Ársskýrsla 2000

31.12.2000

AKUREYRARDEILD RKÍ

ÁRSSKÝRSLA 2000

Lögð fram á aðalfundi 16. maí  2001

 

 

Meginverkefni Akureyrardeildar RKÍ voru á árinu 2000 með svipuðum hætti og verið hafa undanfarin ár. Sjúkraflutningar, fatasöfnun, fjárstuðningur, útlán sjúkrarúma og námskeiðahald voru helstu reglulegu verkefnin í daglegri umsjón Hafsteins Jakobssonar starfsmanns deildarinnar. Skráðir félagar 31. desember 2000 voru 551.

 

Aðalfundur deildarinnar var haldinn 9. maí 2000 og voru þá kjörin í stjórn: Sigurður Ólafsson, formaður, og meðstjórnendur þau Sigríður M. Jóhannsdóttir, Jón Knutsen, Lára Ellingsen, Guðný Bergvinsdóttir, Valdís Gunnlaugsdóttir, Gísli Kr. Lórenzson, Guðfinna Hallgrímsdóttir og Úlfar Hauksson. Til vara voru kjörin Jón Kr. Sónes, María Pétursdóttir og Viðar Þorleifsson. Endurskoðendur voru kjörnir þau Ragnar Jónsson löggiltur endurskoðandi og Kristín Sigfúsdóttir.

Stjórnin skipti með sér verkum, þar sem Valdís Gunnlaugsdóttir var kjörinn varaformaður, Gísli Kr. Lórenzson ritari og Jón Knutsen gjaldkeri.

 

Haldnir voru 10 formlegir stjórnarfundir á árinu auk þess sem stjórn eða fulltrúar stjórnar funduðu með ýmsum hópum vegna mismunandi verkefna, m.a. vegna hugmynda um kaffihús fyrir ungt fólk, athvarf fyrir geðfatlaða og vegna neyðarvarna og rútuslyss. Þá voru og haldnir nokkrir óformlegir framkvæmdaráðsfundir.

 

Aðalfundur RKÍ var haldinn  á Ísafirði 27. og 28. maí 2000. Fundinn sóttu 5 stjórnarmenn og framkvæmdastjóri deildarinnar.

 

Deildin átti ekki fulltrúa í svæðisráði en starfsmaður deildarinnar sótti nokkra fundi að ósk svæðisráðs auk þess sem nokkrir fundir voru haldnir í húsnæði deildarinnar. Svæðisfundur  deilda á Norðurlandi var haldinn í Kántrýbæ á Skagaströnd 2. september 2000.

 

Formannafundir deilda RKÍ voru haldnir í Reykjavík 11. mars  og 8.-9. september. Fundina sótti formaður  deildarinnar ásamt framkvæmdastjóra.  

                                                                                                

Segja má að í mörg horn hafi verið að líta hjá deildinni á síðasta ári.  Unnið var  við húsnæði deildarinnar, m.a. var húsið málað að utan og ýmsar endurbætur gerðar innan dyra. Aðstaða deildarinnar er orðin allgóð og var hún  í nokkrum tilvikum leigð út til einstaklinga og hópa á árinu. Í júlí þurfti deildin að opna fjöldahjálparstöð og taka á móti farþegum úr rútu sem fór út af veginum við Hólsselskíl nálægt Grímsstöðum á Fjöllum. Á haustdögum var síðan farið af stað með rekstur á athvarfi fyrir geðfatlaða í samvinnu við Geðverrndarfélag Akureyrar o.fl. Athvarfið, sem hlotið hefur nafnið Laut, er eitt af stærri verkefnum sem deildin hefur ráðist í. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára.  Í  Laut starfa 3 starfsmenn.

 

Sjúkrabílar deildarinnar fóru 1.266 ferðir á árinu 2000. Ferðir utanbæjar voru 212, þar af 75 út fyrir svæði deildarinnar. Af þessum 1.266 sjúkraútköllum voru 314 bráðatilfelli, 12 sinnum var björgunarbíll (klippubíll) kallaður út, þar af var hann notaður 9 sinnum eftir umferðaslys, mest utanbæjar. Á árinu fóru sjúkraflutningsmenn í 179 sjúkraflug og af þeim voru 11 erlendis.

 

Námskeiðahald var með svipuðum hætti á árinu og undanfarin ár. Haldin voru námskeið í skyndihjálp, námskeið fyrir  barnfóstrur og námskeið í sálrænni skyndihjálp. Skyndihjálparhelgi, sem virðist vera að skipa sér fastan sess, var haldin í húsnæði deildarinnar. Deildin kom auk þess að mörgum námskeiðum með útvegun leiðbeinenda, kennslubúnaðar eða aðstöðu. Þá átti deildin nokkra fulltrúa á námskeiði fyrir flokkstjóra sem haldið var samtímis á þremur stöðum með aðstoð fjarfundarbúnaðar.

 

Sjúkrarúm deildarinnar voru meira og minna í útláni síðasta ár. Átta þeirra eru í umsjá Heimahjúkrunar en eitt í umsjá Heimahlynningar.

 

Neyðarvarnaskipulag deildarinnar var yfirfarið að venju. Á árinu reyndi á skipulagið þegar raunverulegt hópslys varð við Hólsselskíl nálægt Grímstöðum  eins og áður er komið fram í skýrslu þessari. Kom í ljós að nokkur atriði þurftu endurskoðunar við en í  meginatriðum gekk skipulagið upp.  Raunar má segja að sú aðstoð, sem sjálfboðaliðar deildarinnar veittu, hafi verið deildinni og félaginu til mikils sóma. Í því sambandi má geta þess að deildinni hefur nú borist höfðingleg gjöf frá Þýskalandi vegna þeirrar aðstoðar sem sjálfboðaliðar hennar veittu.

 

Fatasöfnun er reglulegur þáttur í starfi deildarinnar. Tekið er við fötum allan ársins hring og virðist fólk í æ ríkara mæli verða meðvitað um þennan þátt í starfi deildarinnar. Á árinu söfnuðust rúm 30 tonn af fatnaði og skótaui. Nokkur óvissa var á síðasta ári varðandi flutning á fötunum sem olli auknum kostnaði.  Að venju var safnað í gám sem fór til Lesótó. Þá var gengist fyrir söfnun á húsbúnaði og innanstokksmunum í íbúðir handa flóttafólki sem kom til Siglufjarðar. Þann 28 okt. gengum við til góðs þar sem sjálfboðaliðar gengu í hús og söfnuðu framlögum til styrktar baráttuni gegn alnæmi í suðurhluta Afríku.

 

Deildin styrkti sem fyrr heilsugæslu í Lesótó. En eins og kunnugt er er þetta sameiginlegt verkefni deilda á Norðurlandi. En vænta má þess að þessu verkefni fari nú að ljúka og nýtt taki við.

 

Deildin styrkti á starfsárinu fjölmörg verkefni, mörg hver tilkomin vegna hamfara og hörmunga úti í heimi, s.s af völdum jarðskjálfta í El Salvador og á Indlandi, en einnig innanlands, m.a. Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstofnun kirkjunnar vegna einstaklingsaðstoðar,  sem og ýmis félagasamtök með smærri styrkjum. Þá styrkti deildin sumarbúðir að Löngumýri ásamt öðrum deildum á Norðurlandi.

 

Rekstur sjúkraíbúðar að Þingvallastræti 20 á Akureyri hefur gengið í samræmi við væntingar. Nýting á íbúðinni á síðasta ári var góð og hefur deildin ekki haft neinn kostnað  af þessum rekstri. Nokkuð hefur verið um það að leitað er eftir íbúðinni af tveimur aðilum á sama tíma og hefur verið brugðist við því eins og hægt er. Samstarf  við FSA hefur gengið mjög vel og ber að þakka það.

 

Formaður færir starfsfólki deildarinnar, samstarfsfólki í stjórninni, sjálfboðaliðum og öðrum þeim sem stutt hafa starfsemina sínar bestu þakkir fyrir þeirra störf á síðasta ári.  Sérstaklega ber að þakka Hafsteini Jakobssyni framkvæmdastjóra en það hefur oft reynt verulega á þolinmæði hans gagnvart formanni þar sem þetta er fyrsta ár hans í því embætti og hefur formaður oft þjakað hann með spurningum og afskiptasemi. Formaður vonar að það ár sem nú er að líða eigi eftir að skila okkur eitt skref fram á veginn og væntir góðs samstarfs við stjórn og starfsmenn deildarinnar hér eftir sem hingað til.