23. des. 2004 : Gleðilega hátíð!

Kópavogsdeild Rauða krossins færir sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með kærri þökk fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á árinu sem er að líða.

Skrifstofa Kópavogsdeildar verður lokuð frá og með Þorláksmessu en opnar aftur mánudaginn 3. janúar. Dvöl, athvarf fyrir geðfatlaða, verður lokað á aðfangadag, jóladag, gamlársdag og nýársdag. Í hádeginu á Þorláksmessu verður borðuð skata kl. 11.30 og eru allir gestir athvarfsins sérstaklega velkomnir.  

22. des. 2004 : Vel heppnuð aðventuhátíð heimsóknavina í Sunnuhlíð

Heimsóknarvinir ásamt íbúa Sunnuhlíðar á góðri stundu.

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar skipulögðu nýverið aðventuhátíð í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Öllum vistmönnum Sunnuhlíðar var boðið og höfðu heimsóknavinir skipulagt veglega dagskrá. Tvö ungmenni spiluðu jólalög á klarínettu, lesin var jólasaga og 40 manna barnakór undir stjórn Þórunnar Björnsdóttir söng nokkur vel valin jólalög. Einn heimsóknavinur, Sigríður Guðmundsdóttir, hafði tekið að sér að baka kökur fyrir gesti og veitingarnar og skemmtiatriðin heppnuðust einkar vel.

 


17. des. 2004 : Samstarf um aðstoð við fjölskyldur í Kópavogi

Fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins og mæðrastyrksnefndar Kópavogs við afhendingu styrksins.  
Kópavogsdeild Rauða kross Íslands og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs munu starfa saman að neyðaraðstoð við bágstadda einstaklinga og fjölskyldur fyrir jólin. Mæðrastyrksnefnd Kópavogs annast úthlutun á matarstyrkjum til fjölskyldna í neyð með stuðningi frá Kópavogsdeild Rauða krossins sem nýverið afhenti Mæðrastyrksnefnd styrk að upphæð 500 þúsund krónur. Kópavogsdeild Rauða krossins getur einnig haft milligöngu um að koma umsóknum um aðstoð til Mæðrastyrksnefndar.

10. des. 2004 : 80 ár liðin frá stofnun Rauða kross Íslands

Rauða kross fólk um allt land fagnar því að í dag eru 80 ár liðin frá stofnun félagsins á Íslandi. Þegar Rauði kross Íslands var stofnaður í Eimskipafélagshúsinu 10. desember 1924 höfðu Rauða kross félög starfað á Norðurlöndum og víðar í yfir hálfa öld. Íslendingar þekktu þó til hreyfingarinnar og hugsjóna hennar og að fengnu fullveldi þótti mörgum tímabært að „komast í tölu siðaðra þjóða“ með því að stofna „íslenskan Rauða kross“. Forgöngu um stofnun félagsins höfðu Sveinn Björnsson, fyrsti formaður félagsins og forseti lýðveldisins, og læknarnir Steingrímur Matthíasson og Gunnlaugur Claessen.

Félagið hóf starf sitt í þjóðfélagi sem til þessa hafði verið þiggjandi en ekki veitandi í hjálparstarfi. Velferðarkerfi var vart til að dreifa og heilbrigðis- og hreinlætismál voru í ólestri. Verkefni félagsins hafa síðan mótast af þörfum samfélagsins hverju sinni.

8. des. 2004 : Fjölsmiðjan fékk milljón frá Kópavogsdeild Rauða krossins

Þorbjörn Jensson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, tók við styrknum af Garðari H. Guðjónssyni, formanni Kópavogsdeildar.
Kópavogsdeild Rauða kross Íslands gaf Fjölsmiðjunni nýverið eina milljón króna til að bæta aðstöðu nema og starfsfólks bílaþvotta- og hússtjórnardeilda. Kópavogsdeild hefur þá styrkt uppbyggingu og rekstur Fjölsmiðjunnar með samtals ríflega átta milljónum króna á undanförnum þremur árum. Ennfremur hafa sjálfboðaliðar deildarinnar stutt við starfið.

Fjölsmiðjan í Kópavogi er mennta- og þjálfunarsetur fyrir fólk á aldrinum 16-24 ára sem ekki hefur náð að fóta sig í námi og á vinnumarkaði. Markmiðið er að styðja nemana til þess að komast á ný til náms eða í vinnu og hefur náðst mjög góður árangur í því. Rauði kross Íslands átti frumkvæði að því að Fjölsmiðjan var stofnuð vorið 2001 og deildir Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu hafa síðan stutt dyggilega við uppbyggingu og rekstur hennar.

 

5. des. 2004 : Sjálfboðaliðar eru mikilvægt þjóðfélagsafl

Að vera sjálfboðaliði er um flest eins og að gegna starfi á vinnumarkaði. Maður hefur ákveðnar skyldur sem maður innir af hendi, oftast með reglubundnum hætti, fær til þess þjálfun og öðlast til þess reynslu. Maður hefur væntingar um starfið og leitast við að uppfylla þær væntingar sem gerðar eru til manns. Meginmunurinn er sá að sjálfboðaliðinn þiggur ekki laun önnur en ánægjuna af starfinu og þá trú að hann sé að gera gagn. Sjálfboðaliði er heldur ekki starfsheiti enda gegna sjálfboðaliðar afar fjölbreyttum störfum. Þúsund Íslendinga vinna sjálfboðið starf að staðaldri og gegna mikilvægu hlutverki á ýmsum sviðum samfélagsins. Í dag er einmitt alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans.

2. des. 2004 : Starf með ungum innflytjendum hafið á ný

Nemendur og sjálfboðaliðar á góðri stundu.

Starf með ungum innflytjendum hófst á ný í gær en verkefnið hafði legið í dvala frá því í vor vegna kennaraverkfalls. Fagnaðarfundir urðu meðal sjálfboðaliða Kópavogsdeildar og nemenda í nýbúadeild Hjallaskóla og var tímanum að mestu varið í að endurnýja kynnin og fara í skemmtilega leiki.

Starf með ungum innflytjendum hófst í mars 2004 og er í samvinnu við nýbúadeild Hjallaskóla. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og geta meðal annars fengið aðstoð við heimanámið, málörvun og fræðslu um tómstundastarf í Kópavogi í gegnum kynningarstarf og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því. Verkefnið er hugsað sem eins konar samfélagsfræðsla sem börnin og sjálfboðaliðar geti haft gagn og gaman af.

25. nóv. 2004 : Informacje po polsku na witrynie internetowej oddzialu w Kópavog

Na witrynie internetowej oddzialu w Kópavogur sa teraz dostepne informacje w jezyku polskim. Wedle danych z urzedu miasta Kópavogur, Polacy sa najliczniejsza grupa zagranicznych obywateli zameldowanych w Kópavogur. Z tej okazji informacje o oddziale i jego pracy zostaly przetlumaczone na jezyk polski.

Nú er hægt að nálgast upplýsingar um Kópavogsdeild á pólsku á heimasíðunni. Samkvæmt tölum frá Kópavogsbæ eru Pólverjar fjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara með lögheimili í Kópavogi. Af því tilefni hafa upplýsingar um deildina og helstu verkefni hennar verið þýddar yfir á pólsku.


 

23. nóv. 2004 : Sjálfboðaliðar frá Kópavogsdeild aðstoða vegna brunans

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar taka þátt í aðgerðum Reykjavíkurdeildar og Rauða kross Íslands til aðstoðar þeim sem yfirgefa þurftu heimili sín vegna brunans í enduvinnslufyrirtækinu Hringrás við Klettagarða. Um tvö hundruð manns leituðu í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Langholtsskóla í nótt en stöðin hefur nú verið færð í KFUM heimilið á Holtavegi 28.

23. nóv. 2004 : Fræðslufundur um börn í stríði

Kristján Kristjánsson í Sierra Leone.
Kópavogsdeild Rauða kross Íslands heldur fræðslufund um börn í stríði. Kristján Kristjánsson, umsjónarmaður Kastljóssins, kynnti sér nýverið aðstæður stríðshrjáðra barna í Sierra Leone. Hann segir frá reynslu sinni og upplifun í máli og myndum á opnum fræðslufundi sem haldinn verður í Hamraborg 11, miðvikudaginn 24. nóvember kl. 20.30.

Allir velkomnir!

1. sep. 2004 : Rauða kross strákurinn Hjálpfús heimsækir leikskólana

 
Kamilla Ingibergsdóttir, framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar, afhendir Elísabetu Eyjólfsdóttur fræðslupakkann.  
Deildir Rauða kross Íslands eru þessa dagana að afhenda leikskólum um allt land námsefnið „Hjálpfús heimsækir leikskólann", sem hefur það markmið að kenna leikskólabörnum mikilvægi þess að rétta fólki hjálparhönd þegar eitthvað bjátar á.

Námsefnið inniheldur litla brúðu og kennsluefni fyrir sex sögustundir. Rauða kross strákurinn Hjálpfús er í formi fingurbrúðu sem leikskólakennarar geta notað til að leiða börnin í gegnum námsefnið.

26. ágú. 2004 : Sjálfboðaliðar óskast

10. ágú. 2004 : Munið Súdan