Aðalfundur

7.3.2016

Rauða krossins við Eyjafjörð haldinn í Viðjulundi 2, Ak.

 

 1. Fundur settur.
  Sigurður Ólafsson formaður deildarinnar setti fund kl. 20.05 og bauð fundarmenn velkomna. Hann stakk upp á Gunnari Frímannssyni sem fundarstjóra og var það samþykkt.
 2. Gunnar tók við stjórn fundarins. Hann stakk upp á Guðlaugu Kristinsdóttur sem fundarritara og var það samþykkt. Því næst kynnti hann dagskrá fundarins.
 3. Skýrsla stjórnar.
  Sigurður Ólafsson las skýrslu stjórnar. Þar kom m.a. fram að félagssvæði deildarinnar nær frá Siglufirði til Grenivíkur, inn allan Eyjafjörð ásamt Hrísey og Grímsey. Skráðir félagar í árslok 2015 voru 1141, tæplega 200 með skráðan sjálfboðaliðasamning við deildina og hátt í 600 einstaklingar tóku þátt í starfi deildarinnar á síðasta ári. Á félagssvæðinu búa um 24.500 manns.
  Haldnir voru 5 formlegir fundir með deildarstjóra, starfsmönnum og öðrum stjórnarmönnum eða sjálfboðaliðum þegar þess þurfti. 4 félagar starfa fyrir RKÍ: Úlfar Hauksson er formaður kjörnefndar, Gunnar Frímannsson á sæti í laganefnd, Guðný Bergvinsdóttir í úthlutunarnefnd Verkefnasjóðs og Álfheiður Svana Kristjánsdóttir situr í samráðshópi um áfallahjálp.
  Helstu verkefni deildarinnar á síðasta ári voru: Deildin svaraði 2 neyðarbeiðnum á árinu, Hvíta Rússland v. Úkraínu og svo Nepal.
  Starf með innflytjendum. Haldið var áfram með verkefni sem hófst 2014. Það felur í sér að auka málfærni barna innflytjenda. Sjálfboðaliðar hitta nú skjólstæðinga sína bæði í Lundarskóla og Síðuskóla. Hörður Ólafsson stýrir verkefninu en að því koma 15    sjálfboðaliðar auk starfsmanna viðkomandi skóla.
  Í október var ljóst að hingað kæmu flóttamenn frá Sýrlandi og hófst undirbúningur deildarinnar þá strax og stóð óslitinn til 18. janúar þegar fólkið kom til landsins. Hefur verkefnið gengið vel hingað til, ekki síst vegna þess hvað allt samstarf við Akureyrarkaupstað hefur gengið vel. Verkefnið hefur notið mikils velvilja bæjarbúa og deildin haft kraftmikla og duglega sjálfboðaliða og starfsfólk til að sinna verkefninu.
  Fjölmörg námskeið voru haldin á vegum deildarinnar, í allt um 70 námskeið sem 11 – 12 kennarar og leiðbeinendur önnuðust. Mest þátttaka var á skyndihjálparnámskeiðum eða um 1.260 þátttakendur.
  Deildin safnaði fatnaði á öllu deildarsvæðinu, samtals um 120 tonnum. Fatnaðurinn er flokkaður, sumt selt í verslunum RK á svæðinu, sumt sent suður og enn annað út til Þýskalands. Fatamarkaðir voru haldnir bæði á Akureyri og Dalvík. Alls tóku um 60 sjálfboðaliðar þátt í fataverkefnum hér á svæðinu.
  Föt sem framlag. 1.325 ungbarnapakkar og 1.403 barnapakkar voru útbúnir hjá deildinni og sendir út til Hvíta-Rússlands á síðasta ári. 23 sjálfboðaliðar auk starfsmanna önnuðust þetta verkefni.
  Neyðaráætlun deildarinnar hefur verið uppfærð og er komin í rafrænan búning þannig að öll vinna við breytingar og uppfærslu á henni verður mun auðveldari í framtíðinni. Einnig er lokið vinnu við gerð viðbragðsáætlunar v. hópslysa í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi Eystra fyrir starfssvæði almannavarnarnefndar Eyjafjarðar og er gert ráð fyrir að hún verði undirrituð og gefin út í vor.
  Skyndihjálparhópur svæðisins og viðbragðshópur héldu sínar æfingar. Samtals eru 43 sjálfboðaliðar í þessum hópum.
  Eins og í fyrra var samstarf við önnur hjálparsamtök á svæðinu varðandi jólaaðstoðina. Alls voru það 345 einstaklingar eða fjölskyldur sem fengu aðstoð.
  Svarað er hér á Akureyri í Hjálparsímann 1717. Það er unnið í samstarfi við landsskrifstofuna og Reykjavíkurdeild. Það eru að mestu nemendur í félagsvísindum við HA sem sinna því verkefni.
  Heimsóknarvinir eru starfandi á Siglufirði og Akureyri. Á síðasta ári fóru sjálfboðaliðar deildarinnar í hátt í 1800 heimsóknir.
  Deildin skipti um húsnæði á Ólafsfiðri á árinu og hefur það hleypt nýju blóði í starfsemina þar. Þar er m.a. starfandi prjónahópur.
  Rekstur Lautarinnar gengur sinn vanagang. RK annast rekstur athvarfsins f.h. Akureyrarbæjar og Geðverndarfélagsins en Akureyrarbær ber fjárhagslega ábyrgð á rekstrinum. Erfiðlega hefur gengið að fjármagna  verkefnið og ekki hægt að segja á þessari stundu til um framhaldið. Aukið fjármagn þarf og er helst horft til aðkomu ríkisins varðandi þá fjármögnun.
  Framkvæmdir halda áfram hér í Viðjulundinum en þessi aðalfundur er haldinn í nýjum sal í húsinu.
  Að lokum þakkaði Sigurður sjálfboðaliðum, starfsmönnum og öðrum sem hafa lagt deildinni lið með einhverjum hætti. Einnig þeim stjórnarmönnum sem nú hverfa úr stjórn og bauð nýja tilvonandi stjórnarmenn velkomna til starfa.
 4. Ársreikningar lagðir fram til afgreiðslu.
  Hafsteinn Jakobsson deildarstjóri Eyjafjarðardeildar kynnti þá. Þeir eru unnir af Grant Thornton endurskoðun.
  Rekstrartekjur                 kr. 49.225.166
  Rekstrargjöld                    kr. 39.270.002
  Fjármagnstekjur             kr.      453.527
      Hagnaður                       kr. 10.408.691

  Eignir
  Fastafjármunir                 kr. 128.007.274
  Veltufjármunir                 kr.   21.787.354
      Samtals eignir               kr. 149.794.628

  Skuldir og eigið fé
  Eigið fé                                kr. 143.266.825
  Skammtímaskuldir         kr.      6.527.803
  Samtals                               kr. 149.794.628

  Handbært fé í árslok      kr.    20.514.125
 5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
  Gunnar Frímannsson spurði út í aukinn kostnað við fatasöfnun. Hafsteinn útskýrði að það væri v. aukins umfangs, pappakassar, plastpokar, límband, kostnaður við saumavélar svo eitthvað sé nefnt. Gunnar spurði einnig út í mikla aukningu í frjálsum framlögum og styrkjum. Hafsteinn sagði að samdráttur í söfnunarkassatekjum skýrði hluta af því, þær tekjur fara nú í gegnum Verkefnasjóð og koma fram í ýmsum tekjum í samantekt  í rekstrarskýrslu. Kostnaðar/tekjur við flóamarkað skýrir hluta aukningarinnar. Ingibjörg Halldórsdóttir spurði út í afskriftir. Hafsteinn sagði að almenn afskriftarprósenta fasteigna væri 3% og 20% af áhöldum og tækjum.
  Síðan voru ársreikningar bornir upp og samþykktir samhljóða.
 6. Framkvæmdaáætlun kynnt.
  Hafsteinn kynnti framkvæmda- og fjárhagsáætlun 2016. Stefnt er að áframhaldandi starfi að þeim verkefnum sem hafa verið í gangi. Ingibjörg ræddi verkefnið Gengið til góðs. Auglýsingakostnaður er oft hár ef þarf að greiða hann að fullu. Deildirnar geta hver um sig haldið fjáröflunarviku og hafa þá meira sjálfræði um framkvæmd. Jón Knutsen spurði út í lægri tekjuáætlun v. námskeiða. Sigurður svaraði að tekjur v. námskeiða hefðu verið mjög háar á síðasta ári og vegna varúðarsjónarmiða hefði verið ákveðið að lækka áætlunina milli ára.
 7. Kosning í stjórn.
  Kjörnefnd skipuðu þeir Jón Knutsen, Hörður Ólafsson og Páll Sverrisson.
  Á fyrra ári og sitja áfram:
  - Sigurður Ólafsson formaður, Akureyri
  - Helga I. Jóhannsdóttir, Akureyri
  Á fyrra ári og biðjast lausnar:
  - Elsa M. Guðmundsdóttir, Akureyri
  - Eva B. Guðmundsdóttir, Dalvík
  - Dana Jóna Sveinsdóttir, Dalvík
  Í þeirra stað til eins árs:
  - Sólborg Friðbjörnsdóttir, Dalvík
  - Harpa Hlín Jónsdóttir, Ólafsfirði
  - Friðrik Steinar Svavarsson, Siglufirði
  Samþykkt samhljóða.
  Hörður Ólafsson er búinn að fylla stjórnunarkvótann og gefur því ekki kost á sér til endurkjörs. Aðrir gefa kost á sér áfram, það eru:
  - Kristín M.H. Karlsdóttir, Siglufirði
  - Jónas Þór Karlsson, Akureyri
  - Aðalheiður Sigurjónsdóttir, Ólafsfirði
  Nýr í stjórn:
  - Baldvin Valdemarsson, Akureyri
  Samþykkt samhljóða.
  Varamenn kosnir til eins árs í þessari röð:
  - Fjóla V. Stefánsdóttir, Grenivík
  - Karen Malmquist, Akureyri
  - Anna Rósa Magnúsdóttir, Akureyri
  - Þórhallur Másson, Akureyri
  Samþykkt samhljóða.
  Skoðunarmaður til eins árs:
  - Kristín Linda Björnsdóttir, Akureyri
  Samþykkt samhljóða.
 8. Önnur mál
  Hörður Ólafsson þakkaði samstarfið undanfarin ár.
  Jón G. Knutsen ítrekaði þakkir til sjálfboðaliða, sérstaklega til Hafsteins, Harðar og Gunnars fyrir vinnu við nýja salinn og benti á að útleigan gengi vel. Þeir væru nú þegar byrjaðir að standsetja eldhúsið.
  Sigurður benti á að Jón Knutsen hefði verið formaður stjórnar þegar þetta húsnæði var keypt og bæri því „ábyrgð“ á vinnunni sem unnin hefur verið til að standsetja salinn. Hann kallaði síðan til sín þau Elsu Guðmundsdóttur og Hörð Ólafsson sem bæði eru að hætta í aðalstjórn (en voru á fundinum), einnig varaformann deildarinnar sem afhenti þeim þakklætisvott frá deildinni fyrir þeirra störf. Að lokum þakkaði hann starfsmönnum deildarinnar fyrir undirbúning fundarins og sleit fundi kl. 21.49.

 

19 félagar sátu fundinn.

Fundargerð ritaði Guðlaug Kristinsdóttir