26. ágú. 2005 : Kópavogsdeild aðstoðar 150 börn í vanda í Albaníu

Skóli í bænum Gjirokastra.
Kópavogsdeild tekur þátt í verkefni albanska Rauða krossins sem snýr að börnum og ungmennum í neyð. Verkefnið miðar að því að koma í veg fyrir mikið brottfall barna úr skóla og hættunni á vinnuþrælkun barna, mansali og eiturlyfjaneyslu.

150 börn úr bæjunum Gjirokastra, Permet og Tepelene í Albaníu hljóta nú aðstoð við að aðlagast vel skóla og samfélagi í gegnum nám og félagsstarf. Tekist hefur að auka hvata barnanna til náms og efla félagslega færni þeirra. Sum þessara barna eru munaðarlaus, hafa búið á götunni eða við mjög slæmar félagslegar og efnahagslegar aðstæður.

19. ágú. 2005 : Líf og fjör á sumarnámskeiði

Krakkarnir fyrir framan sjúkrabílinn sem þau fengu að skoða.
Hópur fjörugra krakka sótti í sumar námskeiðið Mannúð og menning á vegum Kópavogs-deildar. Krakkarnir fóru í margskonar leiki og fræddust um hugsjónir Rauða krossins um mannúð og óhlutdrægni. Fjallað var um mismunandi menningar-heima og líf fólks í fjarlægum löndum. Hópurinn var fjölþjóðlegur því meðal þátttakenda voru krakkar frá Albaníu og Tælandi auk Íslands. Einn dagur var tekinn í fræðslu um umhverfið og annar í að læra undirstöðuatriði í skyndi-hjálp en þá fengu krakkarnir að skoða og prófa búnað sjúkrabíls. Námskeiðið endaði á uppskeru-hátíð í Viðey þar sem slegið var upp grillveislu.

18. ágú. 2005 : Pólskir Rauða kross félagar í heimsókn

Þorbjörn Jensson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, sýnir gestunum trésmíðaverkstæði Fjölsmiðjunnar.
Kópavogsdeild fékk í gær heimsókn frá fulltrúum pólska Rauða krossins, þeim Marek Malczewski framkvæmdastjóra landsfélagsins og Krzysztof Kedzierski sem sér um innri uppbyggingu pólska Rauða krossins. Þeir félagar eru á Íslandi í nokkra daga til að fræðast um verkefni og innri uppbyggingu Rauða kross Íslands og sækja sér fyrirmyndir fyrir störf sín í Póllandi.
Gestirnir komu í sjálfboða-miðstöð Kópavogsdeildar og fengu upplýsingar um deildina og helstu sjálfboðaverkefni. Því næst lögðu þeir leið sína í Fjölsmiðjuna og Dvöl og fengu kynningu á þeirri starfsemi sem þar fer fram.

15. ágú. 2005 : Byggjum betra samfélag

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands hvetur Kópavogsbúa og aðra höfuðborgarbúa til þátttöku í Menningarnótt í Reykjavík 20. ágúst þar sem Rauði kross Íslands stendur fyrir stórtónleikum á Miðbakka undir yfirskriftinni „Byggjum betra samfélag“. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 og eru haldnir í samvinnu við Rás 2 og Íslandsbanka.