30. sep. 2005 : Strákar úr Smárahverfi safna fyrir hjálparstarfi

Hilmar Jökull og Sindri Þór með ágóðann af tombólunni.
Tveir strákar úr Smárahverfi, Hilmar Jökull Sigurðsson og Sindri Þór Stefánsson, afhentu í dag Kópavogsdeild ágóða af tombólu sem þeir héldu fyrir stuttu á Smáratorgi og fyrir framan róluvöll í hverfinu sínu. Strákarnir söfnuðu samtals 4.071 kr. sem fer í að styrkja börn í neyð í gegnum verkefni Rauða krossins erlendis.

Strákunum var kunnugt um starfsemi Rauða krossins enda hafði annar þeirra tekið þátt í sumarnámskeiðinu Mannúð og menning sem Kópavogsdeild hélt í sumar. Auk þess urðu strákarnir varir við söfnunina Neyðarhjálp úr norðri fyrr á þessu ári til styrktar fórnarlömbum fljóðbylgjunnar í Asíu.

23. sep. 2005 : Ungir innflytjendur mættir að nýju í sjálfboðamiðstöðina

Margir leikir vekja kátínu í starfi með ungum innflytjendum.
Starf með ungum innflytjendum hófst aftur í vikunni samfara nýju skólaári. 10 nemendur úr nýbúadeild Hjallaskóla mættu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og áttu skemmtilega samverustund með fjórum sjálfboðaliðum deildarinnar.

Byrjað var á að fara í nafnaleiki enda ný andlit í hópi nemenda og sjálfboðaliða. Því næst var farið í málörvunarleiki og rætt um hvað hver og einn gerði í sumarfríinu. Framundan er fjölbreytt vetrarstarf með krökkunum sem er skipulagt af hópi sjálfboðaliða.

21. sep. 2005 : Vellukkað landsmót athvarfa fyrir geðfatlaða

Þátttakendur á landsmótinu í Dölunum.
Athvörf Rauða krossins fyrir geðfatlaða héldu sameiginlegt landsmót 14.-16. september að Laugum í Sælingdal (eða „Sæludal“ eins og ánægður mótsgestur kallaði staðinn að afloknu móti). Gestir og starfsfólk athvarfanna Dvöl, Vin og Laut mættu til leiks en fulltrúar frá athvarfinu Læk í Hafnarfirði áttu því miður ekki heimangengt að þessu sinni.

Lagt var af stað vestur í Dali 14. september og hittust mótsgestir hressir á Laugum, gæddu sér á góðum veitingum, fengu sér sundsprett og sungu og trölluðu fram á kvöld.

16. sep. 2005 : Við þurfum fleiri sjálfboðaliða!

Kópavogsdeild óskar eftir fleiri sjálfboðaliðum í fjölbreytt mannúðarverkefni deildarinnar. Sjálfboðaliðar taka þátt í verkefnum sem miða að því að aðstoða einstaklinga sem búa við þrengingar og mótlæti. Verkefnin eru fjölbreytt og því ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, sjá nánari lýsingar neðar. Áhugasamir hafi samband í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected] .

12. sep. 2005 : Við þurfum fleiri sjálfboðaliða!

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands óskar eftir sjálfboðaliðum til þess að sinna margvíslegum mannúðarverkefnum deildarinnar. Kynningarfundur fyrir nýja sjálfboðaliða verður haldinn í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11 fimmtudaginn 15. september kl. 20.

Um er að ræða verkefni sem henta körlum jafnt sem konum, fólki á öllum aldri:

• Heimsóknavinir
• Aðstoð við geðfatlaða í Dvöl
• Föt sem framlag
• Starf með ungum innflytjendum
• Neyðarvarnir
• Ökuvinir
• Fataflokkun og afgreiðsla í L-12
• Fjölsmiðjan

Nánari upplýsingar eru veittar í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11 sem er opin alla virka daga kl. 11-15, sími 554 6626, netfang [email protected].

9. sep. 2005 : Við þurfum fleiri sjálfboðaliða!

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands óskar eftir sjálfboðaliðum til þess að sinna margvíslegum mannúðarverkefnum deildarinnar.
Kynningarfundur fyrir nýja sjálfboðaliða verður haldinn í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11 fimmtudaginn 15. september kl. 20.
Um er að ræða verkefni sem henta körlum jafnt sem konum, fólki á öllum aldri.

8. sep. 2005 : Heimsóknavinir fræðast um nýtt sambýli aldraðra í Kópavogi

Guðrún Viggósdóttir sagði frá sambýli minnissjúkra í Roðasölum.
Á fundi heimsóknavina á þriðjudag hlýddu heimsóknavinir Kópavogsdeildar á erindi um nýtt sambýli aldraðra í Kópavogi. Guðrún Viggósdóttir, forstöðukona sambýlisins í Roðasölum, sagði frá starfseminni sem er rekin í þágu minnissjúkra. Á sambýlinu búa 8 einstaklingar en þar er jafnframt starfrækt dagvistun fyrir um 20 aðra á virkum dögum.

Sambýlið hóf starfsemi fyrr á árinu og hefur mætt brýnni þörf minnissjúkra og aðstandenda þeirra. Guðrún sagði ómetanlegt starf þeirra sjálfboðaliða Kópavogsdeildar sem eru að hefja störf við sambýlið, annað hvort með heimsóknum til einstakra vistmanna eða með því að stýra samverustundum. Enn er þörf á fleiri sjálfboðaliðum við sambýlið í Roðasölum og í önnur verkefni heimsóknavina í Kópavogi.

2. sep. 2005 : Sjálfboðaliðar í Dvöl hefja hauststarfið

Í haust munu um 10 sjálfboðaliðar starfa í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, og skipta með sér vöktum á laugardögum. Sjálfboðaliðarnir hittust í vikunni til að stilla saman strengi fyrir starfið sem er framundan. Í hópnum eru tveir nýir sjálfboðaliðar sem munu njóta góðs af reynslu reyndari sjálfboðaliða fyrst um sinn enda starfa ávallt tveir saman á vakt.

Sjálfboðaliðar í Dvöl hafa verið virkir
í rekstri athvarfsins frá stofnun þess árið 1998. Sem sjálfboðaliðum Rauða krossins er þeim veitt nauðsynleg þjálfun og fræðsla án endurgjalds, svo sem námskeið í skyndihjálp og sálrænni skyndihjálp. Nýir sjálfboðaliðar eru alltaf velkomnir í hópinn og áhugasamir geta sett sig í samband við Kópavogsdeild Rauða krossins.