Stjórnarfundur

11.11.2020

Stjórnarfundur Eyjafjarðardeildar 11. nóvember 2020 kl. 17.30. Fundurinn var fjarfundur. 

Gunnar Frímannsson formaður, Aðalheiður Sigurjónsdóttir varaformaður, Anna Rósa Magnúsdóttir, Jón Baldvin Hannesson ritari, Karen Malmquist, Ólafur Sigurðsson, Þórhallur Másson. Einnig sátu fundinn Ingibjörg E. Halldórdóttir deildarstjóri og Linda Guðmundsdóttir sem ritaði fundargerð.

Dagskrá:

 1. Kosning gjaldkera
  Jónas Þór Karlsson hefur ákveðið að víkja úr stjórn deildarinnar af persónulegum ástæðum. Stjórnin þakkar Jónasi fyrir störf hans í þágu deildarinnar og tilnefnir Þórhall Másson sem gjaldkera til næsta aðalfundar.

 1. Erindi til stjórnar Rauða krossins um Hjálparsímann 1717 og skaðaminnkunarverkefni
  Deildarstjórnin staðfestir erindi til stjórnar Rauða krossins sem sent var sem útskýring á beiðni til stjórnarinnar sem samþykkt var á síðasta fundi um skiptingu framlags ríkisins til Hjálparsímans og skaðaminnkunarverkefna á landsvísu.

 1. Túlkun á ákvæði í lögum Rauða krossins um opna og gagnsæa stjórnsýslu
  Stjórn Eyjafjarðardeildar óskar hér með eftir skýru svari frá stjórn Rauða krossins á Íslandi um túlkun hennar á ákvæði í 2. grein laga félagsins, 4. tölulið, um að „öll starfsemi og stjórnsýsla Rauða krossins [skuli] vera opin og gagnsæ“ varðandi upplýsingar um vægi matsþátta í starfsmatskerfinu sem stuðst er við í mati á störfum starfsmanna félagsins.
  Tilefni þessarar beiðni er að formaður Eyjafjarðardeildar hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum frá landsskrifstofu um vægi einstakra matsliða í starfsmatskerfinu sem notað er til að meta störf starfsmanna félagsins en jafnoft fengið neitun.
  Deildarstjórnin bendir á að öll leynd yfir þeirri aðferðafræði sem notuð er til að ákvarða laun starfsmanna getur alið á tortryggni og efasemdum um að heiðarlega sé að verki staðið. Slík leynd dregur einnig úr tiltrú á jafnlaunavottunina sem félagið hefur unnið að. Bent er á að slík leynd hvílir ekki yfir mati á störfum starfsmanna sveitarfélaganna, sjá vefinn https://www.starfsmat.is/ þar sem útskýrt er í þaula hvernig störf á vegum sveitarfélaganna á Íslandi eru metin. Þó svo að leynd hvíli yfir aðferðum sumra einkafyrirtækja við starfsmat er eðlilegt að Rauði krossinn taki frekar mið af aðferðum sveitarfélaganna sem lúta upplýsingalögum og stjórnsýslulögum.

 1. Fjárstuðningur frá öðrum Rauða kross deildum
  Stjórn Eyjafjarðardeildar þakkar Eskifjarðardeild, Vestmannaeyjadeild og Víkurdeild stuðning við verkefni deildarinnar.

 1. Jólaaðstoð 2020
  Stjórn Eyjafjarðardeildar felur deildarstjóra að ganga frá samningi við Mæðrastyrksnefnd, Hjálpræðisherinn og Hjálparstofnun kirkjunnar um samstarf um jólaaðstoð á svipuðum nótum og verið hefur á undanförnum árum.

 1. Starfsemi deildarinnar
  Deildarstjóri gerði grein fyrir starfsemi deildarinnar á undanförnum vikum og áformum um starfið á næstu vikum.

 1. Fjárhagsáætlun Eyjafjarðardeildar fyrir árið 2021.
  Deildarstjóri kynnti fjárhagsáætlun Eyjafjarðardeildar fyrir árið 2021. Deildarstjórn samþykkir fjárhagsáætlunina.

 1. Önnur mál
  Lautin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir. Athvarfið var upphaflega stofnað af Rauða krossinum til að vekja athygli á þörfinni á slíku úrræði. Smám saman hefur Rauði krossinn dregið sig úr rekstri athvarfsins og Akureyrarbær tekið við rekstrinum. Akureyrarbær heldur úti opnun þar á virkum dögum en sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa hins vegar séð um opnun á laugardögum í nokkur ár. Stjórn Eyjafjarðardeildar samþykkir að draga deildina út úr verkefninu að fullu.