Ársskýrsla 2019

27.3.2020

Rauði krossinn

Ársskýrsla deildarstjórnar
um starf Eyjafjarðardeildar Rauða krossins 2019

Á aðalfundi Eyjafjarðar­deildar 2019 urðu þær einu breytingar á stjórn deildarinnar að Ólafur Sigurðsson kom inn sem aðalmaður en hann hafði setið þar sem varamaður frá miðju ári 2018. Í stað Ólafs sem varamanns kom Gísli Kort Kristófersson. Á fyrsta fundi stjórnarinnar var Aðalheiður kjörin varaformaður, Anna Rósa er ritari og Jónas gjaldkeri. Stjórn og kjörtími stjórnarmanna var þannig ákveðinn á aðalfundi deildarinnar 2019:

Aðalmenn:
Gunnar Frímannsson formaður (2019–2021), Akureyri
Aðalheiður Sigurjónsdóttir varaformaður (2018–2020), Ólafsfirði
Anna Rósa Magnúsdóttir ritari (2018 – 2020), Akureyri
Jónas Þór Karlsson gjaldkeri (2018–2020 ), Akureyri
Jón Baldvin Hannesson (2018–2020), Akureyri
Ólafur Sigurðsson (2019–2021), Siglufirði
Karen Malmquist (2019–2021), Akureyri
Sólborg Friðbjörnsdóttir (2019–2021), Dalvík
Þórhallur Másson (2019–2021), Akureyri

Varamenn:
Berglind Júlíusdóttir (2019–2020), Akureyri
Fjóla Valborg Stefánsdóttir (2019–2020), Grenivík
Ingibjörg Þuríður Stefánsdóttir (2019–2020), Akureyri
Gísli Kort Kristófersson (2019 - 2020), Akureyri

Guðlaug Kristinsdóttir var kosin skoðunarmaður reikninga til eins árs.

Í árslok 2019 voru 1270 félagar skráðir í deildina, af þeim höfðu 620 greitt félagsgjöld. 299 sjálfboðaliðar voru með skráðan sjálfboðaliðasamning við deildina á árinu og komu að um 347 verkefnum.

Húsnæðismál

Litlar breytingar urðu á húsnæðismálum á árinu. Deildin greiðir nú lága leigu fyrir aðgang að húsnæði Slysavarnarfélagsins á Siglufirði fyrir starf deildarinnar. Á Ólafsfirði leigir deildin rými af Slysavarnarfélaginu þar sem í gangi er vinaverkefni, fólk kemur saman og flokkar og selur föt, fæst við handavinnu og aðstoðar börn við heimanám. Á Dalvík eru flokkuð föt og starfrækt verslun í leiguhúsnæði. Þröngt er um sjálfboðaliðana á Dalvík og Ólafsfirði, þegar þeir eru að störfum, og sjálfsagt að hafa augu opin fyrir hentugra og jafnvel ódýrara húsnæði á Dalvík en þó er víst að verslunin á Dalvík er afar vel staðsett.

Á Akureyri var viðhald húsnæðis í lágmarki en beðið var eftir lokaúttekt á húsnæðinu í Viðjulundi. Búist var við að í úttektinni yrðu gerðar kröfur um einhverjar breytingar svo sem uppsetningu snjógildra á þök. Vonir standa til að hægt verði að ljúka úttektinni og tilheyrandi framkvæmdum á árinu 2020. Búið er að ákveða að skipta um gler í gluggum á efri hæð í norðurhlutanum, endurnýja snyrtingu á fyrstu hæð í norðurhluta og færa tengiskáp úr skrifstofu.

Nýting húsnæðisins í Viðjulundi er góð. Þröngt er um fataflokkunina og verslunarrýmið mætti vera stærra. Á fyrstu hæðinni í norðurhlutanum, hlöðunni, verða ákveðnir árekstrar milli Ungfrú Ragnheiðar, skyndihjálparkennslunnar og annarra verkefna sem nýta rýmið en tveimur fyrrnefndu verkefnunum fylgir talsverður búnaður sem þarf geymslu. Úr því rætist vonandi á árinu 2020. Nýting á stóra kennslusalnum er góð, þar eru oft haldin námskeið og fundir, t.d. var þar haldinn formannafundur Rauða krossins á Íslandi í byrjun nóvember. Salurinn er upptekinn fyrir markaði eina viku í mánuði en þeir skila Rauða krossinum umtalsverðum tekjum. Salurinn er líka leigður út til veisluhalda en leigutekjur á árinu 2020 voru á þriðju milljón.

Starfsmannamál

Árið 2019 voru Ingibjörg E. Halldórsdóttir deildarstjóri og Linda Guðmundsdóttir verkefnastjóri í fullu starfi hjá deildinni en 40% af starfstíma sínum varði Linda sem svæðisfulltrúi á Norðurlandi samkvæmt samningi deildarinnar við landsskrifstofu Rauða krossins. Í árslok lét Linda af svæðisfulltrúastarfinu til að sinna deildinni í fullu starfi. Á árinu var Unnar A. Friðleifsson ráðinn í 50% starf við húsumsjón. Asia Faith vann framan af ári í tímavinnu við ræstingar en lét af því starfi á haustdögum. Óhætt er að segja að deildin hafi verið einstaklega heppin með starfsfólk því að hér er valinn maður í hverju rúmi.

Verkefni Eyjafjarðardeildar

Verkefni deildarinnar voru með svipuðum hætti 2019 og verið hafði á undanförnum árum nema að verkefnið „Föt sem framlag“ lagðist af eftir ákvörðun landsskrifstofu. Það var sjónarsviptir að þessu verkefni í Viðjulundinum því að þar hafði hópur sjálfboðaliða verið að störfum tvo morgna í viku hverri en hluti þess hóps starfar þó áfram að því að prjóna fyrir torgsölu deildarinnar og flokka garn sem nýtt er í hannyrðir hópsins. Nýjustu verkefnin Ungfrú Ragnheiður, Opið hús og bókasafnsverkefnið hafa gengið vel eins og komið verður að síðar. Hér á eftir er gerð grein fyrir hverju verkefni og eðli máls samkvæmt verður sú lýsing í stórum dráttum endursögn úr ársskýrslu fyrra árs.

Fataverkefni

Fatasöfnun og -flokkun
Fötum er safnað í gáma á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri. Fötin frá Siglufirði eru send óflokkuð til Akureyrar þar sem þau eru flokkuð og sett í sölu. Í Ólafsfirði eru fötin flokkuð og verslun með föt er opin einu sinni í viku. Fötin sem nýtast ekki í Ólafsfirði eru send til Dalvíkur og Akureyrar. Á Dalvík eru föt flokkuð og nýtileg föt seld í versluninni þar en verslunin fær einnig föt frá Ólafsfirði, Akureyri og jafnvel Reykjavík. Það sem nýtist ekki á Dalvík er sent til Akureyrar. Á Akureyri eru föt flokkuð, sumt fer í verslun, sumt á mánaðarlegan markað og sumt er selt á Ráðhústorgi þegar veður leyfir. Það sem nýtist ekki á félagssvæðinu er sent í endurvinnslu erlendis. Á árinu 2019 var sendur úr Eyjafirði 21 40 feta gámur eða um 216 tonn af fatnaði sem er endurunninn eða endurnýttur erlendis með ýmsum hætti. Sjálfboðaliðar sem unnu að fatasöfnun og flokkun voru 28 á árinu 2019.


Fataverslun
Eyjafjarðardeild rak verslanir með notuð föt og skó á Dalvík og Akureyri auk þess sem tilraunir voru gerðar með verslun á Ólafsfirði. Tekjur af fataverslun á Akureyri voru 17 mkr., á Dalvík 4,1 mkr. og 50 þús. kr. á Ólafsfirði. Heildartekjur af fatasölu í búðunum voru því rúmlega 21,1 m.kr. og jukust frá fyrra ári sem má rekja til þeirrar nýbreytni að hafa verslunina á Akureyri opna á laugardögum frá miðju ári. Aukningin varð þrátt fyrir aukna samkeppni í sölu á notuðum fötum og skóm en vonandi gætir líka að einhverju marki aukinnar vitundar fólks um þá gengdarlausu sóun og umhverfisspjöll sem felst í því að framleiða, flytja og selja föt og skó sem skilað er lítið notuðum í söfnunargáma í takt við tískusveiflur. Heildartekjur af fatasölu Eyjafjarðardeildar voru um 29 mkr. sem er aukning frá árinu 2018, ekki síst vegna meiri sölu á Ráðhústorgi.

Sjálfboðaliðar í fataverslunum og fatamörkuðum voru 48 árinu 2019, 7 á Dalvík og 3 á Ólafsfirði og 38 á Akureyri.

Fatamarkaðir
Fatamarkaðir eða flóamarkaðir með föt á Akureyri voru í byrjun hvers mánaðar ársins nema í janúar. Sumir sjálfboðaliðarnir sem vinna í búðinni unnu líka á fatamörkuðunum undir leiðsögn sjálfboðaliðanna Aðalheiðar Vagnsdóttur og Erlu Ásmundsdóttur. Heildartekjur af mörkuðunum voru um 5,5 m.kr. á árinu 2019 sem er talsverður samdráttur frá árinu á undan. Mest munaði þar um litla sölu á fyrstu mánuðum ársins.


Torgsala
Nokkrum sinnum á sumri hafa sjálfboðaliðar farið með lopapeysur, húfur og vettlinga til að selja ferðamönnum á Ráðhústorgi þegar stór skemmtiferðaskip hafa verið í höfn og veður skaplegt. Tekjur af torgsölu á árinu 2019 voru tæpar 2,4 milljónir króna sem er veruleg aukning frá fyrra ári. Sjálfboðaliðar sem tóku þátt í þessu verkefni voru að mestu þeir sömu og hafa unnið að fataflokkun, á fatamörkuðum og í prjónahóp.

Föt sem framlag – prjónahópar Eyjafjarðardeildar

Í upphafi árs 2019 var ákveðið að hætta að senda föt til Hvíta Rússlands og var verkefnið lagt niður. Farið var yfir stöðu mála með sjálfboðaliðum verkefnisins á Eyjafjarðarsvæðinu og ákveðið að prjónahóparnir yrðu enn starfræktir en að þeir tækju þátt í fjáröflun fyrir félagið. Prjónahóparnir hafa síðan prjónað fatnað fyrir verslanir deildarinnar og fyrir torgsölu á Ráðhústorgi á Akureyri og hafa nokkrir sjálfboðaliðar úr hópnum tekið virkan þátt í torgsölunni. Þá hafa sjálfboðaliðar úr hópnum aðstoðað við að flokka allt garn sem kemur í fataflokkun á Akureyri og merkja það, bæði svo að auðveldara að sé að nýta það í prjónahópum deildarinnar og til að gera garnið endursöluvænna. Þá hefur deildin einnig lagt nágrannadeildum til garn. Sjálfboðaliðarnir hafa einnig straujað föt fyrir verslunina á Akureyri og gert minniháttar lagfæringar á flíkum svo hægt sé að selja þær í versluninni. Þá hafa prjónahóparnir brugðist við og prjónað fyrir skjólstæðinga Rauða krossins, t.d. þá sem sækja þjónustu í verkefnið Ungfrú Ragnheiði.

Sjálfboðaliðarnir voru nokkrum sinnum á árinu með basar á Glerártorgi og í jólagleði sjálfboðaliða í desember afhentu fulltrúar prjónahópanna Rauða krossinum um hálfa milljón króna sem var afrakstur basaranna.

Sjálfboðaliðum bauðst að sækja námskeið í sálrænum stuðningi og námskeið í almennri skyndihjálp.

49 sjálfboðaliðar voru skráðir í þetta verkefni.


Stuðningur við innflytjendur
Nokkuð er um að hælisleitendur, sem hafa fengið alþjóðlega vernd á Íslandi, flytji til Akureyrar. Eyjafjarðardeild leitast við að sinna málsvarastarfi og aðstoða þá einstaklinga og fjölskyldur sem tilheyra þessum hópi.

Íslenskukennsla fyrir innflytjendur
Á árinu 2017 hófst skipulegt starf með innflytjendum sem miðar að því að þjálfa þá í að skilja og tala íslensku. Aðstoðin felst í því að sjálfboðaliði frá deildinni hittir einn innflytjanda einu sinni í viku í um klukkustund í senn. Hér er bæði um að ræða flóttafólk en einnig aðra fullorðna innflytjendur sem þurfa aðstoð við að læra íslensku og eru að fóta sig í íslensku samfélagi. Á árinu 2019 unnu 13 sjálfboðaliðar að þessu verkefni með 14 innflytjendum. Þá voru einnig skráðir 3 sjálfboðaliðar sem leiðsögumenn flóttafólks en leiðsögumenn veita flóttafólki félagslegan stuðning og leiðsögn í daglegu lífi.

Íslenskukennsla fyrir innflytjendabörn
Nokkur undanfarin ár hefur hópur sjálfboðaliða farið í 3 grunnskóla á Akureyri og hitt nemendur sem þurfa hjálp við að ná tökum á íslensku. Á árinu 2019 var farið í 3 grunnskóla á vormisseri en í tvo á haustmisseri en einn grunnskóli hætti þátttöku í verkefninu. Lesið er með börnunum, þeim hjálpað með heimanám eða einungis spjallað, allt eftir því hvað hentar hverju og einu barni. Á árinu 2019 tóku 5 sjálfboðaliðar þátt í þessu verkefni og aðstoðuðu 13 börn, annaðhvort eitt í einu eða í hópum.

Nýr angi af verkefninu þjálfun í íslensku hófst á árinu 2018 í samstarfi við Amtbókasafnið og hélt áfram á árinu 2019. Þar aðstoða sjálfboðaliðar Rauða krossins börn sem hafa íslensku sem annað mál. Aðstoðin felst í því að sjálfboðaliðar lesa fyrir börnin eða hjálpa þeim að lesa sjálf, allt eftir getu þeirra. Þá eru einnig sjálfboðaliðar sem aðstoða börn í heimahúsi, ýmist við lestur eða heimanám. 6 leiðbeinendur aðstoðuðu 9 börn.

Fjórir fundir eða viðburðir voru haldnir á árinu fyrir sjálfboðaliða í þessum verkefnum auk þess sem sjálfboðaliðum var boðið að taka þátt í bæði námskeiði fyrir fólk sem starfar með innflytjendum og námskeiði í sálrænum stuðningi og almennri skyndihjálp.

Opið hús fyrir innflytjendur
Verkefnið Opið hús hóf göngu sína í apríl 2019. Í upphafi var lagt upp með að opna húsið í Viðjulundi á ákveðnum tíma til aðstoða fólk af erlendum uppruna við dagleg úrlausnarefni og bjóða upp á félagsstarf. Fljótlega kom í ljós að skjólstæðingar höfðu ekki áhuga á félagsstarfinu og var því hætt við þann þátt verkefnisins.

Starfsemin fer þannig fram að einu sinni í viku, á miðvikudögum frá 14-16, er opið hús í Viðjulundi og eru yfirleitt tveir sjálfboðaliðar á vakt ásamt starfsmanni. Sjálfboðaliðar veita aðstoð við atvinnuleit og húsnæðisleit ásamt því að veita almenna ráðgjöf um réttindi og skyldur í íslensku samfélagi. Leitast er við að finna félagslega virkni fyrir þá einstaklinga sem óska eftir því ásamt því að aðstoða við námsleit, umsóknir vegna dvalarleyfa eða atvinnuleyfa o.fl. Starfsmaður er sjálfboðaliðum innan handar og aðstoðar einstaklinga við önnur mál, t.d. er snerta fjárhagsáhyggjur eða önnur viðkvæm málefni. Í október hófst samstarf laganema við Háskólann á Akureyri og sjálfboðaliða í opnu húsi um stuðning við þessa skjólstæðinga deildarinnar.

Á árinu 2019 nýttu 29 einstaklingar sér þjónustuna og 80 komur voru skráðar í opið hús. Sjálfboðaliðar voru 13. Haldnir voru fjórir fundir með sjálfboðaliðum opins húss ásamt því að haldnir voru hálfsmánaðarlega verkefnastöðufundir með hópstjóra. Sjálfboðaliðum var boðið að sækja námskeið fyrir þá sem starfa með innflytjendum og flóttafólki.

Hópstjóri er Sóley Björk Stefánsdóttir.

Heimsóknarvinir
Starf heimsóknarvina var með svipuðum hætti 2019 og verið hafði um árabil. Sjálfboðaliðar heimsækja einangraða einstaklinga á heimilum þeirra eða á stofnunum og spjalla við þá og veita þeim tilbreytingu. Árið 2019 voru 45 heimsóknarvinir að störfum á vegum Eyjafjarðardeildar, 7 á Siglufirði og 38 á Akureyri, þar af 3 með hund en það er vel þegið hjá sumum gestgjöfum. Gestgjafar voru örlítið fleiri en sjálfboðaliðarnir.

Á árinu voru haldnir 4 fundir/fræðsluerindi með sjálfboðaliðum í vinaverkefnum. Hulda Sveinsdóttir hélt erindi um heilabilun og samfélagið, Inga Dagný Eydal hélt erindi um útiveru og slökun og 12 sjálfboðaliðar úr hópnum heimsóttu Hælið á Kristnesi - setrið um sögu berkla - og fengu þar leiðsögn frá Maríu Pálsdóttur safnstjóra og Páli föður hennar. Einnig var boðið upp á námskeið í sálrænum stuðningi og almennri skyndihjálp fyrir sjálfboðaliða í heimsóknarverkefnum. Hópstjórar á Akureyri eru Hörður Ólafsson og Sólveig Gunnarsdóttir en á Siglufirði héldu Margrét Guðmundsdóttir og Mundína Valdís Bjarnadóttir utan um heimsóknirnar.

Starf með fólki með geðraskanir
Laut – athvarf fyrir einstaklinga með geðraskanir, sem Rauði krossinn stofnaði og rak til skamms tíma, var rekin sem sjálfseignarstofnun án beinnar aðkomu Rauða krossins. 10 sjálfboðaliðar Rauða krossins sáu um að hafa opið í Laut á laugardögum og þangað hafa komið hátt í 20 manns þegar flest hefur verið, flestir eru fastagestir Lautar. Auk laugardagstímanna var haldið árlegt sumargrill í Lautinni fyrir gesti hússins og sjálfboðaliða.

Neyðarvarnir
Það er hlutverk Rauða krossins í almannavörnum að bregðast við hópslysum og náttúruvá sem ógnar fjölda fólks með því að opna fjöldahjálparstöðvar og veita þar aðhlynningu þeim sem þurfa. Eyjafjarðardeild á að vera tilbúin til að opna slíkar stöðvar á starfsstöðum sínum og hefur á hverjum stað einstaklinga sem kunna að opna fjöldarhjálparstöðvar og veita þar fyrstu þjónustu. Einnig hefur Eyjafjarðardeild á sínum snærum bæði áfallateymi og skyndihjálpar­hóp, sem hafa fengið sérstaka þjálfun, hvor á sínu sviði. Þessir hópar mynda svo ásamt fjölda annarra einstaklinga viðbragðshóp vegna stærri hamfara og slysa. Gert er ráð fyrir að þessir hópar geti komið á vettvang og nýtt sérþekkingu sína eftir því hvers konar áföll dynja yfir.

Það verður að segjast eins og er að uppfærsla neyðaráætlana og þjálfun sjálfboðaliða hafði ekki verið sinnt sem skyldi um tíma en á árinu 2019 var ákveðið að gera átak í neyðarvörnum á Eyjafjarðarsvæðinu. Ingólfur Freysson, starfsmaður Landsskrifstofu og Þingeyjarsýsludeildar, var fenginn til að aðstoða starfsmenn Eyjafjarðardeildar við að efla neyðarvarnirnar. Gerð var ástandsskoðun á öllum fjöldahjálparstöðvum á svæðinu, unnið að því að uppfæra neyðarvarnaráætlanir og yfirfara lista yfir viðbragðsaðila. Neyðarnefndin var boðuð á þrjá fundi þar sem í tvö skipti voru haldnar æfingar, ein æfing í opnun fjöldahjálparstöðvar í Lundarskóla og önnur talstöðvaræfing í Viðjulundi 2. Þá voru haldnir sameiginlegir fundir Eyjafjarðardeildar og Þingeyjarsýsludeildar þar sem rætt var um mögulega sameiningu neyðarvarnarnefnda en stjórnir beggja deilda höfðu samþykkt að skoðaðir væru kostir við slíka sameiningu.

Viðbragðsaðilar tóku þátt í sjóslysaæfingu á Húsavík í maí og í neyðarvarnarmálþingi í október í Heimalandi undir Eyjafjöllum á vegum Rauða krossins.

Rauða krossinum á Íslandi voru gefnar fjórar sérútbúnar Toyota Hilux neyðarvarnarbifreiðar seint á árinu 2018 og er ein þeirra nú staðsett á Norðurlandi, oftast á Húsavík og Akureyri.

Í desember 2019 gerði mikið óveður á Norðurlandi sem hafði í för með sér umtalsverðar truflanir á raforkuflutningi og samgögnum á starfssvæði Eyjafjarðardeildar. Nú reyndi á Rauða krossinn sem opnaði fjöldahjálparstöðvar á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri. Þó svo að starfsfólki deildarinnar og sjálfboðaliðum hafi með góðri aðstoð Slysavarnarfélagskvenna tekist að opna fjöldahjálparstöðvar á þessum stöðum kom í ljós að deildinni er margt að vanbúnaði. Í kjölfarið hefur deildarstjórnin ákveðið að beita sér fyrir því að neyðarvarnarkerrur með margvíslegum búnaði svo sem teppum og beddum, litlum varaaflstöðvum, ljóskösturum og hitablásurum verði staðsettar á fyrrnefndum stöðum og á Grenivík. Námskeið fyrir sjálfboðaliða, sem ráðgerð höfðu verið á haustdögum 2019, frestuðust fram yfir áramót en er nú að mestu lokið og í kjölfarið hafa nokkrir sjálfboðaliðar bæst í hóp þeirra sem eru tilbúnir að bregðast við á ögurstundu.

Árið 2019 voru 19 sjálfboðaliðar skráðir í fjöldahjálp, 4 í neyðarnefnd og 2 í aðgerðarstjórn.

Neyðarnefnd deildarinnar er skipuð fulltrúum frá hverjum stað, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri og Grenivík.

Skyndihjálparhópur
Á vegum Eyjafjarðardeildar hefur starfað hópur sjálfboðaliða sem hefur sérþjálfað sig til að fara á vettvang þegar slys eða náttúruhamfarir ber að höndum og veita skyndihjálp. Um er að ræða samstarfsverkefni Þingeyjarsýslu-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðardeildar. Í hópnum voru 9 sjálfboðaliðar frá Eyjafjarðardeild. Hópurinn hefur afmarkað hlutverk í samvinnu við aðra viðbragðsaðila í almanna­varnaskipulaginu. Nú hefur landsskrifstofa ákveðið að hætta að styrkja starf þessa hóps sem er fyrir vikið í uppnámi. Ákveðið hefur verið að Þingeyjarsýsludeild taki við umsýslu hópsins af Eyjafjarðardeild.

Áfallateymi
Í áfallateymi Eyjafjarðardeildar eru 27 sjálfboðaliðar sem hafa búið sig undir að veita þeim sálrænan stuðning sem hafa lent í áföllum. Sjálfboðaliðar skipta með sér vöktum en teymið er alltaf á vakt. Teymið fór í 13 útköll á árinu. Útköllin voru vegna slysa á fólki, húsbruna, opnunar fjöldahjálparstöðva o.fl. atburða. Notendur fengu eftir atvikum sálrænan stuðning, spjall, bækling eða allt í senn. Viðrunarfundur var haldinn í kjölfar hvers útkalls.

Auk þess að fara í útkall voru haldnir 5 teymisfundir eða samverustundir fyrir sjálfboðaliðana. Nokkrir þátttakendur úr teyminu fóru bæði á sjálfboðaliðaþingið í Reykjavík og á neyðarvarnarmálþing Rauða krossins á Suðurlandi. Þá fóru félagar úr teyminu á tvær æfingar, snjóflóðaæfingu í Hlíðarfjalli og sjóslysaæfingu á Húsavík auk þess sem haldin var skrifborðsæfing fyrir teymið í heild í Viðjulundi 2.

Nokkrir úr teyminu aðstoðuðu við að taka viðtöl við skjólstæðinga jólaaðstoðarinnar í desember 2019. Einn hópstjóri teymisins tók þátt í þjálfun viðbragðsaðila á landsvísu, meðal annars þegar verið var að stofna sambærilegt teymi í Borgarnesi og í Þingeyjarsýslu. Boðið var upp á námskeið í almennri skyndihjálp. Hópstjórar eru Álfheiður Svana Kristjánsdóttir, Guðný Rut Gunnlaugsdóttir og Katrín Guðrún Guðjónsdóttir.

Hjálparsíminn 1717 – símsvörun
Á undanförnum árum hafa nokkrir sjálfboðaliðar á Akureyri sinnt símsvörun fyrir Hjálpar­símann 1717. Þetta hafa fyrst og fremst verið nemendur Háskólans á Akureyri í sálfræði og hjúkrunarfræði sem hafa fengið til þess sérstaka þjálfun og fá starfið metið í náminu. Námskeið var haldið fyrir sjálfboðaliða Hjálparsímans haustið 2019 og sóttu 11 sjálfboðaliðar námskeiðið.

Haldnir voru tveir fundir með sjálfboðaliðum Hjálparsímans ásamt því að sjálfboðaliðum var boðið að taka þátt í námskeiði í sálrænum stuðningi og almennri skyndihjálp.

Á árinu 2019 voru 18 sjálfboðaliðar í þessu verkefni. Verkefninu er stýrt frá landsskrifstofu Rauða krossins.

Ungfrú Ragnheiður
Á fyrstu dögum ársins 2018 hófst starf á vegum Eyjafjarðardeildar í anda skaðaminnkunar sem felst í að dreifa sprautum og sprautunálum til fólks, sem sprautar vímuefnum í æð, og veita því aðstoð með sáraumbúnað og fleira. Verkefnið á Akureyri heitir Ungfrú Ragnheiður og er eftir fyrirmynd verkefnisins Frú Ragnheiður sem Reykjavíkurdeild Rauða krossins rekur. Tveir nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar frá Háskólanum á Akureyri, Berglind Júlíusdóttir og Edda Ásgrímsdóttir, hafa leitt undirbúning verkefnisins og síðan starfið sjálft í samvinnu við starfsfólk Eyjafjarðardeildar. Sjálfboðaliðar eru á vöktum tvisvar í viku en sinna einstaklingum utan vaktatíma endrum og eins. Eyjafjarðardeild hefur útvegað búnaðinn, m.a. tekið á leigu bifreið sem sjálfboðaliðar hafa notað til að aka um bæinn og færa skjólstæðingum nálar, sprautur o.fl. og veita skaðaminnkandi þjónustu. Sú bifreið er ekki að öllu leyti hentug fyrir starfsemina og því var keypt sendibifreið sem Oddfellowstúkan Rán hefur boðist til að innrétta á sinn kostnað. Tafir hafa orðið á því verki af óviðráðanlegum ástæðum.

Talsverður búnaður fylgir starfi Ungfrú Ragnheiðar sem hefur verið á hrakhólum með geymslu. Úr því rætist að nokkru leyti þegar bifreiðin verður fullbúin en auk þess verður ráðist í endurbætur á snyrtingu við aðalinngang hússins í Viðjulundi en þar verður stór skápur sem ætlaður er fyrir þetta verkefni.

Komur í Ungfrú Ragnheiði voru 95 árið 2019 eða rúmlega tvisvar sinnum fleiri en þær höfðu verið árinu áður sem er ekki til marks um aukna fíkniefnanotkun á svæðinu heldur að verkefnið er farið að ná betur til þeirra sem það er ætlað.

Nýliðanámskeið var haldið á árinu fyrir nýja sjálfboðaliða ásamt opnum fyrirlestri fyrir íbúa á Eyjafjarðarsvæðinu um skaðaminnkun en á þann fyrirlestur mættu um 60 manns. Þá var boðið upp á námskeið í sálrænum stuðningi og almennri skyndihjálp fyrir sjálfboðaliða verkefnisins ásamt því að sjálfboðaliðum var boðið upp á hóphandleiðslu sálfræðings.

Á vormánuðum 2019 fór annar hópstjóri Ungfrú Ragnheiðar á alþjóðlega ráðstefnu um skaðaminnkun (International harm reduction conference) í Porto í Portúgal. Hópstjórar verkefnisins hafa haldið erindi á fræðslufundi læknaráðs á Sjúkrahúsinu á Akureyri og átt tvo fræðslufundi með félagsþjónustu Akureyrarbæjar.

Verkefninu hefur verið mjög vel tekið og ýmsir hafa styrkt það rausnarlega með fjárframlögum, m.a. Norðurorka. Á árinu hófst samstarf við mötuneyti Hjálpræðishersins sem gefur verkefninu þann mat sem fellur til á vaktdögum Ungfrúr Ragnheiðar.

20 sjálfboðaliðar tóku þátt í Ungfrú Ragnheiði árið 2019 og hittu 15 einstaklinga sem sóttu búnað fyrir sjálfa sig og aðra.

Námskeiðahald og fræðsla
Kennarar á vegum Eyjafjarðardeildar héldu 90 námskeið í skyndihjálp fyrir um 1600 manns sem er veruleg aukning frá fyrra ári. Fyrirtæki og stofnanir á starfssvæðinu kaupa skyndihjálparnámskeið af Rauða krossinum en kennslan fer ýmist fram í fyrirtækjunum sjálfum eða í húsnæði Eyjafjarðardeildar. Nám­skeiða­haldið er góð tekjulind fyrir deildina en er jafnframt liður í því að vinna að markmiðum Rauða krossins um neyðar­varnir og bætt samfélag.

Á Akureyri voru haldin tvö námskeið sem nefnast „Börn og umhverfi“ auk fræðslu um Rauða krossinn fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. 16 formlegar kynningar voru haldnar fyrir 455 manns auk fjölmargra óformlegra kynninga. Nemendur í leikskólum og yngri bekkjum grunnskóla koma í heimsókn í Viðjulundinn og fá fræðslu um fatasöfnun og umhverfismál og nemendur í framhaldsskólum bæjarins hafa fengið að kynnast starfinu með því að taka þátt í t.d. fataflokkuninni. Verkefnastjóri hélt þrjár kynningar fyrir grunnskólabörn á Dalvík í húsnæði deildarinnar þar og fjölmargar kynningar fyrir nemendur í Háskólanum á Akureyri.

Haldið var almennt 4 stunda skyndihjálparnámskeið fyrir sjálfboðaliða deildarinnar og tóku 18 sjálfboðaliðar þátt í námskeiðinu úr fjölbreyttum verkefnum deildarinnar.

Haldin voru námskeið í sálrænum stuðningi fyrir sjálfboðaliða og tóku 24 sjálfboðaliðar úr fjölbreyttum verkefnum deildarinnar þátt í þeim.

Þá fékk prjónahópurinn í Víðilundi skyndihjálparkennslu.

Jólaaðstoð
Eins og á undanförnum árum vann Eyjafjarðardeild ásamt Hjálparstarfi kirkjunnar, Hjálp­ræðis­hernum og Mæðrastyrksnefnd Akureyrar að því að styðja við bakið á þeim sem minnst hafa milli handanna fyrir jólin. Þessir aðilar sameinast um Jólaaðstoðina, taka sameiginlega á móti umsóknum um stuðning, vinna úr þeim og ákveða afgreiðslu þeirra með eins faglegum hætti og kostur er en úthlutun úttektarkorta, fatnaðar og matar fór fram í húsnæði Hjálpræðishersins og í húsnæði Rauða krossins.

Sú nýbreytni var tekin upp fyrir jólin 2018 að Eyjafjarðardeild bauð þeim, sem sóttu um aðstoð fyrir jólin, á leiksýningar hjá Freyvangsleikhúsinu og Leikfélagi Akureyrar í samstarfi við leikfélögin. Þessu starfi hefur verið haldið áfram og í tengslum við jólaaðstoðina 2019 þiggja nú um 400 einstaklingar miða á sýningar hjá Leikfélagi Akureyrar í byrjun árs 2020 en auk Leikfélagsins styrkja Efla verkfræðistofa og Landsbankinn þetta verkefni.

Viðbrögð við neyðarbeiðnum
Rauði krossinn á Íslandi efnir eftir atvikum til neyðarsafnana vegna náttúruhamfara eða stríðsástands úti í heimi. Eyjafjarðardeild tók á árinu þátt í slíkum söfnunum með því að leggja fram 2,4 milljónir króna í fjársöfnun vegna ofsaflóða í sunnanverðri Afríku. Auk þess var eftirstöðvum svonefnds Einhildarsjóðs, 300 þús. kr., ráðstafað í söfnunina. Deildin lagði fleiri góðum málum lið með beinum framlögum svo sem með hálfrar milljónar króna framlagi í tómstundasjóð flóttamanna þótt það teljist ekki sem viðbrögð við neyðarbeiðni.

Eyjafjarðardeild hefur nýlega selt fasteignir á Siglufirði og Dalvík. Stjórn deildarinnar hefur ekki fullmótað stefnu varðandi ráðstöfun söluandvirðisins en fyrirsjáanlegt er að það verði að hluta lagt í kostnað við eflingu neyðarvarna á félagssvæðinu og erlendar safnanir auk þess sem rætt hefur verið um að stofna styrktarsjóð fyrir fólk á félagssvæðinu sem lendir í áföllum sem falla utan þess sem hið opinbera telur sér skylt að sinna.

Sjálfboðaliðaþing Rauða krossins
Sjálfboðaliðaþing Rauða krossins var haldið í Efstaleiti 4. maí 2019. Þar komu saman sjálfboðaliðar víðsvegar frá landinu. Á þinginu fór fram ýmis konar fræðsla. Frá Eyjafjarðardeild fóru 15 sjálfboðaliðar á þingið úr ýmsum verkefnum deildarinnar.

Baksturshópur
Í Viðjulundi starfa að jafnaði margir sjálfboðaliðar, flestir í fataverkefnum, ásamt starfsmönnum. Sú venja hefur skapast að bjóða sjálfboðaliðum, sem vinna í húsi á morgnana, í morgunkaffi kl. 10.30 þar sem boðið er upp á kaffi og meðlæti. Tilgangur þessa er ekki fyrst og fremst að bjarga hungruðu fólki frá næringarskorti heldur miklu fremur að skapa samverustund og gera sjálfboðastarfið skemmtilegra og eftirsóknarverðara. Kostnaður við þessa starfsemi er innifalinn í lið í ársreikningi sem heitir „Funda- og kaffikostnaður“ og hefur vaxið talsvert frá því sem var fyrir nokkrum árum. Þá komu nokkrir sjálfboðaliðar saman öðru hverju til að baka með kaffinu en það starf hefur legið að mestu niðri þangað til seint á síðasta ári að bökunarhópur var endurvakinn undir stjórn Önnu Arngrímsdóttur. Í hópnum eru 5 sjálfboðaliðar sem koma saman og fylla á frystikistuna eftir þörfum.

Þetta starf sparar ekki aðeins deildinni útgjöld heldur hefur það aukið á ánægju sjálfboðaliða, starfsmanna og gesta sem koma í húsið. Ánægja sjálfboðaliða er þó ekki óskipt því að borið hefur á því að sumir þeirra hafa fengið sér meira af brauðinu en þeim þykir sjálfum hollt og þess vegna hefur bökunarhópurinn fengið skilaboð um að baka nú eitthvað vont til tilbreytingar. Hópurinn hefur ekki enn orðið við því.

Félagsstarf
Þátttaka félagsmanna í starfi Eyjafjarðardeildar er fyrst og fremst fólgin í sjálfboðnu starfi að verkefnum deildarinnar. Þátttaka í aðalfundum er ekki almenn og almennir félagsfundir eru ekki haldnir. Í maí 2019 var haldin grillveisla fyrir sjálfboðaliða þar sem um 80 sjálfboðaliðar komu, sumir með fjölskyldur sínar eins og til var ætlast. Einnig var sjálfboðaliðum boðið í jólahlaðborð skömmu fyrir jól og var sú samkoma sótt af álíka fjölda. Sjálfboðaliðar í Laut héldu vel sótta grillveislu fyrir skjólstæðinga sína. Eins og áður hefur komið fram hafa heimsóknarvinir komið saman undir stjórn hópstjóranna Harðar Ólafssonar og Sólveigar Gunnarsdóttur og hlustað á fyrirlestra um mál sem tengjast þessum verkefnum.

Haldinn var á Dalvík sameiginlegur fundur allra sjálfboðaliða í fataverkefnum á Eyjafjarðarsvæðinu til að bera saman bækur. Fundurinn var haldinn 23. ágúst og hann sóttu um 40 manns sem verður að teljast mjög góð þátttaka. Sjálfboðaliðar störfuðu í hópum þar sem unnið var með tillögur um hvernig betur mætti vinna að þessum verkefnum og hvernig mætti bæta aðstöðu sjálfboðaliðanna sjálfra. Unnið hefur verið eftir þessum tillögum í kjölfarið.

Það segir sig sjálft að þátttaka sjálfboðaliða frá utanverðum Eyjafirði í þessum samkomum er minni en æskilegt væri.


Lokaorð
Eins og ljóst má vera af framanskráðum lýsingum á verkefnum Eyjafjarðardeildar er starf deildarinnar bæði fjölbreytt og öflugt eins og verið hefur um langt árabil. Mikill fjöldi sjálfboðaliða starfar með deildinni og enn stærri hópur fólks nýtur góðs af starfinu. Rekstur deildarinnar var í góðu horfi á árinu 2019 í höndum traustra starfsmanna. Rekstrartekjur umfram gjöld voru um 4 milljónir króna og hreinar eignir í sjóði voru við árslok rúmar 50 milljónir sem deildarstjórn vill ráðstafa til uppbyggingar neyðarvarna á starfssvæðinu og til þurfandi einstaklinga nær og fjær. Stjórn Eyjafjarðardeildar þakkar starfsfólki sínu og sjálfboðaliðum á starfssvæðinu öllu ómetanlegt og óeigingjarnt framlag til Rauða krossins á árinu 2019.