Stjórnarfundur

4.4.2018

Stjórnarfundur í Eyjafjarðardeild 4. apríl 2018 kl. 17.30 í Viðjulundi.

Viðstödd: Gunnar Frímannsson formaður, Aðalheiður Sigurjónsdóttir varaformaður, Anna Rósa Magnúsdóttir ritari, Ingibjörg Stefánsdóttir, Jón Baldvin Hannesson, Jónas Þór Karlsson gjaldkeri, Karen Malmquist, Ólafur Sigurðsson  og Þórhallur Másson. Einnig sat Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri fundinn.

Dagskrá:

1.      Starf deildarstjóra
Stjórn Eyjafjarðardeildar býður Ingibjörgu Halldórsdóttur velkomna í starf deildarstjóra samkvæmt ráðningarsamningi sem gildir til septemberloka 2018.

2.      Endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir 2018 og drög að fjárhagsáætlun fyrir 2019.
Ýmsar forsendur hafa breyst síðan stjórnin samþykkti fjárhagsáætlun fyrir árið 2018. Á fundinum er lögð fram endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 þar sem tekið hefur verið tillit til þessara breyttu forsendna. Vegna ófyrirséðra hækkana á launalið er lagt til að skera niður framlög til neyðaraðstoðar og viðhalds húsnæðis á árinu en að deildin verði rekin með 5 milljón króna halla eða svipað og áður var stefnt að.  Miðað við svipaðar forsendur gæti orðið um 0,5 mkr. halli á rekstri deildarinnar á árinu 2019.

3.      Bifreið til afnota fyrir Eyjafjarðardeild
Aðili sem vill ekki láta nafns síns getið hefur ákveðið að gefa Rauða krossinum á Íslandi töluverða fjárupphæð. Ákveðið hefur verið að keyptar verði bifreiðar sem merktar verði í bak og fyrir og notaðar í neyðarvarnir. Ein bifreið kæmi á Norðurland en spurning er hvernig nýting yrði á þessum bíl ef Eyjafjarðardeild fengi hann til afnota. Ákveðið er að skoða þetta betur.

4.      Ráðning í starf verkefnastjóra.
Að undanförnu hefur Eyjafjarðardeild notið starfa verkefnastjóra sem hefur í hluta starfstíma síns sinnt þjónustu við Rauða kross deildir á Norðurlandi í hálfu starfi fyrir landsskrifstofuna. Stjórn deildarinnar þarf að taka ákvörðun um ráðningu verkefnastjóra, starfshlutfall og menntunarkröfur. Kanna þarf hvort til sé auglýsing um sambærilegt starf til að nota og endurskrifa hana að okkar þörfum og skrifa þarf síðan starfslýsingu til að vinna með. Stjórn samþykkir að fela deildarstjóra og formanni stjórnar að auglýsa eftir verkefnastjóra.

5.      Samningur við landsskrifstofu um aðstoð við deildir á Norðurlandi.
Landsskrifstofu Rauða krossins hefur verið boðið – með fyrirvara um samþykki stjórnar – að Eyjafjarðardeild annist þjónustu við deildir á Norðurlandi gegn gjaldi. Þetta fyrirkomulag væri hagstætt fyrir landsskrifstofuna en einnig fyrir Eyjafjarðardeild sem gæti ráðið verkefnastjóra í fullt starf. Stjórn felur formanni deildar og deildarstjóra að ganga til samninga við landsskrifstofu um þjónustu við deildir á Norðurlandi.

6.      Húsvarsla og ræsting
Meta þarf hvort hagstæðara væri fyrir deildina að kaupa ræstingu af ræstingafyrirtæki en að ráða starfsmann í hlutastarf til að annast ræstingu og eftirlit með húsnæði deildarinnar, útleigu sala og ýmsar útréttingar til að deildarstjóri og verkefnastjóri þurfi ekki að eyða tíma sínum í slík verkefni. Stjórn felur deildarstjóra og formanni að skoða þetta betur.

7.      Sjálfboðaliðar
Deildarstjóri upplýsir stjórnina um breytingar á fjölda sjálfboðaliða sem hafa starfað fyrir deildina að undanförnu og hvernig þær breytingar hafa áhrif á einstök verkefni.

8.      Stjórnarseta í Fjölsmiðjunni
Rauði krossinn er stærsti stofnaðili Fjölsmiðjunnar á Akureyri með tæpan helming af stofnframlaginu. Rauði krossinn á Íslandi átti fulltrúa í stjórn Fjölsmiðjunnar þangað til fyrir fáum árum og Akureyrardeild og síðan Eyjafjarðardeild hefur átt fulltrúa í stjórninni frá upphafi. Stjórn Eyjafjarðardeildar þarf að tilnefna fulltrúa í stjórnina til næsta árs. Stjórn samþykkir að Karen Malmquist verði aðalmaður og Jón Knutsen verði varamaður.

9.      Önnur mál.

Karen kynnir stöðu mála varðandi skreytingar í búðinni og stóra salnum.

Ingibjörg kynnir stöðu á þjálfun á hundum og sjálfboðaliðum með hunda.

Álfheiður Svana hefur fengið heimild til að fara á áfallanámskeið í Danmörku og annar sjálfboðaliði í áfallateyminu er til vara.

Það vantar leigusamning fyrir húsnæðið á Ólafsfirði, Aðalheiður útvegar hann.

Það vantar vökva inn á snjóbræðslukerfið, Þórhallur tekur það að sér.

Það vantar tvo inn í neyðarnefnd, Ingibjörg Halldórsdóttir verður þar sem deildarstjóri og Ingibjörg Stefánsdóttir verður með henni.

Leiðbeinendanámskeið í skyndihjálp verða haldin í júní, samþykkt er að greiða fyrir tvo þátttakendur að gefnum skilyrðum um að þeir kenni 10 tíma á námskeiðum fyrir deildina innan tveggja ára.