28. nóv. 2005 : Nemendur Fjölsmiðjunnar fræddir um skyndihjálp

Nemendurnir spreyttu sig á notkun sárabinda.
Nemendur Fjölsmiðjunnar sóttu nýverið námskeið í skyndihjálp í boði Kópavogsdeildar Rauða krossins. Á námskeiðinu lærðu nemendurnir grunnfærni í að beita skyndihjálp, endurlífgun og sálrænum stuðningi í neyðartilvikum. Nemendurnir öðluðustu auk þess færni í að meta einkenni algengra sjúkdóma og áverka. Á námskeiðinu voru flestir að fræðast um skyndihjálp í fyrsta sinn og öðlast þekkingu sem eykur öryggi þeirra og annarra í starfi sem og daglegu lífi.

Fjölsmiðjan, sem staðsett er í Kópavogi, er mennta- og verkþjálfunarsetur fyrir fólk á aldrinum 16-24 ára sem ekki hefur náð að fóta sig í námi eða á vinnumarkaði.

28. nóv. 2005 : Áhugasamir strákar söfnuðu fyrir Rauða krossinn

Breki, Jón Veigar, Jón Ingi og Elmar Tryggvi.
Fjórir vinir og bekkjarfélagar úr Kópavogsskóla héldu tombólu fyrir utan verslunina Nóatún í Hamraborg og söfnuðu alls 4.850 kr. fyrir Rauða kross Íslands. Þetta voru þeir Breki Barkarson, Elmar Tryggvi Hansen, Jón Ingi Þorgeirsson og Jón Veigar Kristjánsson.

Strákarnir voru áhugasamir um Rauða krossinn og komu aftur í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar til að taka þátt í starfi með ungum innflytjendum sem fer fram á miðvikudögum kl. 14-15.30.

24. nóv. 2005 : Sjö ára nemendur í Hjallaskóla styðja börn í Sri Lanka

Nemendurnir ásamt Garðari H. Guðjónssyni, formanni Kópavogsdeildar, sem tók við söfnunarfénu. Sigríður Stefánsdóttir umsjónarkennari er lengst til hægri.
Nemendur í bekknum 2.S.S. í Hjallaskóla afhentu Rauða krossi Íslands afrakstur af fjársöfnun sinni fyrir bágstödd börn. Söfnunarfénu verður varið í stuðning við börn í Sri Lanka. Hugmyndin að söfnuninni varð til í tíma í samfélagsfræði þegar nemendurnir voru að læra um mismunandi lífskjör og hvernig væri hægt að hjálpa öðrum.

Krakkarnir söfnuðu alls 11.057 kr. með fjölbreyttum hætti, svo sem með því að safna flöskum og dósum, halda tombólur og einn nemandinn gaf hluta af peningum sem hann hafði nýlega fengið í afmælisgjöf. Kennslustundir í samfélagsfræði og kristinfræði voru nýttar undir söfnunina og fræðslu henni tengdri en þar að auki urðu stærðfræðitímarnir mjög vinsælir þegar þeir voru nýttir í flokkun og talningu á drykkjarílátum sem höfðu safnast.

24. nóv. 2005 : Fjölmennt fræðslukvöld um geðraskanir

Anna Rósa Magnúsdóttir, gestur og sjálfboðaliði í Dvöl, sagði frá starfsemi Dvalar.
Streita, geðsjúkdómar og svefnvenjur voru á meðal þess sem rætt var um á mánudagskvöldið þegar sjálfboðaliðar, gestir og starfsfólk Dvalar, Lækjar og Vinjar hittust í húsakynnum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands.

Rauði krossinn rekur eins og kunnugt er þrjú athvörf fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu: Dvöl í Kópavogi, Læk Hafnarfirði og Vin í Reykjavík. Markmiðið með rekstrinum er að rjúfa félagslega einangrun geðfatlaðra og styrkja með samneyti við aðra andlega og líkamlega heilsu. Þar sem athvörfin eru þrjú á höfuðborgarsvæðinu þykir tilvalið að standa að sameiginlegum fræðslukvöldum og frumraunin var nú í vikunni.

Gestir athvarfanna höfðu gert veggspjöld um starfsemi athvarfanna sem hengd voru upp og því næst kynntu gestir og sjálfboðaliðar starfsemina á hverjum stað.

22. nóv. 2005 : Flöskusöfnun stúlkna í Smárahverfi

Eygló Dögg, Sólveig Huld og Arndís Lea. Á myndina vantar Sigrúnu Sunnu.
Fjórar vinkonur söfnuðu alls 3.500 kr. fyrir Rauða krossinn með því að afhenda ágóðann af flöskum og dósum sem þær höfðu safnað meðal íbúa í Smárahverfi. Þetta voru þær Eygló Dögg Ólafsdóttir, Sólveig Huld Sveinsdóttir, Arndís Lea Ásbjörnsdóttir og Sigrún Sunna Guðmundsdóttir.

Stúlkurnar höfðu búið til lag um sólina, tunglið og norðurljósin sem þær sungu fyrir fólkið í hverfinu og einnig þegar þær komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins.

17. nóv. 2005 : Samstarf um aðstoð við fjölskyldur í Kópavogi

Fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins og Mæðrastyrksnefndar Kópavogs við afhendingu styrksins.
Kópavogsdeild Rauða kross Íslands og Mæðrastyrks-nefnd Kópavogs munu starfa saman að neyðaraðstoð við bágstadda einstaklinga og fjölskyldur fyrir jólin. Mæðrastyrksnefnd Kópavogs annast úthlutun á matar-styrkjum til fjölskyldna í neyð með stuðningi frá Kópavogsdeild Rauða krossins sem hefur afhent Mæðrastyrksnefnd styrk að upphæð 500 þúsund krónur. Kópavogsdeild Rauða krossins getur einnig haft milligöngu um að koma umsóknum um aðstoð til Mæðrastyrksnefndar.

Í desember munu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar aðstoða Mæðrastyrksnefnd við úthlutanir á matarstyrkjum og fatnaði til Kópavogsbúa. Mæðrastyrksnefnd sér um að úthluta fatnaði til þeirra sem þurfa á þriðjudögum kl. 16-18 í Fannborg 5. Rauði kross Íslands úthlutar fatnaði á miðvikudögum kl. 9-14 í fataflokkunarstöðinni að Gjótuhrauni 7 í Hafnarfirði.

15. nóv. 2005 : Sjálfboðaliðar fjölmenntu á Woyzeck

Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sáu sýninguna Woyzeck í síðustu viku í boði leikhópsins Vesturports. Sýningin er sýnd á fjölum Borgarleikhússins þessa dagana við góðar undirtektir. Fyrir utan frábæran leik og óvenjulega sviðsmynd vekur sýningin ekki síst athygli fyrir tónlistina sem Nick Cave samdi sérstaklega fyrir sýninguna. Áhugasamir eru hiklaust hvattir til að skella sér á Woyzeck á meðan færi gefst.

Kópavogsdeild þakkar Vesturporti kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

15. nóv. 2005 : Sigrún kveður sem sjálfboðaliði og framkvæmdastjóri

Sigrún Árnadóttir tekur við blómvendi úr hendi Garðars Guðjónssonar formanns Kópavogsdeildar.
Sigrún Árnadóttir lét af störfum sem framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands í byrjun nóvember. Í kveðjuhófi sem samstarfsmenn Sigrúnar héldu henni þakkaði Garðar Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, Sigrúnu um leið fyrir störf hennar sem sjálfboðaliði Kópavogsdeildar.

Sigrún hefur á undanförnum misserum sinnt af alúð heimsóknum til vistmanna á sambýli fyrir aldraða í Gullsmára. Sökum búferlaflutninga Sigrúnar út fyrir landsteinana mun hún hætta að sinni sjálfboðastörfum fyrir Kópavogsdeild en snýr vonandi aftur að einhverjum tíma liðnum.

4. nóv. 2005 : Góð þátttaka á námskeiðum í skyndihjálp

Námskeið í skyndihjálp hafa verið vinsæl að undanförnu hjá Kópavogsdeild. Vegna mikillar eftirspurnar verður aukanámskeið í viðbrögðum og vörnum gegn slysum á börnum 21. og 22. nóvember kl. 19-22. Uppselt er á námskeið í skyndihjálp 14. nóvember. Áhugasamir eru þó hvattir til að hafa samband því hægt er að skipuleggja annað námskeið á næstunni ef þátttaka leyfir.

Um er að ræða fjögurra klukkustunda námskeið þar sem þátttakendur læra grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað. Námskeiðið byggist á glænýju kennsluefni sem er í takt við nýjustu aðferðir í skyndihjálp og slysaforvörnum.

Á námskeiðinu Slys á börnum læra þátttakendur að þekkja varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri.

2. nóv. 2005 : Ný stefna Kópavogsdeildar samþykkt

Á stjórnarfundi Kópavogsdeildar í gær var samþykkt stefna og verkefnaáætlun deildarinnar 2006-2010. Stefnan byggir á eldri stefnu sem hefur verið í gildi frá árinu 2003 og var sett saman í kjölfar ítarlegrar greiningar á þörfum íbúa í Kópavogi. Eldri stefnan var tekin til endurskoðunar nú á haustdögum í stefnumótun sem fjöldi sjálfboðaliða deildarinnar auk starfsfólks tók þátt í. Nýju stefnuna má nálgast hér til hliðar og hér.