oft áður. Ekki náðist að safna eins og til stóð og er þar ýmsu um að kenna.

 

Lautin (9 sjálfboðaliðar)

Nú í ár er Lautin rekin í fyrsta sinn án fjárframlags frá deildinni. Lautin er eftir sem áður rekin í nafni Rauða krossins. Á síðasta ári voru um 3000 heimsóknir skráðar í Laut. Sjálfboðaliðar deildarinnar annast opnun á laugardögum.  Starfsmenn Lautar eru starfsmenn deildarinnar og eru nú starfandi þar 3 einstaklingar í 2,6 stöðugildum. Forstöðumaður er Helga Einarsdóttir en auk hennar starfa þar Goran_Gusic  og nú  frá síðustu mánaðamótum í 60% starfshlutfalli Eva Morales. Akureyrarbær fjármagnar verkefnið ásamt Geðverndafélagi Akureyrar. Í verkefnisstjórn sitja f.h. Akureyrarbæjar Anna Marit Nielsdóttir sem aðalfulltrúi og ritari verkefnastjórnarinnar og Ólafur Örn Torfason sem áheyrnarfulltrúi.  F.h. Geðverndafélagsins  er Brynjólfur Ingvarsson og f.h. Rauða Krossinns er Sigurður Ólafsson sem jafnframt er formaður verkefnisstjórnarinnar.  Auk þess á Ingibjörg Halldórsdóttir verkefnastjóri deildarinnar sæti í verkefnisstjórninni sem áheyrnafulltrúi Rauða krossins og tengiliður við skrifstofu deildarinnar.  Unnið er að því að fjármagna verkefnið til næstu 2ja ára og er það í höndum Akureyrarbæjar.

 

Framkvæmdir

halda áfram hér í húsinu og er það von okkar að brátt sjáist fyrir endann á þeim en eftir var að ganga frá suðurendanum þar sem hugmyndin er að starfrækja fundar-, ráðstefnu- og veislusal.  Er verkið þannig statt að búið er að klæða nánast alla veggi í salnum en eftir er að byggja upp eldhúsið og svo er eftir að mála og setja upp innréttingar, lýsingu o.fl. áður en hægt verður að taka húsnæðið í notkun. En í vetur höfum við nýtt þetta húsnæði til að halda markað einu sinni í mánuði og hefur það gefist vel. Fjöldi sjálfboðaliða hefur gefið vinnu sína við þessar smíðar og er það deildinni afar dýrmætur tími því að öðrum kosti hefðum við þurft að kaupa þessa vinnu af faglærðum  iðnaðarmönnum í mun meira mæli en raunin er.

Um síðustu áramót bættist okkur nýr starfsmaður í hópinn.  Hún heitir Ingibjörg Halldórsdóttir og er ráðin sem verkefnastjóri deilda á Norðurlandi, tekur sem sagt við keflinu frá Guðnýju Björnsdóttir sem við þekkjum flest.  Vil ég nota þetta tækifæri og þakka henni fyrir langt og gott samstarf. Guðný hefur flutt til Reyjavíkur og starfar sem sviðsstjóri á landsskrifstofu. Ingibjörg er einnig í hlutastarfi hjá Eyjafjarðardeild og starfar sem verkefnastjóri hjá okkur.  Bjóðum við hana velkomna til starfa.

 Sigurður Ólafsson