28. jan. 2005 : Myndir úr starfi Kópavogsdeildar á vefinn

Sett hefur verið upp myndasafn úr starfi Kópavogsdeildar á heimasíðuna. Kópavogsdeild sinnir fjölbreyttum verkefnum og gefa myndirnar innsýn í starf sjálfboðaliða. Meðal annars má skoða myndir úr starfi heimsóknavina, starfi með ungum innflytjendum og starfi í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða. Myndirnar má sjá hér og út frá tengli vinstra megin á síðunni.

24. jan. 2005 : Nýir sjálfboðaliðar bætast í hópinn

Í kjölfar kynningarfundar sem haldinn var í síðustu viku bættust fleiri í hóp sjálfboðaliða Kópavogsdeildar. Deildin býður þá velkomna til starfa. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar eru nú rúmlega eitt hundrað talsins og sinna sjálfboðnu starfi í fjölbreyttum verkefnum Kópavogsdeildar.  

Nýir sjálfboðaliðar hafa sýnt heimsóknaþjónustu, starfi í Dvöl og starfi með ungum innflytjendum áhuga en deildin getur alltaf tekið á móti nýjum sjálfboðaliðum. Áhugasamir geta haft samband í síma 554 6626 eða á [email protected].

17. jan. 2005 : Við þurfum fleiri sjálfboðaliða!

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands óskar eftir sjálfboðaliðum til þess að sinna margvíslegum mannúðarverkefnum deildarinnar. Kynningarfundur fyrir nýja sjálfboðaliða verður haldinn í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11 fimmtudaginn 20. janúar kl. 20.

Um er að ræða verkefni sem henta körlum jafnt sem konum, fólki á öllum aldri:

• Heimsóknavinir
• Aðstoð við geðfatlaða í Dvöl
• Föt sem framlag
• Starf með ungum innflytjendum
• Neyðarvarnir
• Ökuvinir
• Fataflokkun og afgreiðsla í L-12
• Fjölsmiðjan

Nánari upplýsingar eru veittar í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11 sem er opin alla virka daga kl. 11-15, sími 554 6626, netfang [email protected].

17. jan. 2005 : 110 milljónir söfnuðust

Eitt hundrað og tíu milljónir króna höfðu söfnuðust í landssöfnuninni Neyðarhjálp úr norðri um helgina. Margir lögðu hönd á plóginn við söfnunina en sjálfboðaliðar söfnuðu fé í Smáralind, Kringlunni og Glerártorgi á Akureyri. Tombólubörn tóku virkan þátt í söfnuninni og gengu um verslunarmiðstöðvarnar með söfnunarbauka.

Fjöldi listamanna lagði söfnuninni lið auk fjölda útvarpsstöðva, dagblaða og fyrirtækja. Söfnunarfénu verður varið til neyðaraðstoðar og uppbyggingar á næstu árum sem fimm mannúðarsamtök hafa umsjón með; Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði kross Íslands, SOS barnaþorpin og UNICEF - Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Söfnunarfénu er ætlað að treysta framtíð barna sem misst hafa foreldra sína, hjálpa fjölskyldum sem misstu allt sitt til að koma undir sig fótum á ný og til að veita læknisaðstoð og heilsugæslu og koma í veg fyrir frekari skaða.

Fjöldi manns gaf fé í gegnum söfnunarsímann en á laugardagskvöld sat þjóðþekkt fólk við símann og tók við framlögum. Einnig voru haldin uppboð í beinni sjónvarpsútsendingu á ýmiskonar munum. Þar má nefna teinótt jakkaföt Björgólfs Guðmundssonar sem seldust á 10 milljónir króna og fótboltatreyju Eiðs Smára Guðjónssonar sem fengust rúmlega 300 þúsund krónur fyrir.

7. jan. 2005 : Samstarf um neyðarhjálp úr norðri

Allt fé sem safnast í landssöfnuninni fer til neyðarhjálpar og uppbyggingar á hamfarasvæðunum í Asíu.

Samstarfshópur einstaklinga, fyrirtækja og fjölmiðla undirbýr nú landssöfnun til styrktar þeim sem þjást vegna flóðanna í Asíu. Söfnunin hefst á mánudag og nær hámarki með beinni sjónvarpsútsendingu laugardaginn 15. janúar. Verndari söfnunarinnar og talsmaður verður frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

Söfnunin fer fram undir kjörorðunum Neyðarhjálp úr norðri. Landsmönnum mun gefast kostur á að hringja í söfnunarsíma alla næstu viku og einnig verður safnað í Smáralind og Kringlunni á föstudag og laugardag í næstu viku.

3. jan. 2005 : Hjálpum fórnarlömbum flóðanna í Asíu

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands hvetur alla sem vettlingi geta valdið að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 907 2020 en með einu símtali dragast 1000 krónur frá símareikningi. Allt söfnunarféð rennur til hjálparstarfs á hamfarasvæðunum í Asíu. Almenningur á Íslandi hefur gefið samtals rúmlega 60 milljónir króna til hjálparstarfsins en ríflega 25.000 manns hafa hringt í söfnunarsímann.

Rauði kross Íslands sendi í gær 10 tonn af vatni og eitt og hálft tonn af segldúkum til flóðasvæða í Tælandi með flugvél sem ríkisstjórn Íslands tók á leigu til að ná í slasaða Svía. Ölgerð Egils Skallagrímssonar gaf vatnið og Seglagerðin Ægir veitti Rauða krossinum verulegan afslátt af segldúkunum. 

3. jan. 2005 : Hjálpum fórnarlömbum flóðanna í Asíu

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands hvetur alla sem vettlingi geta valdið að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 907 2020 en með einu símtali dragast 1000 krónur frá símareikningi. Allt söfnunarféð rennur til hjálparstarfs á hamfarasvæðunum í Asíu. Almenningur á Íslandi hefur gefið samtals rúmlega 60 milljónir króna til hjálparstarfsins en ríflega 25.000 manns hafa hringt í söfnunarsímann.

Rauði kross Íslands sendi í gær 10 tonn af vatni og eitt og hálft tonn af segldúkum til flóðasvæða í Tælandi með flugvél sem ríkisstjórn Íslands tók á leigu til að ná í slasaða Svía. Ölgerð Egils Skallagrímssonar gaf vatnið og Seglagerðin Ægir veitti Rauða krossinum verulegan afslátt af segldúkunum.