Aðalfundur

7.3.2018

Haldinn í húsakynnum félagsins á Akureyri  7.mars 2018 kl. 18:00

 1.       Fundur settur, kosning fundarstjóra og ritara

Gunnar Frímannsson setti fundinn, bauð fundarmenn velkomna og stakk upp á Guðlaugu Kristinsdóttur sem fundarstjóra og Önnu Rósu Magnúsdóttur sem fundarritara og var það samþykkt með lófaklappi.

2.       Skýrsla stjórnar

Gunnar Frímannson formaður flutti skýrslu stjórnar og gerði grein fyrir starfsemi deildarinnar á nýliðnu ári. Fór vel yfir þann fjölda verkefna sem deildin  sinnir en þau eru eftirfarandi:

·         Fatasöfnun og flokkun
·         Fataverslun
·         Föt sem framlag 
·         Móttaka flóttafólks og móttaka hælisleitanda
·         Íslenskukennsla fyrir innflytjendabörn í grunnskólum
·         Íslenskukennsta fyrir fullorðna innflytjendur
·         Heimsóknarvinir
·         Skyndihjálparhópur
·         Áfallateymi
·         Neyðarvarnir
·         Hjálparsíminn 1717
·         Lautin
·         Ungfrú Ragnheiður
·         Námskeiðahald og fræðsla
·         Heimsóknir nemenda á öllum skólastigum
·         Jólaaðstoð
·         Viðbrögð við neyðarbeiðnum
·         Félgasstarf þ.e halda utan um sjálfboðaliða

Þessi fjöldi verkefna ber merki um öflugt starf í þessari deild.  Formaður fór yfir húsnæðismál og starfsmannamál en Hafsteinn Jakobson deildarstjóri og Lára Ellingsen bókari munu láta af störfum á árinu en Ingibjörg E. Halldórsdóttir mun starfa áfram fyrir deildina. Ingibjörg færði þeim Hafsteini og Láru blóm og gjafir og var þeim þakkað afar vel fyrir margra ára starf í þágu deildarinnar en Hafsteinn hafði starfað tæp 26 ár sem deildarstjóri. 

Að öðru leyti er vísað í skriflega skýrslu stjórnar.

 

3.       Ársreikningur lagður fram

Hafsteinn Jakobsson deildarstjóri lagði fram ársreikning deildarinnar fyrir síðasta ár. Reikningurinn er staðfestur  og undirritaður af stjórn, deildarstjóra, skoðunarmanni og endurskoðanda. Hagnaður af rekstrinum varð 2,7 mkr. og hrein eign í sjóði í árslok nam 27,3 mkr.

Að öðru leyti er vísað í ársreikninginn sjálfan.

Umræður urðu um skýrslu stjórnar og reikninga, fyrst og fremst um tildrög þess að Hafsteinn Jakobsson segir nú upp starfi sínu. Formaður greindi frá gagnrýni sem komið hefur frá stjórn og framkvæmdastjóra Rauða krossins varðandi kaup á húsnæði og endurnýjun og innréttingu þess. Gagnrýnt er að ekki hafi verið gerðar áætlanir um einstaka verkhluta og að engar formlegar samþykktir hafi verið bókaðar í stjórn um einstaka liði framkvæmdarinnar. Gagnrýnt er að innréttað var veislueldhús við nýja salinn en ekki móttökueldhús og að hluta tekna af fatasölu hafi ekki verið skilað í Hjálparsjóð eins og reglur gera ráð fyrir heldur notaðar í framkvæmdir. Visst vantraust hefur myndast og m.a. vegna þess var bókhaldið fært suður en einnig vegna þess að verið er að færa bókhald allra annarra deilda til Reykjavíkur. Vegna þess vantrausts sem Hafsteinn hefur orðið var við á starf sitt fyrir deildina hefur hann ákveðið að láta af störfum þó svo að stjórn deildarinnar hafi hvatt hann til að halda áfram.

Í inngangi að ársreikningi tekur löggiltur endurskoðandi reikninga fram að endurskoðendur beri ekki ábyrgð á í hvað peningum deildarinnar er eytt né á meðferð fatapeninga. Bókari segir þetta ekki standast varðandi fatasöluna og að landsstjórn hafi alla tíð vitað að peningum af fatamörkuðum hafi verið haldið eftir og notaðir í framkvæmdir enda þurfi húsnæði undir alla þessa fataflokkkun.

Reikningar voru samþykktir án athugasemda.

 

4.       Fjárhags-og framkvæmdaáætlun lögð fram

Formaður lagði fram endurskoðaða fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 og útskýrði hana.  Áætlunin var unnin í nóvember en síðan hafa ýmsar forsendur breyst.  Heildargjöld eru áætluð 44,7 mkr. og tap á rekstri 3,4 mkr. en stjórn hefur ákveðið að ganga á sjóði félagsins með framlögum í neyðaraðstoð innanlands og erlendis því það er ekki  í anda Rauða krossins að safna upp miklu fé í sjóði heldur veita því í neyðaraðstoð og málefni bágstaddra.

 

5.       Innsendar tillögur

Engar tillögur höfðu borist á aðalfundinn.

 

6.       Kosning deildarstjórnar skv.21 grein laga

Páll Sverrisson formaður kjörnefndar gerði grein fyrir tillögum nefndarinnar. Kjörnefnd leggur til að eftirtalin verði kjörin í stjórn til tveggja ára:

Aðalheiður Sigurjónsdóttir
Jónas Þór Karlsson
Jón Baldvin Hannesson
Anna Rósa Magnúsdóttir

-samþykkt samhljóða

 Stjórnarmenn sem kjörnir voru á síðasta ári og sitja því áfram:

Gunnar Frímannsson formaður
Karen Malmquist
Sólborg Friðbjörnsdóttir
Þórhallur Másson
Friðrik Steinar Svavarsson

 

Varamenn til eins árs:

Ólafur Sigurðsson
Ingibjörg Stefánsdóttir
Berglind Júlíusdóttir
Fjóla Stefánsdóttir

-samþykkt samhljóða

 

7.       Skoðunarmaður reikninga skal kjörinn til eins árs:

Guðlaug Kristinsdóttir

-samþykkt samhljóða

 

8.       Önnur mál

Helen Símonardóttir verkefnastjóri sjálfboðaliða og fræðslumála hjá Rauða krossi Íslands kynnti námskeið á netinu og utanumhald um sjálfboðaliða.

Jón Knutsen fór yfir aðdraganda að starfslokum deildarstjóra en Jón var formaður þegar húsnæðið var keypt og innréttað. Hann taldi að boða hefði átt til félagsfundar þegar þetta mál kom upp. Jón hefur sagt sig frá trúnaðarstörfum fyrir Rauða krossinn vegna þessa máls og ætlar að gera hlé á starfi sínu fyrir félagið því að atlaga að deildarstjóra sé atlaga að honum sjálfum en hann mun þó kenna áfram skyndihjálp. Hann brýnir nýja stjórn og formann að standa með þessari deild og endurreisa starfið eftir þessa kollsteypu og reisa við úr brunarústum landsstjórnar og þeirra sem gerðu atlögu að deildarstjóra Eyjafjarðardeildar. Því næst les hann upp stuðningsyfirlýsingu félagsmanna við deildarstjóra.

Valgerður Jónsdóttir taldi starf búðarinnar í hættu og að það væri skömm að því vantrausti sem lýst hafi verið á starf deildarstjóra.

Guðný Bergvinsdóttir kvaðst hafa starfað hér lengi og segir alla hafa starfað í góðri trú og ekki gert sér grein fyrir að hafa brotið lög eða gert eitthvað sem ekki var rétt og henni finnst það mjög miður því að þegar vegið sé að Hafsteini þá sé vegið að henni.

Sigurður Ólafsson fullyrti að Hafsteinn hafi notið trausts í hvívetna og viðbrögð landsstjórnar séu alltof hörð og benda hefði átt á þetta fyrir löngu. Hann kvaðst skilja viðbrögð Hafsteins.

Fleiri fundarmenn lýstu yfir stuðningi við deildarstjóra og hrósuðu honum fyrir gott starf.

Hafsteinn Jakobsson kvað sér finnast slæmt að núverandi stjórn sitji undir skömmum fyrir atburði sem hún á ekki aðkomu að. Hann sagðist stoltur af starfi sínu síðustu 25 ár og starfinu í heild sinni. Hann sagðist vilja horfa jákvæðum augum til framtíðar og þakkaði fyrir starfið með sjálfboðaliðum og sýndan stuðning. Hann þakkaði þeim sem ganga úr stjórn og óskaði nýjum stjórnarmönnum velfarnaðar í stjórn.

 

7.  Lokaorð formanns

Formaður  þakkar þeim sem ganga úr stjórn og býður nýja stjórnarmenn velkomna. Hann þakkaði Hafsteini samstarf liðinna ára og óskaði honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Hann þakkaði góða fundarsetu og sleit fundi kl.22:20

25 félagar sóttu fundinn.