24. maí 2005 : Samstarfssamningur um neyðarvarnir á höfuðborgarsvæðinu

 

Fulltrúar deilda Rauða kross Íslands á höfuðborgar-svæðinu undirrita samstarfssamning um neyðarvarnir.

7 fulltrúar frá Kópavogsdeild Rauða krossins sátu aðalfund Rauða kross Íslands sem haldinn var í Mosfellsbæ 21. maí sl. Á fundinum var Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, kosinn í stjórn Rauða kross Íslands.

Meðfram aðalfundinum skrifuðu deildir Rauða kross Íslands á höfuðborgar-svæðinu undir samkomulag um að sameina neyðar-nefndir félagsins á svæðinu. Með því er ætlunin að efla samvinnu deildanna svo þær geti betur brugðist við neyðarástandi á svæðinu.

24. maí 2005 : Nemendur MK fræðast um þróunarstarf Rauða krossins

Nemendur MK fengu fræðslu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar.
Nemendur í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda, sem er kenndur í Menntaskólanum í Kópavogi, komu fyrir stuttu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og fengu kynningu á þróunarstarfi Rauða krossins. Nína Helgadóttir fræddi nemendurna og kennarann þeirra, Hjördísi Einarsdóttur, meðal annars um alnæmisverkefni Rauða krossins í Afríku.

18. maí 2005 : Hefur þú gögn um sögu Kópavogsdeildar?

Kópavogsdeild Rauða krossins undirbýr ritun sögu deildarinnar með hliðsjón af 50 ára afmæli deildarinnar 12. maí 2008. Til að afla sem flestra heimilda auglýsir deildin eftir heimildum um sögu deildarinnar. Nánar er fjallað um heimildaleitina í meðfylgjandi grein eftir formann Kópavogsdeildar, Garðar H. Guðjónsson.

13. maí 2005 : Börn og umhverfi - námskeið í maí og júní

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands heldur námskeiðið Börn og umhverfi (áður barnfóstrunámskeið) fyrir ungmenni fædd árin 1991, 1992 og 1993.

Fyrsta námskeiðið: 23., 24., 25. og 26. maí 
                             kl. 17-20 alla dagana.

Annað námskeiðið: 1., 2., 6. og 7. júní 
                             kl. 17-20 alla dagana.

Námskeiðsgjald: 5.500 kr. Innifalin eru námskeiðsgögn, bakpoki með skyndihjálparbúnaði og hressing.
Skráning: Í síma 554 6626 eða á [email protected]

12. maí 2005 : Ágóði af fatamarkaði Kópavogsdeildar til barna í neyð

Fjöldi fólks gerði góð kaup til styrktar góðu málefni.
Fjöldi fólks lagði leið sína á fatamarkað Kópavogsdeildar Rauða krossins sem haldinn var í tilefni af alþjóðadegi Rauða krossins 8. maí. Á markaðnum voru seld notuð föt til styrktar börnum í neyð vegna alnæmisvandans í Malaví. Salan gekk afar vel því alls söfnuðust 91.500 kr.

Kópavogsdeild þakkar öllum þeim sem komu á markaðinn og keyptu föt. Þar að auki eiga þakkir skyldar allir þeir sjálfboðaliðar sem tóku þátt í að undirbúa og halda markaðinn. Ekki er útilokað að annar fatamarkaður verði haldinn á vegum deildarinnar áður en langt um líður.

9. maí 2005 : Slys á börnum - námskeið

Námskeiðið Slys á börnum er haldið 10. og 12. maí.
Kópavogsdeild Rauða krossins heldur námskeiðið Slys á börnum 10. og 12. maí kl. 19-22 í Hamraborg 11, 2. hæð.

Á námskeiðinu er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Leiðbeint er í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna, andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús o.fl. Námskeiðið getur gagnast öllum þeim sem umgangast börn hvort sem er í starfi eða daglegu lífi.

7. maí 2005 : Frétt RKÍ

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur námskeiðið Slys á börnum 10. og 12. maí kl. 19-22 í Hamraborg 11, 2. hæð. Á námskeiðinu er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Leiðbeint er í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna, andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús o.fl. Námskeiðið getur gagnast öllum þeim sem umgangast börn hvort sem er í starfi eða daglegu lífi. 

·        Leiðbeinandi: Sigríður K. Sverrisdóttir, hjúkrunarfræðingur. 
·        Námskeiðsgjald: 5.000 kr./7.000 kr. ef maki eða eldra systkin tekur líka þátt. Innifalin eru námskeiðsgögn og skírteini sem staðfestir þátttöku.
·        Skráning í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected] eigi
               síðar en 10. maí. 

2. maí 2005 : Fatamarkaður 7. maí

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur fatamarkað laugardaginn 7. maí kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Allur ágóði rennur til styrktar börnum í neyð vegna alnæmisvandans í Malaví. Fatamarkaðurinn er haldinn í tilefni alþjóðadags Rauða krossins 8. maí og 50 ára afmælis Kópavogsbæjar. Seld verða notuð föt á konur, karla, ungmenni og börn.

Verð 300 kr./500 kr.

Kaffi á könnunni.