Stjórnarfundur

05.02.2020

10.2.2020

Stjórnarfundur Eyjafjarðardeildar miðvikudaginn 5. febrúar kl. 17.30 í Viðjulundi 2 á Akureyri.  

 

 Dagskrá:

 1. Neyðarvarnir
  Í óveðrinu sem gekk yfir landið 11.-14. desember sl. héldu starfsmenn Eyjafjarðardeildar utan um opnun fjöldahjálparstöðva á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri.Stjórnin ræddi m.a
  - reynsluna af opnun fjöldahjálparstöðva á hverjum stað.
  - stöðu starfsmanns til að annast þjálfun sjálfboðaliða á hverjum stað.
  - þann búnað sem þarf að vera tiltækur á ofannefndum stöðum auk Grenivíkur. Nú er neyðarvarnarkerra til á Akureyri, geymd hjá Slökkviliði Akureyrar, en skoða þarf hvort þörf sé á að eiga kerrur á fleiri stöðum og þá hvaða búnaður þarf að vera í kerrunum. Stjórnin samþykkir að tryggja að neyðarvarnarkerrur verði staðsettar á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Grenivík. Fulltrúar stjórnar á sínum starfssvæðum kanni hvernig kerrurnar verði geymdar.
  - hvort þörf sé á varaaflstöð í Viðjulundi til að tryggja að stjórnendur þar geti sinnt skyldum sínum ef rafmagn fer af Akureyri á sama tíma og skipuleggja þarf opnun fjöldahjálparstöðva og veita aðra aðstoð sem Rauða krossinum ber að sinna samkvæmt Almannavarnaskipulagi. Rætt var hvort hægt væri að skilgreina VMA sem húsnæði fyrir fjöldahjálparstöð en þar eru tvær kennslurafstöðvar sem hægt er að ræsa til að sjá húsunum fyrir rafmagni. Stjórnin felur deildarstjóra að vinna að því að Verkmenntaskólinn verði skilgreindur sem fjöldahjálparstöð.
 2. Jólaaðstoð 2019
  Deildarstjóri gerir stjórninni grein fyrir jólaaðstoðinni sem veitt var í desember og leikhúsverkefninu sem unnið er að nú eftir áramótin.
 3. Ungfrú Ragnheiður
  Landsskrifstofa hefur falið Reykjavíkurdeild að hafa yfirumsjón með skaðaminnkandi verkefnum Rauða krossins á landsvísu. Þetta getur átt eftir að fela í sér breytingar á verkefninu Ungfrú Ragnheiður á Akureyri.
  Vegna veikinda hefur orðið töf á innréttingu bílsins sem við keyptum sl. sumar.
 4. Hundavinir
  Heimsóknarvinir með hund þurfa að fá hunda sína viðurkennda áður en þeir hefja störf. Nú liggur fyrir að þjálfa þarf tvo sjálfboðaliða til að meta hundana sem bjóðast.
 5. Karlar í skúrum
  Verkefnið „Karlar í skúrum“ hefur verið starfrækt á fjórum stöðum á landinu og er stjórnað af verkefnastjóra í Rauða krossinum í Hafnarfirði og Garðabæ, sjá meðfylgjandi kynningu (Hugmyndafræði, markmið og fyrstu skref). Verkefnið er framkvæmt með mismunandi hætti á þessum fjórum stöðum. Í Hafnarfirði hefur Rauði krossinn alveg séð um verkefnið. Í Breiðholti er þetta í samstarfi við þjónustumiðstöð Breiðholts og sér borgin um húsnæðið en verkefnastjórinn um sjálft verkefnið, líkt og í Mosfellsbæ. Í Vesturbyggð er skúrinn á Patreksfirði og útvegar bærinn húsnæði en verkefnastjóri sér um verkefnið. Verkefnastjórinn hefur áhuga á að koma þessu verkefni af stað á Akureyri. Stjórn Eyjafjarðardeildar þarf að hafa skoðun á því hvernig svona verkefni ætti að framkvæma á Akureyri og hver aðkoma deildarinnar að því ætti að vera. Stjórnin felur deildarstjóra að hafa samband við félagsþjónustu til að kanna þörfina á slíku verkefni.
 6. Útleiga á „verkstæði“ í suðurenda í Viðjulundi
  Einstaklingur á Akureyri hefur lýst áhuga á að taka á leigu suðurenda gamla fjóssins í Viðjulundi þar sem nú er geymsla. Hugmynd hans er að innrétta húshlutann og reka þar hundasnyrtistofu. Stjórnin þarf að segja af eða á um þetta og þá til hve langs tíma hún vill leigja og með hvaða skilmálum. Sjá erindi í viðhengi. Stjórnin samþykkir að helmingur húsnæðisins verði leigður til tveggja ára gegn því að leigjandi einangri og innrétti húshlutann þannig að deildin geti nýtt hann að leigutíma loknum.
 7. Fjárhagsstaða í árslok 2019
  Deildarstjóri gerir grein fyrir fjárhagsstöðu deildarinnar eins og hún lítur út nú áður en ársreikningur fyrir árið 2019 liggur fyrir.
 8. Aðalfundur 2020
  Aðalfundur Rauða krossins verður haldinn á Grand Hotel í Reykjavík 23. maí. Stjórn félagsins vinnur nú að tillögum að breytingum á lögum félagsins og stefnir að því að senda þær tillögur út fyrir 21. febrúar. Mikilvægt er að stjórnin taki allar breytingartillögur til gaumgæfilegrar skoðunar áður en til aðalfundar kemur.

 

Önnur mál:

Stjórnin samþykkir að leggja fram allt að 400.000 krónur til að bjóða efnaminni einstaklingum í leikhús.

Stjórnin samþykkir að gera endurbætur á snyrtingu á neðri hæðinni fyrir allt að 1.500.000kr.