Ársskýrsla 2017

31.12.2017

Ársskýrsla deildarstjórnar

um starf Eyjafjarðardeildar Rauða krossins 2017

Á árinu 2013 sameinuðust Rauða kross deildir á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri í Eyjafjarðardeild Rauða krossins á Íslandi. Starfssvæði Eyjafjarðar­deildar nær nú frá Siglufirði í vestri til Grenivíkur í austri. Á aðalfundum deildarinnar hefur frá upphafi verið leitast við að kjósa stjórn sem skipuð er fulltrúum frá öllum stöðum, þar sem áður voru sjálfstæðar deildir, auk fulltrúa frá Grenivík en þar hefur aldrei verið sjálfstæð deild.

Á aðalfundi Eyjafjarðar­deildar 2017 voru þessir einstaklingar kosnir í stjórn að tillögu kjörnefndar: Gunnar Frímanns­son var kjörinn formaður, Aðalheiður Sigurjónsdóttir frá Ólafsfirði, Baldvin Valdemarsson frá Akureyri, Friðrik Steinar Svavarsson frá Siglufirði, Jónas Þór Karlsson, Akureyri, Karen Malmquist, Akureyri, Kristín María H. Karlsdóttir, Siglufirði, Sólborg Friðbjörnsdóttir, Dalvík, Þórhallur Másson, Akureyri, og varamennirnir Anna Rósa Magnúsdóttir, Akureyri,  Fjóla Valborg Stefánsdóttir, Grenivík, Helga Ingibjörg Jóhannsdóttir, Akureyri, og Jón Baldvin Hannesson, Akureyri. Á fyrsta fundi stjórnarinnar var Aðalheiður kjörin varaformaður, Baldvin ritari og Jónas gjaldkeri. Baldvin ritar fundargerðir á stjórnar­fundum og Jónas yfirfer alla reikninga sem deildin greiðir og áritar þá.

Í árslok 2017 voru 1280 félagar skráðir í deildina en aðeins 644 höfðu greitt félagsgjöld. 219 sjálfboðaliðar eru með skráðan sjálfboðaliðasamning við deildina og komu að um 260 verkefnum á árinu.

Húsnæðismál
Eyjafjarðardeild á húsnæði á Siglufirði og Akureyri en á árinu 2017 seldi deildin húsnæði sitt á Dalvík sem hafði verið leigt út að hluta til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands sem geymsla fyrir sjúkrabíl en hluta húsnæðisins hafði deildin nýtt fyrir fataverkefni. Heilbrigðisstofnunin keypti húsnæðið. Á Dalvík hefur deildin rekið verslun í leigu­húsnæði en í stað húsnæðisins sem selt var fékk hún húsnæði við hlið verslunarinnar og því verður öll vinna við fataflokkun og fatasölu auðveldari á einum stað. Stjórn deildarinnar ákvað að setja húsnæðið á Siglufirði á sölu og taka afstöðu til þeirra tilboða sem berast í það. Starfsemi deildarinnar á Siglufirði er annarsvegar fólgin í starfi heimsóknarvina og hinsvegar í fatasöfnun en húsnæðið á Siglufirði á 2. og 3. hæð hentar engan veginn fyrir þá starfsemi. Í stað húsnæðisins á Siglufirði þarf að koma bætt aðstaða fyrir fatasöfnunina en fundar­aðstöðu fyrir heimsóknarvini verður hægt að fá að láni á meðan leitað er að hentugra húsnæði. Í Ólafsfirði leigir deildin húsnæði sem er vel nýtt fyrir fatasöfnun, fataflokkun, prjónahóp og verkefnið „Föt sem framlag“.

Árið 2013 bætti deildin við sig húsnæði á Akureyri með kaupum á gamla fjósinu í Lundi sem er sambyggt við hlöðuna þar sem starf deildarinnar hafði farið fram hálfan annan áratug á undan. Mjög var farið að þrengja að öllu starfi varðandi fataverkefni, fatasala hafði farið fram á sama stað og fataflokkunin og vinna við pökkun fyrir „Föt sem framlag“ þurfti stundum að víkja úr litla fundarsalnum þegar þar þurfti að halda fundi eða námskeið. Nýja húsnæðið var innréttað á næstu árum, annarsvegar fyrir verslun og hinsvegar fyrir samkomusal sem nýtist fyrir námskeiðahald, fundi og aðrar samkomur svo og fyrir fatamarkað sem haldinn er mánaðar­lega. Kaupin á húsnæðinu og innrétting þess voru fjármögnuð með sölu á sjúkraíbúð, sem var óhentug, fjármunum úr sjóðum deildarinnar og tekjum af fatasölu, bæði í verslun og á fatamörkuðunum. Stækkunin var nauðsynleg því að á síðustu árum hefur fatamagnið sem kemur í söfnunar­gámana á Akureyri, Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði aukist mikið en hreinar tekjur fyrir Rauða krossinn á Íslandi af  fataverkefnunum eru umtalsverðar.

Framkvæmdir við húsnæðið á Akureyri höfðu verið tímafrekar á árunum fyrir 2017 en á því ári var um minniháttar viðhald og lagfæringar að ræða. Settar voru upp snjógildrur austan á þakið yfir versluninni og stóra salnum, lóðin var lagfærð lítillega norðan og vestan við húsið og skipt um gólfefni á litla salnum auk þess sem húsgögn þar voru endurnýjuð. Þá má nefna að settar voru upp eftirlitsmyndavélar á norðausturhorn hússins og við vesturhlið því að við hafði borið að lásar á söfnunargámum norðan við húsið væru brotnir upp. Loks var komið á ljósleiðara­tengingu við húsið og nú eru öll rafræn gögn starfsfólks geymd á netþjóni í Efstaleiti í Reykjavík þar sem þau eru afrituð og örugg jafnvel þótt brotist væri inn í húsið í Viðjulundi og tölvunum stolið eða þær eyðilagðar.

 Starfsfólk

Hafsteinn Jakobsson gegndi starfi deildarstjóra Eyjafjarðardeildar árið 2017 og hafði þá verið í starfi framkvæmdastjóra Akureyrardeildar og síðan deildarstjórastarfinu í 25 ár. Hann hefur ákveðið að segja lausu starfi sínu við deildina.

Ingibjörg E. Halldórsdóttir verkefnastjóri hafði aðsetur á skrifstofunni í Viðjulundi og þjónaði Rauða kross deildum á Norðurlandi, þ.á.m. Eyjafjarðardeild. Stjórn Rauða krossins ákvað á vordögum að breyta kostnaðar­þátttöku deilda vegna verkefnastjóra þannig að lands­skrifstofan legði ekki deildum á svæðum með fleiri en 10 þúsund íbúa til starfsmann. Fram að þessu hafði landsskrifstofa greitt helming launakostnaðar verkefnastjóra en hinn helming­urinn hafði skipst milli deilda á viðkomandi landssvæði í hlutfalli við íbúa á starfssvæði deildar og verkefnastjóri hafði þjónað öllum deildum á svæðinu. Eyjafjarðardeild hafði greitt um 30 af þessum 50 prósentum deildanna en minni deildir á Norðurlandi greiddu um 20 prósent. Þessi ákvörðun hafði í för með sér að starfshlutfall verkefnastjóra hefði lækkað í 70% starf og verkefnastjóri hefði ekki unnið fyrir Eyjafjarðardeild. Stjórn deildarinnar ákvað að halda starfshlutfallinu óbreyttu og að deildin greiddi þau 30% sem upp á fullt starf vantaði til að geta notið starfskrafta verkefna­stjóra.  

Um miðjan desember ákvað stjórn Rauða krossins að allt bókhald félagsins skyldi fært á einum stað í Efstaleiti og að laun yrðu einnig reiknuð út syðra. Á Akureyri hafði Lára Ellingsen verið í hlutastarfi við að færa bókhald deildarinnar en með þessari ákvörðun stjórnar var það starf lagt niður. Láru var boðið að taka að sér önnur verkefni fyrir deildina í sama starfs­hlutfalli enda eru verkefni deildarinnar mörg og oft erill á skrifstofunni. Hún ákvað hinsvegar að láta af störfum fyrir deildina.

Hólmfríður Svala Jóhannsdóttir hefur sem sjálfboðaliði lagt skrifstofu deildarinnar lið eins og áður og annast uppgjör fyrir verslunina og aðstoðað við fjármálastjórn.

Í Laut – athvarfi fyrir fólk með geðraskanir – hafa verið 3 starfsmenn í 2,8 stöðuhlutfalli. Starfsmennirnir hafa talist vera starfsmenn Eyjafjarðardeildar sem hefur annast launagreiðslur til þeirra þó að Akureyrarbær hafi borið kostnaðinn. Deildin annaðist einnig bókhald fyrir Laut. Þetta fyrirkomulag breyttist í árslok 2017 þegar sveitarfélagið tók við launagreiðslum og bókhaldi og starfsfólkið telst ekki lengur starfsfólk deildarinnar.

 

Verkefni Eyjafjarðardeildar

Eyjafjarðardeild sinnir mörgum verkefnum, líklega fleirum en félagsmönnum, sjálfboðaliðum og almenningi er ljóst. Fataverkefnin voru nefnd hér að framan. Hér á eftir er stutt lýsing á þeim og síðan er gerð grein fyrir öðrum verkefnum deildarinnar.

 

Fatasöfnun
Fötum er safnað í gáma á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri. Fötin frá Siglufirði eru send óflokkuð til Akureyrar þar sem þau eru flokkuð. Í Ólafsfirði eru fötin flokkuð, þar er starfandi prjónahópur og þar eru útbúnir pakkar í verkefnið „Föt sem framlag“. Það sem nýtist ekki í Ólafsfirði er sent flokkað til Akureyrar. Á Dalvík eru föt flokkuð og nýtileg föt seld í verslun en verslunin fær einnig föt frá Ólafsfirði. Það sem nýtist ekki á Dalvík er sent til Akureyrar. Á Akureyri eru föt flokkuð, sumt fer í verslun, sumt á mánaðarlegan markað, sumt er selt á Ráðhústorgi þegar veður leyfir og sumt er nýtt í „Föt sem framlag“. Á árinu 2017 voru sendir 18 40 feta gámar úr landi þar sem fötin eru sett í endursölu eða endurunnin með ýmsum hætti. Sjálfboðaliðar sem vinna að fatasöfnuninni voru 19 á árinu 2017. Deildarstjóri er verkefnisstjóri yfir fatasöfnuninni.


Fataverslun
Eyjafjarðardeild rekur verslanir með notuð föt og skó á Dalvík og Akureyri. Sjálfboðaliðar voru 35 árinu 2017, 7 á Dalvík og 28 á Akureyri. Heildartekjur af fatasölu í búðunum voru 19 m.kr. Deildarstjóri er verkefnisstjóri yfir fataversluninni.

Fatamarkaðir
Fatamarkaðir eða flóamarkaðir með föt hafa verið í byrjun hvers mánaðar ársins nema í janúar og ágúst. Sjálfboðaliðar sem unnu að fatamörkuðunum voru 12 undir leiðsögn Aðalheiðar Vagnsdóttur og Erlu Ásmundsdóttur. Heildartekjur af mörkuðunum voru 6,3 m.kr. á árinu 2017.

Torgsala
Nokkrum sinnum á sumri hafa sjálfboðaliðar farið með lopapeysur, húfur og vettlinga til að selja ferðamönnum á Ráðhústorgi þegar stór skemmtiferðaskip hafa verið í höfn og veður skaplegt. Tekjur af torgsölu á árinu 2017 voru 1.200.000 kr. Sjálfboðaliðar sem tóku þátt í þessu verkefni voru 7. Verkefnisstjóri var deildarstjóri.

Föt sem framlag
Um árabil hafa sjálfboðaliðar deildarinnar raðað barnafötum í pakka sem sendir hafa verið til Hvíta-Rússlands á undanförnum árum. Sjálfboðaliðarnir hafa nýtt föt úr fata-söfnuninni en einnig sauma þeir föt upp úr fötum sem koma inn og svo starfa prjónahópar á vegum deildarinnar og aðrir sem senda deildinni prjónafatnað. Stundum koma einstaklingar með mikið magn af vettlingum, húfum og peysum sem þeir hafa prjónað og gefa deildinni. Þetta er mikilvægt verkefni, bæði kemur það vonandi að gagni þeim sem fá fatapakkana, hvort sem það er í Hvíta-Rússlandi eða annarstaðar, en verkefnið á líka þátt í að rjúfa einangrun fólks sem kemur saman til að vinna með öðrum. Þetta má raunar segja um mörg önnur verkefni Rauða krossins. Á árinu 2017 útbjuggu 29 sjálfboðaliðar 2.630 pakka á Akureyri og 743 í Ólafsfirði, alls sendi deildin því frá sér 3.373 pakka. Verkefnisstjóri var deildarstjóri.

 

Móttaka kvótaflóttamanna
Á árinu 2016 tók Eyjafjarðardeild á móti 4 fjölskyldum flóttamanna frá Sýrlandi, samtals 23 einstaklingum, og snemma á árinu 2017 bættist við 5 manna fjölskylda í fjölskyldutengslum við eina fjölskylduna sem kom árið áður. Móttaka flóttafólksins var í samvinnu við Akureyrar­bæ sem útvegaði húsnæði og ýmsa þjónustu en Eyjafjarðardeild safnaði húsbúnaði og aðstoðaði flóttafólkið við að koma sér fyrir í íbúðunum. Stuðningsfjölskyldur á vegum deildarinnar hjálpuðu nýbúunum að aðlagast samfélaginu. Verkefnisstjóri deildarinnar í móttöku kvótaflóttamanna hefur verið Ingibjörg Halldórsdóttir.

Stuðningur við hælisleitendur
Á árinu var útlendingalögum breytt þannig að börn sem verið höfðu á landinu í 15 mánuði eða lengur fengu dvalarleyfi ásamt fjölskyldu sinni. Eftir það hafa fjórar fjölskyldur komið til Akureyrar með dvalarleyfi á Íslandi. Eyjafjarðardeild leitast við að aðstoða fólkið í samstarfi við Akureyrarbæ. Samhæfing í þessu verkefni mæðir einkum á Ingibjörgu Halldórsdóttur verkefnastjóra.

 

Íslenskukennsla fyrir innflytjendur
Á árinu 2017 hófst skipulegt starf með innflytjendum sem miðar að því að þjálfa þá í að skilja og tala íslensku. Aðstoðin felst í því að sjálfboðaliði frá deildinni hittir einn innflytjanda einu sinni í viku eða svo. Hér er bæði um að ræða flóttafólk en einnig aðra fullorðna innflytjendur sem þurfa aðstoð við að læra þetta erfiða tungumál okkar og að átta sig á aðstæðum hér. Á árinu 2017 unnu 12 sjálfboðaliðar að þessu verkefni með 10 innflytjendum. Verkefnisstjóri er Ingibjörg Halldórsdóttir.

Íslenskukennsla fyrir innflytjendabörn í grunnskólum
Á árinu 2017 hélt áfram starf sjálfboðaliða sem fara í 3 grunnskóla bæjarins og hitta nemendur sem þurfa hjálp við að ná tökum á íslensku. Lesið er með börnunum, þeim hjálpað með heimanám eða einungis spjallað, allt eftir því hvað hentar hverju og einu barni. Á árinu 2017 tóku 11 sjálfboðaliðar þátt í þessu verkefni og hittu 11 börn. Verkefnisstjóri er Hörður Ólafsson.

 Heimsóknarvinir
Starf heimsóknarvina hélt áfram 2017 með svipuðum hætti og verið hafði um árabil. Sjálfboðaliðar heimsækja einangraða einstaklinga á heimilum þeirra eða á stofnunum og spjalla við gestgjafa og veita þeim tilbreytingu. Árið 2017 voru 37 heimsóknarvinir að störfum á vegum Eyjafjarðardeildar og heimsóttu 51 gestgjafa. Verkefnisstjórar eru Hörður Ólafsson og Erla Hólmsteinsdóttir/Sólveig Gunnarsdóttir sem kalla sjálfboðaliða saman einu sinni í mánuði í vöfflukaffi þar sem stundum hafa komið fyrirlesarar með fræðslu um eitt og annað sem gott er fyrir heimsóknarvini að vita en stundum er bara spjallað í vöfflukaffinu.

 Skyndihjálparhópur
Á vegum Eyjafjarðardeildar starfar hópur sjálfboðaliða sem hefur sérþjálfað sig til að fara á vettvang þegar slys eða náttúruhamfarir ber að höndum og veita aðstoð. Í hópnum voru 17 sjálfboðaliðar og nokkrir þeirra tóku þátt í flugslysaæfingu á Akureyrarflugvelli. Við þessar aðstæður hefur hópurinn afmarkað hlutverk í samvinnu við björgunarsveitir og aðra aðila í almanna­varnaskipulagi. Í hópstjórn af hálfu Eyjafjarðardeildar er Jónas Þór Karlsson.

 Áfallateymi
Í áfallateymi Eyjafjarðardeildar eru 27 sjálfboðaliðar sem hafa búið sig undir að veita þeim sálrænan stuðning sem hafa lent í áföllum. Félagar úr hópnum voru kallaðir á vettvang þegar reykur kom upp í farþegarými flugvélar á leið til Akureyrar og þegar húsbruni varð í Mývatnssveit. Ennfremur fóru nokkrir til Hríseyjar til að hjálpa vitnum að slysi á Árskógssandi og aðstandendum þeirra sem fórust. Á árinu 2015 hafði hópurinn tekið utan um fólk sem lenti í rútuslysi á Öxnadalsheiði. Rútufyrirtækið tilkynnti skömmu fyrir síðustu áramót að það gæfi Eyjafjarðardeild Rauða krossins myndarlega fjárupphæð í þakklætisskyni fyrir framúrskarandi þjónustu áfallateymisins. Verkefnisstjórar eru Álfheiður Svana Kristjánsdóttir, Guðný Rut Gunnlaugsdóttir og Guðrún Guðjónsdóttir.

 Neyðarvarnir
Það er hlutverk Rauða krossins í almannavörnum að bregðast við hópslysum og náttúruvá sem ógnar fjölda fólks með því að opna fjöldahjálparstöðvar og veita þeim aðhlynningu þar sem þurfa. Eyjafjarðardeild á að vera tilbúin til að opna slíkar stöðvar á starfsstöðum sínum og hefur á hverjum stað nokkra einstaklinga sem kunna að opna fjöldarhjálparstöðvar og veita þar fyrstu þjónustu. Einnig hefur Eyjafjarðardeild á sínum snærum bæði framan­greindan skyndihjálparhóp, sem hefur fengið sérstaka þjálfun í skyndihjálp, og viðbragðshóp vegna stærri hamfara og slysa. Áfallateymið hefur að sjálfsögðu einnig mikilvægu hlutverki að gegna í almannavarnaskipulaginu. Á starfssvæðinu er gert ráð fyrir að þessir þrír hópar geti komið á vettvang og nýtt sérþekkingu sína. Neyðarvarnaráætlanir hafa verið uppfærðar reglulega og á hverjum stað er fólk sem er reiðubúið að bregðast við ef þörf verður á en sem betur fer reyndi ekki á þetta á árinu 2017 umfram það sem nefnt var um áfallateymið. Neyðarvarnarnefnd deildarinnar er skipuð fulltrúum frá hverjum stað en Ingibjörg Halldórsdóttir verkefnastjóri hefur yfirumsjón með skipan þeirra, þjálfun og starfi.

 Hjálparsíminn 1717 – símsvörun 
Á undanförnum árum hafa nokkrir sjálfboðaliðar sinnt símsvörun fyrir hjálpar­símann 1717 í húsnæði Eyjafjarðardeildar á Akureyri. Þetta hafa fyrst og fremst verið nemendur Háskólans á Akureyri í sálarfræði sem hafa fengið til þessa sérstaka þjálfun og fá starfið metið í náminu. Þrír sjálfboðaliðar tóku þátt í símsvöruninni á árinu en haustið 2017 voru sjálfboðaliðar í þessu verkefni með fæsta móti, allt niður í einn. Verkefninu er stjórnað frá landsskrifstofu Rauða krossins.

 Starf með fólki með geðraskanir
Um síðustu aldamót setti Akureyrardeild Rauða krossins í samvinnu við Geðverndarfélag Akureyrar á fót athvarf fyrir fyrir fólk með geðraskanir í Þingvallastræti. Athvarfið var nefnt Laut og starfaði með svipuðum hætti og sambærileg athvörf á höfuðborgarsvæðinu. Þessi starfsemi fór af stað í anda málsvarahlutverks Rauða krossins sem felst í því að vekja athygli á þörf afmarkaðra hópa í samfélaginu fyrir þjónustu sem enginn sinnti. Síðan hefur það fengist viðurkennt að það sé hlutverk ríkisins að annast þjónustu við fatlaða og ríkið hefur gert um það samning við Akureyrarbæ að sveitarfélagið annist þá þjónustu. Rauði krossinn hefur smám saman dregið sig út úr verkefninu en Akureyrarbær hefur lagt til húsnæði og rekstrarfjármagn. Skrifstofa Eyjafjarðardeildar hefur þó annast launagreiðslur og bókhald og Geðverndarfélagið hefur fengið styrk frá ríkinu til að leggja inn í reksturinn. Sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa séð um að hafa opið í Laut á laugardögum.

Samningur Akureyrarbæjar við Rauða krossinn og Geðverndarfélagið um rekstur Lautar rann út 31. des. 2017. Stjórn Eyjafjarðardeildar hafði tilkynnt Akureyrarbæ að deildin vildi ekki halda áfram umsjón launa og bókhalds en vill leitast við að fá áfram sjálfboðaliða til að vinna í Laut á laugardögum. Níu sjálfboðaliðar störfuðu í Laut haustið 2017. Skráðar heimsóknir í Laut á árinu voru 3059, 1709 frá körlum og 1350 frá konum.

Í stjórn Lautar situr einn fulltrúi frá Eyjafjarðardeild og hefur Sigurður Ólafsson, fyrrum formaður deildarinnar, setið sem fulltrúi deildarinnar. Forstöðumaður Lautar er Helga Einarsdóttir sem nú er ekki lengur starfsmaður Eyjafjarðardeildar og eru henni færðar þakkir fyrir starf sitt fyrir deildina svo og öðrum starfsmönnum Lautar.

Ungfrú Ragnheiður
Á árinu 2017 hófst undirbúningur á vegum Eyjafjarðardeildar undir skaðaminnkandi verkefni í anda Frú Ragnheiðar á höfuðborgarsvæðinu sem felst í að dreifa sprautum og sprautu­nálum til fólks, sem sprautar vímuefnum í æð, og veita þessu fólki aðstoð með sáraumbúnað og fleira. Haft var samband við fulltrúa lögreglu, bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, SÁÁ og fulltrúa búsetusviðs og fjölskyldusviðs Akureyrar­bæjar. Tveir nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar frá Háskólanum á Akureyri, Edda Ásgrímsdóttir og Berglind Júlíusdóttir, tóku frá upphafi þátt í undirbúningnum en þær höfðu gert loka­verkefni í hjúkrunarnáminu um þörf fyrir þessa þjónustu á Akureyri. Þær hafa síðan leitt undirbúningsstarfið með fulltrúum frá Eyjafjarðar­deild og útvegað sjálfboðaliða. Eyjafjarðardeild hefur útvegað búnaðinn, m.a. tekið á leigu bifreið sem sjálfboðaliðar geta notað til að aka um bæinn og færa skjólstæðingum nálar, sprautur o.fl. en bifreiðin nýtist einnig deildinni við ýmiskonar flutning, m.a. við að koma fatapökkum í flutning til Reykjavíkur, flytja rusl á gámasvæði og fatakassa til og frá stóra salnum þar sem markaðir eru haldnir. Ennfremur er bíllinn notaður í hvers kyns þjónustu við flóttafólk og til að heimsækja starfsstaði deildanna út með firði.

Fyrstu vaktirnar í skaðaminnkunarverkefninu voru fyrstu dagana í janúar 2018 og fljótlega sannaðist þörfin fyrir þessa þjónustu. 13 sjálfboðaliðar taka þátt í þessu verkefni.

Námskeiðahald
Kennarar á vegum Eyjafjarðardeildar héldu 69 námskeið á árinu, flest í skyndihjálp en einnig var haldið námskeiðið „Börn og umhverfi“ í Ólafsfirði og Siglufirði auk fræðslu um Rauða krossinn fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Nemendur í leikskólum og yngri bekkjum grunnskóla koma í heimsókn í Viðjulundinn og fá fræðslu og nemendur í lífsleikni í framhaldsskólum bæjarins hafa getað valið að koma í Viðjulund og taka þátt í fataflokkun og í verkefninu „Föt sem framlag“.

Fyrirtæki á starfssvæðinu kaupa námskeið af Rauða krossinum en ýmist fer kennslan fram í fyrirtækjunum sjálfum eða í húsnæði Eyjafjarðardeildar. Námskeiðahaldið er góð tekjulind fyrir deildina en er jafnframt liður í því að vinna að markmiðum Rauða krossins um neyðar­varnir og bætt samfélag. Verkefnisstjóri námskeiðahalds er Ingibjörg Halldórsdóttir.

 Jólaaðstoð 
Eins og á undanförnum árum vann Eyjafjarðardeild ásamt Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðishernum og Mæðrastyrksnefnd að því að styðja við bakið á þeim sem minnst hafa milli handanna fyrir jólin. Þessir aðilar sameinast um jólaaðstoðina, taka sameiginlega á móti umsóknum um stuðning, vinna úr þeim og ákveða afgreiðslu þeirra með eins faglegum hætti og kostur er en úthlutun fer fram í Lionssalnum í Skipagötu 14. 300 einstaklingar fengu aðstoð þetta árið. Deildarstjóri var verkefnisstjóri og annaðist samskipti við samstarfs­aðila.

 Viðbrögð við neyðarbeiðnum
Rauði krossinn á Íslandi efnir eftir atvikum til neyðarsafnana vegna náttúruhamfara eða stríðsástands úti í heimi. Eyjafjarðardeild tók á árinu þátt í slíkum söfnunum með því að leggja fram 1 m.kr. til söfnunar vegna hungursneyðar í Sómalíu og Suður-Súdan og 1 m.kr. í söfnun handa Rohingjum, flóttafólki frá Mjanmar sem hefur flúið yfir til Banglades. Á árinu var einnig greidd ein milljón króna til byggingar munaðarleysingjahælis í Sómalíu en ákvörðun um það framlag var tekin í lok árs 2016.

 Kynningarstarf
Kynning á starfi Rauða krossins á árinu fólst m.a. í því að taka á móti heimsóknum nemenda úr leik-, grunn- og framhaldsskólum. Þannig heimsóknir voru 10 á árinu. Einnig var starf Rauða krossins kynnt á starfslokanámskeiði á vegum Akureyrarbæjar, Norðurorku og Sjúkrahússins á Akureyri.

 Félagsstarf
Þátttaka félagsmanna í starfi Eyjafjarðardeildar er fyrst og fremst fólgin í sjálfboðnu starfi að verkefnum deildarinnar. Þátttaka í aðalfundum er ekki almenn og má jafnvel í einhverjum tilvikum rekja hana til veitinga á fundunum. Aðrir opnir fundir hafa ekki verið haldnir. Í júníbyrjun 2017 var haldin grillveisla fyrir sjálfboðaliða þar sem um 100 sjálfboðaliðar komu, sumir með fjölskyldur sínar eins og til var ætlast. Einnig var sjálfboðaliðum boðið í jólahlaðborð í byrjun desember og var sú samkoma vel sótt. Eins og áður hefur komið fram komu heimsóknarvinir og þátttakendur í skólaverkefni mánaðarlega saman í vöfflukaffi undir stjórn Harðar Ólafssonar og Erlu Hólmsteinsdóttur/Sólveigar Gunnarsdóttur verkefnisstjóra, sögðu frá viðfangsefnum sínum eða hlustuðu á fyrirlestra um mál sem tengjast þessum verkefnum.

Það segir sig sjálft að þátttaka sjálfboðaliða frá utanverðum Eyjafirði í þessum samkomum er minni en æskilegt væri.

Lokaorð
Líklega er í fáum Rauða kross deildum á landinu öflugra starf starfsfólks og sjálfboðaliða en í Eyjafjarðardeild, hvort sem litið er til fjölda verkefna, fjölda sjálfboðaliða eða fjölda þeirra sem njóta reglulegrar þjónustu af hálfu Rauða kross deildar. Stjórn Eyjafjarðardeildar má vera stolt af þessu starfi og þakkar starfsfólki sínu og sjálfboðaliðum á starfssvæðinu öllu ómetanlegt og óeigingjarnt framlag til Rauða krossins á árinu 2017. Sérstakar þakkir fá þau Lára Ellingsen og Hafsteinn Jakobsson nú þegar þau láta af störfum fyrir deildina.