31. mar. 2005 : Krakkar leika sér alls staðar eins

Það var stuð hjá krökkunum í Alþjóðahúsinu.

Krakkarnir í starfi með ungum innflytjendum heimsóttu í gær Alþjóðahúsið í Reykjavík. Þar tók á móti þeim Amal Tamimi fræðslufulltrúi og sýndi þeim húsið. Krakkarnir fræddust um börn um allan heim og að öll eigum við meira sameiginlegt en okkur grunar. Hún tók sem dæmi leik barna og sýndi krökkunum ýmsar myndir sem þau áttu síðan geta til um hvaðan kæmu. Krakkarnir höfðu mjög gaman af þessari fræðslu.


29. mar. 2005 : Kannt þú skyndihjálp?

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands heldur námskeið í almennri skyndihjálp miðvikudaginn 6. apríl kl. 18-22 í Hamraborg 11, 2. hæð.

Á námskeiðinu læra þátttakendur grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað.

Námskeiðsgjald er 4900 kr. Sjálfboðaliðar deildarinnar eiga þó kost á að sitja námskeiðið endurgjaldslaust.

Skráning fer fram í síma 554 6626 eða á [email protected] eigi síðar en 4. apríl.

15. mar. 2005 : Sjálfboðaliðar flokka föt fyrir ungt fólk

María og Lísa stóðu sig vel við flokkunina.

Hópur sjálfboðaliða hóf í gær störf við flokkun fatnaðar fyrir ungt fólk. Hópurinn mun hittast einu sinni í mánuði og flokka föt sem verða svo seld í búðum Rauða krossins í Reykjavík og Hafnarfirði. Sjálfboðaliðarnir eru flestir nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi og nýir sjálfboðaliðar hjá Kópavogsdeild.

Árlega berast um 500 tonn af notuðum fötum til Rauða krossins. Það sem ekki er nýtt beint til hjálparstarfa er selt. Fataflokkunin er mikilvæg tekjuöflun Rauða krossins sem skilar sér beint í alþjóðlega neyðaraðstoð. 
 

10. mar. 2005 : Ásgeir Jóhannesson er fyrsti heiðursfélagi Kópavogsdeildar

Ásgeir Jóhannesson og Garðar Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar.

Stjórn Kópavogsdeildar hefur gert Ásgeir Jóhannesson að fyrsta heiðursfélaga deildarinnar í viðurkenningarskyni fyrir mikið og farsælt starf hans í þágu Rauða krossins.

Garðar H. Guðjónsson formaður tilkynnti þetta á fjölmennum aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í gærkvöldi og afhenti Ásgeiri skjal þessu til staðfestingar. Ásgeir var formaður Kópavogsdeildar um árabil. Hann átti stóran þátt í uppbyggingu hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar, stofnun Rauðakrosshússins, athvarfs fyrir ungmenni í vanda, stofnun Vinjar, athvarfs fyrir geðfatlaða, og síðast en ekki síst stofnun Fjölsmiðjunnar í Kópavogi. Kópavogsdeild er afar þakklát Ásgeiri fyrir eldmóð, dugnað og fórnfýsi hans í störfum sínum fyrir Rauða krossinn.

8. mar. 2005 : Aðalfundur Kópavogsdeildar haldinn á miðvikudag

Aðalfundur Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands verður haldinn miðvikudaginn 9. mars kl. 20 í Hamraborg 11, 2, hæð.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf
Önnur mál

Veitingar og spjall í lok fundarins. Allir velkomnir!

7. mar. 2005 : Sigríður kveður eftir frábært starf í Dvöl

Í þakklætisskyni færði Helga Pálsdóttir (t.v.) Sigríði gjöf.

Sigríður H. Bjarnadóttir kvaddi  á föstudaginn formlega gesti og starfsfólk Dvalar en hún hafði sinnt starfi forstöðumanns frá opnun athvarfsins árið 1998. Í hennar stað hefur verið ráðin Björk Guðmundsdóttir.

Starfsemi Dvalar hefur dafnað vel frá opnun og aðsóknin verið góð og hefur Sigríður átt stóran hlut í velgengni athvarfsins. Gestir eru sammála um að notalegt andrúmsloft og vistlegt umhverfi einkenni athvarfið. Þeir einstaklingar sem sækja athvarfið koma flestir til að rjúfa einangrun og fá stuðning en þetta er mjög breiður hópur á aldrinum 20 til 70 ára. Bæði konur og karlar sækja athvarfið.

 

3. mar. 2005 : Nýtur sannarlega hverrar stundar

Sigríður segir krökkunum sögur.

„Ég trúi því að geri maður öðrum gott, gerir maður sjálfum sér best,“ sagði Sigríður Pálsdóttir, sjálfboðaliði Kópavogsdeildar, í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu nú á dögunum. Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins heimsóttu deildina og spjölluðu við krakkana í starfi með ungum innflytjendum og Sigríði.

Þegar Sigríður Pálsdóttir sá fram á starfslok um sjötugt, bjó hún sér til stundaskrá.  Hún hefur verið á fullum dampi í tíu ár og er nú m.a. sjálfboðaliði hjá Kópavogsdeild Rauða krossins. Hún sagði Jóhönnu Ingvarsdóttur að viljinn til sjálfshjálpar væri mikilvægur því ef menn reyndu ekki að hjálpa sér sjálfir, væri varla von að aðrir gerðu það.


2. mar. 2005 : Heimsóknavinir fræðast um flóðin í Asíu

Guðbjörg segir frá reynslu sinni í Aceh.

Heimsóknavinir komu saman í gær og hlustuðu á fyrirlestur Guðbjargar Sveinsdóttur, sendifulltrúa Rauða kross Íslands. Guðbjörg eyddi mánuði Aceh héraði í Indónesíu stuttu eftir að hörmungarnar dundu yfir í Asíu. Hún sagði frá reynslu sinni og sýndi myndir frá dvölinni.