Ársskýrsla 2018

31.12.2018


Skýrsla deildarstjórnar

um starf Eyjafjarðardeildar Rauða krossins á Íslandi á árinu 2018

Stjórn deildarinnar

Á aðalfundi Eyjafjarðar­deildar 2018 urðu þær breytingar á stjórn Eyjafjarðardeildar að Baldvin Valdemarsson og Kristín María H. Karlsdóttir gengu úr stjórn auk þess sem Helga Ingibjörg Jóhannsdóttir hætti sem varamaður. Í stað þeirra komu Anna Rósa Magnúsdóttir og Jón Baldvin Hannesson inn í stjórn, en þau höfðu bæði verið varamenn, og Berglind Júlíusdóttir kom inn sem varamaður. Á fyrsta fundi stjórnarinnar var Aðalheiður kjörin varaformaður, Anna Rósa er ritari og Jónas gjaldkeri. Stjórn og kjörtími stjórnarmanna var þannig ákveðinn á aðalfundi deildarinnar 2018:

Aðalmenn:
Gunnar Frímannsson formaður (2017–2019), Akureyri
Aðalheiður Sigurjónsdóttir varaformaður (2018–2020), Ólafsfirði
Anna Rósa Magnúsdóttir (2018 – 2020), Akureyri
Friðrik Steinar Svavarsson (2017–2019), Siglufirði
Jónas Þór Karlsson (2018–2020 ), Akureyri
Jón Baldvin Hannesson (2018–2020), Akureyri
Karen Malmquist (2017–2019), Akureyri
Sólborg Friðbjörnsdóttir (2017–2019 ), Dalvík
Þórhallur Másson (2017–2019), Akureyri

Varamenn:
Berglind Júlíusdóttir (2018–2019), Akureyri
Fjóla Valborg Stefánsdóttir (2018–2019), Grenivík
Ingibjörg Þuríður Stefánsdóttir (2018–2019), Akureyri
Ólafur Sigurðsson (2018 - 2019), Siglufirði

Friðrik Steinar lét af stjórnarstörfum þegar hann flutti frá Siglufirði síðla sumars en Ólafur kom inn í aðalstjórn í hans stað.

Í árslok 2018 voru 1274 félagar skráðir í deildina, af þeim höfðu 664 greitt félagsgjöld. 236 sjálfboðaliðar eru með skráðan sjálfboðaliðasamning við deildina og komu að um 269 verkefnum á árinu.

Húsnæðismál

Þær meginbreytingar urðu á húsnæðismálum deildarinnar á árinu að á Dalvík fékk deildin aukið húsnæði til leigu í stað þess sem var selt í byrjun árs 2018. Nýja húsnæðið er sambyggt við verslunarhúsnæðið sem deildin hafði haft þar á leigu þannig að öll vinna við fataflokkun og verslun er orðin auðveldari. Deildin seldi líka húseign sína á Siglufirði sem var óhentug miðað við þá starfsemi sem þar fer nú fram. Í staðinn greiðir deildin lága leigu fyrir aðgang að húsnæði Slysavarnarfélagsins þar til að geta haldið fundi heimsóknarvina. Nú er deildin því með leiguhúsnæði á Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík en á tveimur síðarnefndu stöðunum nýtist það fyrst og fremst fyrir fataverkefni, flokkun, pökkun, prjónahóp og sölu.

Á Akureyri var sett upp handrið framan við húsið í Viðjulundi. Verkið var boðið út og fyrirtækið SR-stál á Siglufirði gerði hagstæðasta tilboðið og smíðaði handriðið undir stjórn stjórnarmanns okkar, Ólafs Sigurðssonar, en uppsetningin var að miklu leyti unnin í sjálfboðavinnu hans og handlangara.

Á Akureyri voru líka gerðar minniháttar breytingar á skrifstofu deildarstjóra og á svonefndri Guðnýjarstofu þar sem nýja verkefnið okkar, Ungfrú Ragnheiður, hefur aðstöðu ásamt fleiri verkefnum.

Starfsmannamál

Árið 2018 var mjög sérstakt í sögu Eyjafjarðardeildar. Talsverður órói var í félagsstarfinu framan af ári í tengslum við brotthvarf Hafsteins Jakobssonar deildarstjóra sem hafði starfað af áhuga og trúmennsku í fjórðung aldar og naut mikilla vinsælda meðal sjálfboðaliða. Á síðari hluta árs 2017 kom fram nokkur gagnrýni á deildina frá höfuðstöðvum Rauða krossins í Efstaleiti sem varðaði framkvæmdir við nýja húshlutann sem keyptur var í ársbyrjun 2014. Gamla fjósið í Lundi var innréttað sem verslun, kennslu- og fundarsalur auk þess sem útbúið var veislueldhús við salinn. Gagnrýnt var að stjórn deildarinnar hafði ekki veitt deildarstjóra formlegar fjárheimildir til einstakra verkþátta og að deildin hafði ekki staðið skil á hluta tekna af fatasölu sem renna áttu til verkefna Rauða krossins á landsvísu. Einnig var því haldið fram að óþarfi hefði verið að innrétta veislueldhús við salinn, nóg hefði verið að útbúa þar móttökueldhús fyrir veitingar frá veitingahúsum í bænum. Því var jafnvel haldið fram að óþarfi hefði verið að kaupa viðbótarhúsnæðið enda hefði formleg þarfagreining ekki farið fram.

Í hugum stjórnarmanna deildarinnar leikur enginn vafi á því að deildinni var orðin brýn nauðsyn að bæta við húsnæðið vegna sívaxandi umsvifa í fataverkefnum og að góð nýting hafi orðið á verslunarrými og samkomusal sem nýtist bæði til funda- og námskeiðahalds auk þess sem hann skilar deildinni umtalsverðum tekjum fyrir útleigu.

Þó svo að deildarstjóri bæri ekki einn ábyrgð á hnökrum, sem finna mátti á rekstri deildarinnar, ákvað hann að segja upp starfi sínu fyrir deildina. Honum voru þökkuð frábær störf, bæði á aðalfundi og á sérstakri samkomu við starfslok hans.

Stjórn deildarinnar fór þess á leit við Ingibjörgu E. Halldórsdóttur, sem starfað hafði við deildina um tíma samhliða hlutastarfi sem svæðisfulltrúi Rauða krossins á Norðurlandi, að hún tæki við starfi deildarstjóra tímabundið á meðan ráðið væri fram úr starfsmannavanda deildarinnar til frambúðar. Fljótlega kom í ljós að Ingibjörg hafði mjög góð tök á verkefnum deildarstjóra, bæði hvað varðaði fjármál og framkvæmdir en ekki síður utanumhald um störf sjálfboðaliða og samskipti við þá. Stjórnin fór þess því á leit við hana að hún héldi áfram störfum sem deildarstjóri og varð hún við þeirri ósk.

Samhliða því að Ingibjörg tæki að sér starf deildarstjóra lét hún af störfum svæðisfulltrúa fyrir Rauða krossinn á Íslandi. Þar varð því skarð fyrir skildi auk þess sem ófyllt var 50% staða sem hún hafði verið í fyrir Eyjafjarðardeild. Auglýst var eftir starfsmanni til að gegna þessum störfum. Margar mjög góðar umsóknir bárust. Stjórnin ákvað að ráða Lindu Guðmundsdóttur sem tók til starfa 15. maí. Það var góð ákvörðun því að Linda hefur reynst afburðastarfsmaður. Hún er í 60% starfi fyrir deildina en í 40% starfi sem svæðisfulltrúi.

Stjórn Rauða krossins á Íslandi ákvað í desember 2017 að bókhald allra deilda yrði fært á einum stað í Efstaleiti frá 1. janúar 2018. Vegna þessarar breytingar lagðist af starf bókara í Eyjafjarðardeild. Lára Ellingsen hafði sinnt bókhaldi deildarinnar í hlutastarfi ásamt ýmsum öðrum tilfallandi störfum en lét nú af starfi við deildina sem hún hafði sinnt af dugnaði og trúmennsku. Innleiðing nýs fyrirkomulags við bókhaldið hefur haft í för með sér mikið starf deildarstjóra sem nú fer vonandi að sjást fyrir endann á.

Asia Faith var ráðin í tímavinnu við ræstingar og tók hún til starfa 15. júní 2018 og vinnur 5 klukkustundir á viku.

Verkefni Eyjafjarðardeildar

Verkefni deildarinnar voru með svipuðum hætti 2018 og verið hafði á undanförnum árum en þó má segja að þrjú verkefni hafi bæst við á árinu, stuðningur við einstaklinga/fjölskyldur sem fá samþykkta stöðu eftir hælisumsókn, skaðaminnkunarverkefnið Ungfrú Ragnheiður og svokallað bókasafns­verkefni. Óhætt er að segja að varla sé nokkur Rauða kross deild á Íslandi með jafnfjölbreytt og mörg verkefni. Hér á eftir er gerð grein fyrir hverju þeirra og eðli máls samkvæmt verður sú lýsing í stórum dráttum endursögn úr ársskýrslu fyrra árs.

Fataverkefni

Fatasöfnun og -flokkun
Fötum er safnað í gáma á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri. Fötin frá Siglufirði eru send óflokkuð til Akureyrar þar sem þau eru flokkuð. Í Ólafsfirði eru fötin flokkuð, þar er starfandi prjónahópur og þar voru útbúnir pakkar í verkefnið „Föt sem framlag“. Það sem nýtist ekki í Ólafsfirði er sent til Akureyrar. Á Dalvík eru föt flokkuð og nýtileg föt seld í versluninni þar en verslunin fær einnig föt frá Ólafsfirði og Akureyri. Það sem nýtist ekki á Dalvík er sent til Akureyrar. Á Akureyri eru föt flokkuð, sumt fer í verslun, sumt á mánaðarlegan markað, sumt er selt á Ráðhústorgi þegar veður leyfir og sumt var nýtt í verkefnið „Föt sem framlag“. Á árinu 2018 voru sendir héðan 20 40 feta gámar eða tæp 200 tonn af fatnaði sem er endurunninn eða endurnýttur erlendis með ýmsum hætti. Hér er um að ræða meira en 10% aukningu á milli ára. Sjálfboðaliðar sem vinna að fatasöfnun og flokkun voru 21 á árinu 2018. Deildarstjóri er verkefnisstjóri yfir fatasöfnuninni.


Fataverslun
Eyjafjarðardeild rekur verslanir með notuð föt og skó á Dalvík og Akureyri. Sjálfboðaliðar í fataverslunum og fatamörkuðum voru 40 árinu 2018, 9 á Dalvík og 31 á Akureyri. Heildartekjur af fatasölu í búðunum voru 20,2 m.kr. Deildarstjóri er verkefnisstjóri yfir fataversluninni.

Fatamarkaðir
Fatamarkaðir eða flóamarkaðir með föt á Akureyri hafa verið í byrjun hvers mánaðar ársins nema í janúar og ágúst. 13 sjálfboðaliðar unnu undir leiðsögn sjálfboðaliðanna Aðalheiðar Vagnsdóttur og Erlu Ásmundsdóttur. Heildartekjur af mörkuðunum voru 6,3 m.kr. á árinu 2018.


Torgsala
Nokkrum sinnum á sumri hafa sjálfboðaliðar farið með lopapeysur, húfur og vettlinga til að selja ferðamönnum á Ráðhústorgi þegar stór skemmtiferðaskip hafa verið í höfn og veður skaplegt. Tekjur af torgsölu á árinu 2018 voru rúmlega 1 milljón króna. Sjálfboðaliðar sem tóku þátt í þessu verkefni voru að mestu þeir sömu og hafa unnið að fataflokkun og á fatamörkuðum. Verkefnisstjóri var deildarstjóri.

Föt sem framlag
Um árabil hafa sjálfboðaliðar deildarinnar raðað barnafötum í plastpoka og pokunum pakkað í kassa sem sendir hafa verið til Hvíta-Rússlands. Sjálfboðaliðarnir hafa nýtt föt úr fatasöfnuninni en einnig sauma þeir föt upp úr fötum sem koma inn og svo starfa prjónahópar á vegum deildarinnar og aðrir sem senda deildinni prjónafatnað. Stundum koma einstaklingar með mikið magn af vettlingum, húfum og peysum sem þeir hafa prjónað og gefa deildinni. Þetta er mikilvægt verkefni fyrir deildina, bæði hefur það vonandi komið að gagni þeim sem fá fatapakkana en verkefnið á líka þátt í að rjúfa einangrun fólks sem kemur saman til að vinna með öðrum. Þetta má raunar segja um mörg önnur verkefni Rauða krossins. Á árinu 2018 útbjuggu 28 sjálfboðaliðar á Akureyri 2.357 pakka auk 50 kassa með fötum sem voru ekki sett í plastpoka. Á Ólafsfirði útbjuggu 16 sjálfboðaliðar 523 pakka og alls sendi deildin því frá sér 2.870 pakka til Hvíta-Rússlands. Verkefnisstjóri var deildarstjóri.

Rauði krossinn hefur nú ákveðið að hætta gámasendingum til Hvíta-Rússlands. Frá árinu 2011 hefur Rauði krossinn á Íslandi átt farsælt samstarf við Rauða krossinn í Hvíta-Rússlandi. Samstarfið hefur falist í þremur verkefnum: baráttu gegn mansali, stuðningi við fólk með geðraskanir og dreifingu fatnaðar. Verkefnið sem snerist um gámasendingar með ókeypis fatnaði hefur ekki gengið snurðulaust fyrir sig. Samskipti við tollayfirvöld í Hvíta-Rússlandi hafa verið tímafrek og flókin, fylla hefur þurft út mikið af pappírum af gríðarlegri nákvæmni og þá hefur mikill kostnaður fylgt verkefninu sem hugsanlega hefði mátt nýta betur í önnur verkefni í Hvíta-Rússlandi. Verkefnið hefur hinsvegar ávallt þjónað þeim mikilvæga tilgangi fyrir sjálfboðaliða á Íslandi að gefa hópum fólks tækifæri til að hittast og vinna saman. Þess vegna var það ekki auðveld ákvörðun að hætta við „Föt sem framlag“.

Tveimur fyrrnefndu samstarfsverkefnunum var hætt um síðastliðin áramót og var því ákveðið fyrr á árinu að kanna grundvöllinn fyrir áframhaldi þriðja verkefnisins, fatadreifingu. Þegar kostir verkefnisins og gallar voru metnir vógu þyngst þau neikvæðu áhrif sem mikið magn ókeypis fatnaðar getur haft á staðbundna framleiðslu í móttökulandinu. Það kæmi landsfélagi í fátæku landi ávallt betur að fá fjárstuðning til að kaupa föt af heimamönnum en að fá fatasendingar frá ríkum þjóðum eins og Íslendingum. Enn fremur kom það í ljós, þegar þarfir skjólstæðinga Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi voru metnar, að ókeypis fatnaður er ekki forgangsatriði og fatadreifing er heldur ekki eitt þeirra mála sem brenna mest á hvítrússneska landsfélaginu.

Gjöf frá Valrós

Þegar heildverslunin Valrós hætti störfum haustið 2018 gaf eigandinn, Kristján Skarphéðinsson, Eyjafjarðardeild það sem þá var óselt af birgðum verslunarinnar. Um var að ræða ýmiss konar húsbúnað, leirtau, skrautmuni o.fl. sem deildin seldi samhliða fötum á mörkuðum og á sérstökum markaði. Deildin fékk góðar tekjur af sölunni og kann Kristjáni miklar þakkir fyrir höfðingskapinn.

 

Stuðningur við innflytjendur

Nokkuð er um að hælisleitendur, sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi, flytji til Akureyrar. Eyjafjarðardeild leitast við að aðstoða þá einstaklinga og fjölskyldur í samstarfi við Akureyrarbæ. Samhæfing í þessu verkefni er unnin af hálfu beggja skrifstofu­manna deildarinnar.

Íslenskukennsla fyrir innflytjendur
Á árinu 2017 hófst skipulegt starf með innflytjendum sem miðar að því að þjálfa þá í að skilja og tala íslensku. Aðstoðin felst í því að sjálfboðaliði frá deildinni hittir einn innflytjanda einu sinni í viku í um klukkustund í senn. Hér er bæði um að ræða flóttafólk en einnig aðra fullorðna innflytjendur sem þurfa aðstoð við að læra íslensku og að átta sig á aðstæðum hér. Á árinu 2018 unnu 9 sjálfboðaliðar að þessu verkefni með 9 innflytjendum. Verkefnastjóri hefur yfirumsjón með þessu verkefni.

Íslenskukennsla fyrir innflytjendabörn í grunnskólum
Nokkur undanfarin ár hefur hópur sjálfboðaliða farið í 3 grunnskóla á Akureyri og hitt nemendur sem þurfa hjálp við að ná tökum á íslensku. Á árinu 2018 var farið í 3 grunnskóla á vormisseri en í tvo á haustmisseri en einn grunnskóli hætti þátttöku í verkefninu. Lesið er með börnunum, þeim hjálpað með heimanám eða einungis spjallað, allt eftir því hvað hentar hverju og einu barni. Á árinu 2018 tóku 12 sjálfboðaliðar þátt í þessu verkefni og hittu jafnmörg börn auk tveggja sjálfboðaliða sem aðstoða nemendur í kennslustundum. Verkefnastjóri hefur yfirumsjón með þessu verkefni.

Bókasafnsverkefni
Nýr angi af verkefninu þjálfun í íslensku fór af stað á árinu í samstarfi við Amtbókasafnið. Þar aðstoða sjálfboðaliðar Rauða krossins börn sem hafa íslensku sem annað mál. Aðstoðin felst í því að sjálfboðaliðar lesa fyrir börnin eða hjálpa þeim að lesa sjálf, allt eftir getu þeirra. Þrír leiðbeinendur aðstoðuðu fjóra skjólstæðinga. Verkefnastjóri hefur yfirumsjón með þessu verkefni.

Opið hús fyrir innflytjendur
Fitjað var upp á þeirri nýbreytni haustið 2018 að efna til samkomu fyrir innflytjendur af ólíkum þjóðernum. Innflytjendur sáu um matseldina og buðu áhugasömum að smakka á réttunum. Stefnt er að því að þróa þetta verkefni áfram. Verkefnastjóri hefur yfirumsjón með þessu verkefni.

Heimsóknarvinir

Starf heimsóknarvina var með svipuðum hætti 2018 og verið hafði um árabil. Sjálfboðaliðar heimsækja einangraða einstaklinga á heimilum þeirra eða á stofnunum og spjalla við þá og veita þeim tilbreytingu. Árið 2018 voru 40 heimsóknarvinir að störfum á vegum Eyjafjarðardeildar, 10 á Siglufirði og 30 á Akureyri. Gestgjafar voru örlítið fleiri en sjálfboðaliðar. Sjálfboðaliðar höfðu um tíma komið reglulega saman í vöfflukaffi þar sem stundum komu fyrirlesarar með fræðslu um eitt og annað sem gott er fyrir heimsóknarvini að vita en stundum var bara spjallað í vöfflukaffinu. Nokkur óregla komst á vöfflukaffið á seinni hluta síðasta árs en þetta starf verður endurvakið. Verkefnisstjórar eru Hörður Ólafsson og Sólveig Gunnarsdóttir

Neyðarvarnir

Það er hlutverk Rauða krossins í almannavörnum að bregðast við hópslysum og náttúruvá sem ógnar fjölda fólks með því að opna fjöldahjálparstöðvar og veita þeim aðhlynningu þar sem þurfa. Eyjafjarðardeild á að vera tilbúin til að opna slíkar stöðvar á starfsstöðum sínum og hefur á hverjum stað einstaklinga sem kunna að opna fjöldarhjálparstöðvar og veita þar fyrstu þjónustu. Einnig hefur Eyjafjarðardeild á sínum snærum bæði áfallateymi og skyndihjálpar­hóp, sem hafa fengið sérstaka þjálfun hvor á sínu sviði. Þessir hópar mynda svo ásamt fjölda annarra einstaklinga viðbragðshóp vegna stærri hamfara og slysa. Gert er ráð fyrir að þessir hópar geti komið á vettvang og nýtt sérþekkingu sína eftir því hvers konar áföll dynja yfir. Neyðarvarnaráætlanir hafa verið uppfærðar reglulega og á hverjum stað er fólk sem er reiðubúið að bregðast við ef þörf verður á. Sem betur fer reyndi ekki á þetta á árinu 2018.

Haldið var námskeið í neyðarvörnum á Siglufirði þann 1. mars og var þátttaka mjög góð af öllu félagssvæðinu. Neyðarvarnarþing var haldið á Akureyri dagana 19. og 20. október 2018. Þangað mættu um 10 sjálfboðaliðar og starfsfólk deildarinnar og þar að auki 48 aðilar sem vinna að neyðarvörnum víðsvegar á landinu.

Neyðarnefnd deildarinnar er skipuð fulltrúum frá hverjum stað en Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri hefur yfirumsjón með skipan þeirra, þjálfun og starfi.

Skyndihjálparhópur
Á vegum Eyjafjarðardeildar starfar hópur sjálfboðaliða sem hefur sérþjálfað sig til að fara á vettvang þegar slys eða náttúruhamfarir ber að höndum og veita aðstoð. Um er að ræða samstarfsverkefni Þingeyjarsýslu-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðardeildar. Í hópnum voru samtals 14 sjálfboðaliðar og þar af 6 sjálfboðaliðar frá Eyjafjarðardeild. Hópurinn hefur afmarkað hlutverk í samvinnu við aðra viðbragðsaðila í almanna­varnaskipulaginu. Hópurinn hélt æfingu í Skagafirði og nokkrir sjálfboðaliðar úr Eyjafjarðardeildarhópnum settu upp sjúkratjald og stóðu vakt í tengslum við viðburðinn Color run á Akureyri. Þá tóku nokkrir úr hópnum þátt í flugslysaæfingu á Húsavík í maí á árinu. Í hópstjórn af hálfu Eyjafjarðardeildar er Jónas Þór Karlsson.

Áfallateymi
Í áfallateymi Eyjafjarðardeildar eru 25 sjálfboðaliðar sem hafa búið sig undir að veita þeim sálrænan stuðning sem hafa lent í áföllum. Áfallateymið fór í tvö útköll á árinu, annað vegna húsbruna og hitt vegna sjálfsvígs. Auk þess stóðu sjálfboðaliðar teymisins vaktir þegar viðtöl voru tekin við umsækjendur um jólaaðstoð. Verkefnisstjórar eru Álfheiður Svana Kristjánsdóttir, Guðný Rut Gunnlaugsdóttir og Guðrún Guðjónsdóttir.

Hjálparsíminn 1717 – símsvörun
Á undanförnum árum hafa nokkrir sjálfboðaliðar á Akureyri sinnt símsvörun fyrir Hjálpar­símann 1717. Þetta hafa fyrst og fremst verið nemendur Háskólans á Akureyri í sálfræði sem hafa fengið til þess sérstaka þjálfun og fá starfið metið í náminu. Námskeið var haldið fyrir sjálfboðaliða Hjálparsímans og sóttu 9 manns frá Háskólanum á Akureyri námskeiðið. Framan af árinu 2018 voru sjálfboðaliðar í þessu verkefni með fæsta móti en á miðju ári var gripið til aðgerða til að fá fleiri þátttakendur með þeim árangri að í árslok voru 10 sjálfboðaliðar í þessu verkefni. Verkefninu er stjórnað frá landsskrifstofu Rauða krossins.

Starf með fólki með geðraskanir

Laut – athvarf fyrir einstaklinga með geðraskanir, sem Rauði krossinn stofnaði og rak til skamms tíma, er nú rekin sem sjálfseignarstofnun án beinnar aðkomu Rauða krossins. Fimm sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa þó séð um að hafa opið í Laut á laugardögum og þangað hafa komið allt frá 2 – 17 manns hvern laugardag, flestir eru fastagestir Lautar. Auk laugardagstímanna var haldið árlegt sumargrill í Lautinni fyrir gesti hússins og sjálfboðaliða og sömuleiðis jólahlaðborð í desember. Deildarstjóri er verkefnisstjóri yfir verkefninu.

Ungfrú Ragnheiður
Á fyrstu dögum ársins 2018 hófst starf á vegum Eyjafjarðardeildar í anda skaðaminnkunar sem felst í að dreifa sprautum og sprautu­nálum til fólks sem sprautar vímuefnum í æð, og veita því aðstoð með sáraumbúnað og fleira. Verkefnið á Akureyri heitir Ungfrú Ragnheiður og er eftir fyrirmynd verkefnisins Frú Ragnheiður sem Reykjavíkurdeild Rauða krossins rekur. Tveir nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar frá Háskólanum á Akureyri, Berglind Júlíusdóttir og Edda Ásgrímsdóttir, leiddu undirbúning verkefnisins og síðan starfið sjálft í samvinnu við starfsfólk Eyjafjarðardeildar. Eyjafjarðardeild hefur útvegað búnaðinn, m.a. tekið á leigu bifreið sem sjálfboðaliðar geta notað til að aka um bæinn og færa skjólstæðingum nálar, sprautur o.fl.

15 sjálfboðaliðar taka þátt í Ungfrú Ragnheiði og fengu árið 2018 40 heimsóknir frá 15 einstaklingum sem sóttu búnað fyrir sjálfa sig og aðra. Verkefninu hefur verið mjög vel tekið og ýmsir hafa styrkt það rausnarlega með fjárframlögum.

Námskeiðahald og fræðsla

Kennarar á vegum Eyjafjarðardeildar héldu 79 námskeið í skyndihjálp en einnig var haldið námskeiðið „Börn og umhverfi“ í Ólafsfirði auk fræðslu um Rauða krossinn fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. 14 formlegar kynningar voru haldnar fyrir 359 manns auk fjölmargra óformlegra kynninga. Nemendur í leikskólum og yngri bekkjum grunnskóla koma í heimsókn í Viðjulundinn og fá fræðslu og nemendur í lífsleikni í framhaldsskólum bæjarins hafa getað valið að koma í Viðjulund og taka þátt í fataflokkun og í verkefninu „Föt sem framlag“.

Fyrirtæki og stofnanir á starfssvæðinu kaupa skyndihjálparnámskeið af Rauða krossinum en kennslan fer ýmist fram í fyrirtækjunum sjálfum eða í húsnæði Eyjafjarðardeildar. Nám­skeiða­haldið er góð tekjulind fyrir deildina en er jafnframt liður í því að vinna að markmiðum Rauða krossins um neyðar­varnir og bætt samfélag.

Verkefnisstjóri námskeiðahalds er deildarstjóri.

Jólaaðstoð

Eins og á undanförnum árum vann Eyjafjarðardeild ásamt Hjálparstarfi kirkjunnar, Hjálp­ræðis­hernum og Mæðrastyrksnefnd Akureyrar að því að styðja við bakið á þeim sem minnst hafa milli handanna fyrir jólin. Þessir aðilar sameinast um Jólaaðstoðina, taka sameiginlega á móti umsóknum um stuðning, vinna úr þeim og ákveða afgreiðslu þeirra með eins faglegum hætti og kostur er en úthlutun úttektarkorta, fatnaðar og matar fór fram í húsnæði Hjálpræðishersins og í húsnæði Rauða krossins.

Sú nýbreytni var tekin upp fyrir jólin 2018 að Eyjafjarðardeild bauð þeim, sem sóttu um aðstoð fyrir jólin, á leiksýningar hjá Freyvangsleikhúsinu og Leikfélagi Akureyrar í samstarfi við leikfélögin. Um 310 einstaklingar og fjölskyldur fengu hefðbundna aðstoð þetta árið en til viðbótar fengu tæplega 300 einstaklingar leikhúsmiða. Deildarstjóri var verkefnisstjóri og annaðist samskipti við samstarfs­aðila.

Viðbrögð við neyðarbeiðnum

Rauði krossinn á Íslandi efnir eftir atvikum til neyðarsafnana vegna náttúruhamfara eða stríðsástands úti í heimi. Eyjafjarðardeild tók á árinu þátt í slíkum söfnunum með því að leggja fram 4 milljónir króna í fjársöfnun vegna stríðátaka í Jemen. Nú er að hefjast á vegum Rauða krossins fjárstuðningur við sárafátækt fólk með framlögum úr sjóði sem stofnaður var á síðasta aðalfundi Rauða krossins á Íslandi. Hugmyndin með sjóðnum er að vekja athygli á kjörum þess fólks sem verst er sett fjárhagslega á hér á landi. Stjórn Eyjafjarðardeildar hefur ekki enn ákveðið framlag sitt í Sárafátæktarsjóð heldur bíður átekta til að sjá hver þörfin er fyrir framlag deildarinnar.

Félagsstarf

Þátttaka félagsmanna í starfi Eyjafjarðardeildar er fyrst og fremst fólgin í sjálfboðnu starfi að verkefnum deildarinnar. Þátttaka í aðalfundum er ekki almenn og almennir félagsfundir eru ekki haldnir. Í júníbyrjun 2018 var haldin grillveisla fyrir sjálfboðaliða þar sem um 80 sjálfboðaliðar komu, sumir með fjölskyldur sínar eins og til var ætlast. Einnig var sjálfboðaliðum boðið í jólahlaðborð skömmu fyrir jól og var sú samkoma sótt af álíka fjölda. Sjálfboðaliðar í Laut héldu vel sótta grillveislu fyrir skjólstæðinga sína. Eins og áður hefur komið fram hafa heimsóknarvinir og þátttakendur í skólaverkefni komið saman í vöfflukaffi undir stjórn Harðar Ólafssonar og Sólveigar Gunnarsdóttur verkefnisstjóra og sagt frá viðfangs­efnum sínum eða hlustað á fyrirlestra um mál sem tengjast þessum verkefnum.

Haldinn var sameiginlegur fundur allra sjálfboðaliða í fataverkefnum á Eyjafjarðarsvæðinu þar sem markmiðið var að vinna að stefnumótun fyrir fataverkefnin. Fundurinn var haldinn 23. ágúst og hann sóttu um 40 manns sem verður að teljast mjög góð þátttaka. Sjálfboðaliðar störfuðu í hópum þar sem unnið var með tillögur um hvernig betur mætti vinna að þessum verkefnum og hvernig mætti bæta aðstöðu sjálfboðaliðanna sjálfra. Unnið hefur verið eftir þessum tillögum í kjölfarið.

Á vormánuðum var gert samkomulag við Háskólann á Akureyri um að auka þátttöku nemenda skólans í sjálfboðaliðaverkefnum hjá deildinni. Fór deildin í framhaldinu í samstarf við hjúkrunarfræðideild og sálfræðideild háskólans um að nemendur gætu unnið sem sjálfboðaliðar Rauða krossins og fengið það metið sem hluta af námi sínu.

Það segir sig sjálft að þátttaka sjálfboðaliða frá utanverðum Eyjafirði í þessum samkomum er minni en æskilegt væri.

Lokaorð

Eins og ljóst má vera af framanskráðum lýsingum á verkefnum Eyjafjarðardeildar er starf deildarinnar bæði fjölbreytt og öflugt eins og verið hefur um langt árabil. Mikill fjöldi sjálfboðaliða starfar með deildinni og enn stærri hópur fólks nýtur góðs af starfinu. Rekstur deildarinnar var í góðu horfi á árinu 2018 í höndum traustra starfsmanna, þrátt fyrir áföll og uppákomur. Stjórn Eyjafjarðardeildar þakkar starfsfólki sínu og sjálfboðaliðum á starfssvæðinu öllu ómetanlegt og óeigingjarnt framlag til Rauða krossins á árinu 2018.