21. feb. 2005 : Sjálfboðaliðar fjölmenntu í Borgarleikhúsið

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sáu um helgina leikritið Segðu mér allt í Borgarleikhúsinu. Borgarleikhúsið gaf deildinni fríðmiða á sýninguna og nýttu um 25 sjálfboðaliðar sér þetta kostaboð. Deildin færir Borgarleikhúsinu bestu þakkir fyrir miðana. 

Segðu mér allt fjallar um unga stúlku sem bundin er við hjólastól en hefur þó meiri fótfestu í lífinu en foreldrar hennar. Hún á sér draumaveröld en hún flýr á náðir hennar þegar foreldrar hennar ætlast til of mikils af henni.

17. feb. 2005 : Ungir innflytjendur heimsækja Alþingi

Krakkarnir í starfi með ungum innflytjendum heimsóttu í gær, ásamt sjálfboðaliðum í verkefninu, Alþingi. Tekið var á móti hópnum og hann leiddur um húsið og fræddur um starfshætti Alþingis. Krakkarnir fræddust um fjölda þingmanna, fjölda ráðherra, upphaf Alþingis og fleira skemmtilegt. Auk þess fengu þau að sitja á pöllunum og fylgjast með þingumræðum um hvort hækka ætti hámarkshraða á Reykjanesbraut.

Eftir ánægjulega heimsókn lá leiðin á Kaffi París þar sem krökkunum var boðið upp á heitt kakó. Þar sátu þau, drukku ljúffengt kakó og spjölluðu saman um það sem fyrir augum bar á Alþingi.

16. feb. 2005 : Rauði krossinn gefur út bækling um skyndihjálp

Rauði kross Íslands hefur gefið út bækling í skyndihjálp sem inniheldur einfaldar upplýsingar um hvernig bregðast má við neyð. Markmiðið með bæklingnum er að kynna fyrir almenningi helstu atriði skyndihjálpar með stuttum og hnitmiðuðum hætti og myndrænni lýsingu. Allar myndir í bæklingnum sýna rétt viðbrögð.

Bæklingurinn tekur á þremur megin þáttum; endurlífgun, slysum og bráðum veikindum. Í bæklingnum er einnig upplýsingar um sálrænan stuðning og Rauða kross hreyfinguna. Innihald bæklingsins er aðeins ítarlegra en innihald veggspjaldsins í skyndihjálp sem Rauði krossinn gaf út í janúar og dreifði m.a. í alla skóla landsins. Sérfræðiráðgjöf við gerð bæklingins veitti Hjalti Már Björnsson læknir.

15. feb. 2005 : Nemendur í MK sýna sjálfboðnu starfi áhuga

Nemendur Menntaskólans í Kópavogi fengu nýverið kynningu á sjálfboðnu starfi Kópavogsdeildar Rauða krossins. Kynningin var í höndum Kamillu Ingibergsdóttur, framkvæmdastjóra deildarinnar, og Pálínu Jónsdóttur heimsóknavinar en þær ræddu um stöðu aldraðra og kynntu fjölbreytt verkefni deildarinnar.

Nemendurnir, sem allir eru í áfanga um þroskasálfræði, sýndu starfinu mikinn áhuga og fjöldi þeirra hefur í hyggju að gerast sjálfboðaliðar. Kópavogsdeild býður þau hjartanlega velkomin til starfa.  

3. feb. 2005 : Starfið felst í því að veita fólkinu hlýju og umhyggju

Þriðjudaginn 1. febrúar var haldinn fræðslufundur og hópefli fyrir heimsóknavini Kópavogsdeildar að Hamraborg 11. Starfsmaður frá hjúkrunarheimilinu Landakoti hélt fyrirlestur um aðhlynningu aldraðra, en kynningar af því tagi eru fastur liður í starfi heimsóknavina Rauða krossins.

'Fræðslufundir af þessu tagi hjálpa okkur að bæta þjónustuna sem við veitum og ekki er síður mikilvægt að við sjáum og hittum hver aðra. Hér á þessum fundum ræðum við starf okkar og það sem  þarf að gera í framtíðinni,' segir Pálína Jónsdóttir heimsóknarvinur.

Rúmlega 25 heimsóknavinir fara reglulega í heimsóknir á dvalarheimili aldraðra í Sunnuhlíð í Kópavogi og Skjólbraut og Gullsmára, sambýli fyrir aldraða. 12 manns til viðbótar heimsækja einstaklinga sem enn búa heima hjá sér en hafa þörf fyrir félagsskap og afþreyingu.