30. jún. 2005 : Sumarlokun

Skrifstofa og sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar er lokuð vegna sumarleyfa en opnar aftur mánudaginn 15. ágúst. Opnunartíminn verður þá sem fyrr alla virka daga kl. 11-15. Ef nauðsyn krefur er hægt að hafa samband við formann deildarinnar, Garðar H. Guðjónsson á [email protected].

27. jún. 2005 : Gestir athvarfa grilla saman

Pylsurnar runnu ljúflega niður í viðstadda í Guðmundarlundi.

Gestir í athvörfunum Dvöl, Vin og Læk, sem eru athvörf Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu, grilluðu saman í Guðmundarlundi í Kópavogi 21. júní síðastliðinn. Gestirnir mættust á miðri leið því athvörfin þrjú eru í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Í Guðmundarlundi fengu viðstaddir að heyra sögu lundarins og farin var smá ganga um skóginn. Í grillveislunni voru kosnir pylsukóngar (þeir sem borðuðu flestar pylsur) og sunginn var afmælissöngur fyrir einn gestinn sem átti 44 ára afmæli þennan dag. Ætlunin er að gestir athvarfanna fari aftur í Guðmundarlund 20. júlí og grilli saman.

21. jún. 2005 : Fjöldi krakka safnar fyrir hjálparstarfi

Sóldís Birta, Ólöf María og Dagbjört Silja.
Nokkrir hópar af krökkum hafa að undanförnu bankað upp á hjá Kópavogsdeild Rauða kross Íslands og afhent deildinni ágóðann af fjársöfnun sinni sem hefur að mestu farið fram með tombólum og flöskusöfnunum víðs vegar um Kópavog. Í maí söfnuðust samtals 20.871 kr. fyrir tilstilli krakkanna. Fjármagnið fer í að styrkja börn í neyð í gegnum verkefni Rauða krossins erlendis. Kópavogsdeild Rauða krossins þakkar þessum röggsömu Kópavogskrökkum kærlega fyrir dugnaðinn og bæjarbúum fyrir að hafa lagt þeim lið. Myndir af hópunum eru neðar í fréttinni.

20. jún. 2005 : Mannúð og menning - námskeið í júlí

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands heldur sumarnámskeiðið „Mannúð og menning“ 4.-8. júlí í Hamraborg 11, 2. hæð. Námskeiðið er fyrir börn á aldrinum 9-11 ára og stendur kl. 9-16 alla dagana.

Á námskeiðinu er lögð áhersla á fræðslu og leiki í tengslum við hugsjónir Rauða krossins um mannúð og óhlutdrægni. Þátttakendur fræðast um starf Rauða krossins, skyndihjálp, mismunandi menningarheima og umhverfið.

Skráning í síma 864 6750 fyrir 29. júní. Verð: 7.500 kr.

13. jún. 2005 : Frábær aðsókn á Börn og umhverfi

Þátttakendur á Börn og umhverfi.

Námskeiðið Börn og umhverfi hefur verið afar vinsælt að undanförnu hjá Kópavogsdeild en þar læra ungmenni á aldrinum 12-15 ára bæði umgengni og fram-komu við börn og slysaforvarnir og skyndihjálp. Þrjú námskeið urðu fljótt fullbókuð og fjöldi skráninga er kominn á fjórða námskeiðið sem hefst 15. júní. Upphaflega stóð til að halda tvö námskeið en sökum mikillar eftirspurnar var fyrst sett á eitt aukanámskeið og svo annað. Enn eru nokkur laus pláss fyrir áhugasama á seinna auka-námskeiðið. Eins eru laus pláss á námskeiðið Mannúð og menning 4.-8. júlí sem miðast við þátttakendur á aldrinum 9-11 ára.

9. jún. 2005 : Dvalarfólk í ferðalagi á Suðurlandi

Ferðalangar úr Dvöl og Læk í Skálholti.

Gestir og starfsfólk í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, fóru í ferðalag 7. júní ásamt fólki úr Læk, athvarfi í Hafnarfirði. Í ferðalaginu var áð á merkum stöðum á Suðurlandi. Starfsmaður Árnesingadeildar Rauða kross Íslands, Ragnheiður Ásgeirsdóttir, slóst í för með hópnum og veitti honum leiðsögn. Fyrst var farið í dýragarðinn í Slakka þar sem ferðalangar skoðuðu íslensk húsdýr sem höfðu þó mörg skriðið í skjól í rigningunni. Því næst var ekið að Skálholti þar sem Árnesingadeild bauð hópnum upp á dýrindis súpu og brauð.

8. jún. 2005 : Glatt á hjalla í hópefli heimsóknavina

Ingrid og Gróa Margrét fluttu sónötur í hópeflinu.
Glatt var á hjalla í síðasta hópefli heimsóknavina fyrir sumarið sem haldið var 7. júní í sjálfboða-miðstöð Kópavogsdeildar. Þar stigu á stokk tvær ungar Kópavogskonur, Ingrid Karlsdóttir og Gróa Margrét Valdimarsdóttir, sem eru báðar langt komnar með nám í fiðluleik. Þær fluttur nokkrar sónötur og hlutu mikið lof fyrir. Fanney Karlsdóttir, framkvæmda-stjóri Kópavogsdeildar, sagði frá fjölbreyttum verkefnum sem hafa verið ofarlega á baugi hjá deildinni að undanförnu. Að lokum tóku svo heimsóknavinir lagið við undirleik Guðrúnar Lilju Guðmundsdóttur á gítar.

3. jún. 2005 : Grillveisla og gleði hjá ungum innflytjendum

María sjálfboðaliði sá um að grilla pylsurnar.
Vetrarstarfi Kópavogsdeildar með ungum innflytjendum lauk 1. júní með grillveislu í blíðskaparveðri. Veislan var haldin í garðinum í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, sem Kópavogsdeild Rauða krossins tekur þátt í að reka. Pylsurnar runnu ljúflega niður í káta krakkana og því næst var farið í vinsæla útileiki. Að lokum kvöddust sjálfboðaliðarnir og krakkarnir og þökkuðu hvert öðru fyrir veturinn. Í haust hefst að nýju viðburðaríkt vetrarstarf með krökkunum og líklegt er að einhverjir nýir nemendur sem og nýir sjálfboðaliðar taki þátt.