28. apr. 2005 : Rætt um árangursríkt samstarf innan Rauða krossins

David Lynch frá landsskrifstofu Rauða kross Íslands, Hulda Perry úr Reykjavíkurdeild Rauða krossins, Aurelia Balpe starfsmaður Alþjóðasambandsins og Garðar Guðjónsson formaður Kópavogsdeildar.
Kópavogsdeild Rauða krossins fékk í gær heimsókn frá Aureliu Balpe sem starfar á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins í Genf í Sviss. Aurelia er að kynna sér samstarf landsfélaga Rauða krossins, þ.á.m. vinadeilda-samstarf. Í heimsókninni fræddist hún m.a. um samstarf Kópavogsdeildar við deildir innan Rauða krossins í Albaníu en Kópavogsdeild tekur nú þátt í verkefni í Albaníu sem snýr að því að sporna við miklu brottfalli barna úr grunnskóla.
 

28. apr. 2005 : Umræða um árangursríkt samstarf innan Rauða krossins

David Lynch frá landsskrifstofu Rauða kross Íslands, Hulda Perry úr Reykjavíkurdeild Rauða krossins, Aurelia Balpe starfsmaður Alþjóðasambandsins og Garðar Guðjónsson formaður Kópavogsdeildar.
Kópavogsdeild Rauða krossins fékk í gær heimsókn frá Aureliu Balpe sem starfar á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins í Genf í Sviss. Aurelia er að kynna sér samstarf landsfélaga Rauða krossins, þ.á.m. vinadeildasamstarf. Í heimsókninni fræddist hún m.a. um samstarf Kópavogsdeildar við deildir innan Rauða krossins í Albaníu en Kópavogsdeild tekur nú þátt í verkefni í Albaníu sem snýr að því að sporna við miklu brottfalli barna úr grunnskóla.

Fulltrúar Kópavogsdeildar og Reykjavíkurdeildar ræddu við Aureliu um hvernig hægt væri að gera vinadeildasamstarf sem árangursríkast og tryggja að unnið sé að sameiginlegum markmiðum.
 

22. apr. 2005 : Aukin aðsókn í Dvöl

Sólrún starfsmaður í Dvöl og fleiri í föstudagskaffi.

Undanfarnar vikur hefur verið mjög gestkvæmt í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða í Kópavogi. Aðsóknin í athvarfið hefur verið stigvaxandi frá áramótum þó svo að munur sé á fjölda gesta milli daga.
-Það er alltaf töluverður fjöldi af fastagestum en upp á síðkastið hafa nýir gestir bankað upp á í auknum mæli. Auk þess hafa einstaklingar verið að koma aftur eftir nokkra fjarveru, segir Sólrún Helga Ingibergsdóttir, starfsmaður í Dvöl.


-Sjaldgæft er að fólk komi í Dvöl upp á eigin spýtur, heldur er það oftast fyrir tilstilli og með stuðningi aðila innan heilbrigðiskerfisins. Aðilar í stuðningsteymi fyrir geðfatlaða, sem sett var saman í fyrra, hafa til að mynda verið iðnir við að benda fólki á Dvöl og aðstoða einstaklinga við að stíga þangað fyrstu skrefin. Það er mjög mikilvægt að fólki sé fylgt nokkrum sinnum í Dvöl til að gera einstaklingum auðveldara með að aðlagast, annars er hætta á að þeir komi aldrei aftur, segir Sólrún.

12. apr. 2005 : Feiknagóð fjársöfnun sex stúlkna

Dagbjört Rós, Harpa Hrönn og Dagbjört Silja.

Sex stúlkur í Kópavogi hafa á undanförnum dögum safnað samtals 18.781 kr. fyrir hjálparstarfi. Stúlkurnar afhentu Kópavogsdeild Rauða krossins ágóðann af söfnun sinni sem deildin hefur komið áleiðis í hjálparsjóð Rauða kross Íslands til styrktar hjálparstarfi erlendis. Eins og greint var frá hér á vefnum í síðustu viku byrjuðu vinkonurnar Dagbjört Silja og Harpa Hrönn að safna fé fyrir hjálparstarfi í tóma öskju sem varð á vegi þeirra. Þær fengu síðan til liðs við sig vinkonu sína, Dagbjörtu Rós Jónsdóttur, og söfnuðu samtals 10.976 kr. Stelpurnar eru allar í 5. bekk Kársnesskóla. Þrjár aðrar vinkonur sáu til stelpnanna og ákváðu að feta í fótspor þeirra. Það voru þær Álfrún Kolbrúnardóttir, Helga Jóna Gylfadóttir Hansen og Stefanía Ósk Hjálmarsdóttir, 9 og 10 ára nemendur í Kópavogsskóla. Þær söfnuðu alls 7.805 kr.
Stefanía Ósk, Álfrún og Helga Jóna.

11. apr. 2005 : Kamilla kveður sem framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar

Garðar Guðjónsson formaður kveður Kamillu.
Kamilla Ingibergsdóttir hefur lokið störfum sem framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar Rauða krossins. Kamilla hóf störf í febrúar 2004 og leysti af Fanneyju Karlsdóttur sem fór í leyfi. Fanney hefur nú snúið aftur til starfa eftir dvöl í Kína og fæðingarorlof.

5. apr. 2005 : Duglegar Kópavogsstelpur safna fyrir hjálparstarfi

Dagbjört Silja og Harpa Hrönn.

Það var ekkert aprílgabb þegar tvær hressar stelpur, Dagbjört Silja Bjarnadóttir og Harpa Hrönn Stefánsdóttir, bönkuðu upp á 1. apríl og færðu Kópavogsdeild Rauða kross Íslands 6.363 kr. til styrktar hjálparstarfi í Asíu. Stelpurnar höfðu verið að safna að undanförnu eftir skóla og um helgar með góðum árangri. Fólk sem varð á vegi þeirra var duglegt að gefa þótt ekki hefðu allir verið með reiðufé á sér.

- Sumir tæmdu veski sín og vasa af smápeningum og afhentu okkur. Við fengum hugmyndina að þessari söfnun þegar við fundum tóma öskju úti á götu og ákváðum að safna í hana peningum til styrktar hjálparstarfi. Við horfum alltaf á fréttir og höfum þannig fylgst með ástandinu í Asíu vegna flóðbylgjunnar á annan í jólum. Við heyrðum líka um þetta í skólanum okkar sem tók þátt í söfnuninni Neyðarhjálp úr norðri, sögðu þær Dagbjört Silja og Harpa Hrönn sem eru nemendur í 5. bekk Kársnesskóla.